Framkvæmdir við Víkurveg og Vesturlandsveg

Góðan daginn hestamenn.

 Bréf þetta er sent forsvarsmönnum hestafélaga á Reykjavíkursvæðinu. Eins og mögulega hefur vakið athygli ykkar standa yfir framkvæmdir við gatnamót Víkurvegar og Vesturlandsvegar. Orkuveitan leggur þar rafstreng og hefur leyfi til að leggja hann í reiðstíg þar sem þrengst er við brúnna. Austan og vestan við brúnna liggur strengurinn samsíða stígnum en þverar hann á nokkrum stöðum. Athygli mín var vakin á því nokkuð eftir að framkvæmdir voru vel á veg komnar að þetta er sá tími árs sem reiðstígurinn er helst notaður. Verkinu líkur þó ekki fyrr en að nokkrum vikum liðnum.  Við höfum reynt að sjá til þess að greið leið sé framhjá framkvæmdasvæðinu, en neyðumst til þess að vísa mönnum inn á göngustíg sem þarna liggur samhliða. Verktakinn (ÍAV) hefur einnig reynt að merkja leiðina í gegnum svæðið svo hún sé augljós. Ljóst er að þetta er rask á leið stígsins og höfðum því til ykkar að fara gætilega um svæðið. Við reynum líka að taka ábendingum vel um hvað mætti betur fara.  

f.h. framkvæmdareftirlits með verkinu.

Hópferð á þýska meistaramótið

 Úrval útsýn bað okkur að byrta eftirfarandi tilkynningu

Ferðaskrifstofa allra hestamanna, Úrval-Útsýn verður með ferð á þýska meistaramótið 14.-18. ágúst 2008. Aðeins 25 sæti í boði og gildir reglan að fyrstur kemur fyrstur fær. Það er hinn síungi gleðigjafi, Sigurður Sæmundsson sem verður fararstjóri í ferðinni og ætlar að sjá til þess að hláturtaugarnar verði kitlaðar svo um munar.
Verðið er krónur 84.500 (miðað við gengi 2. júni ) á mann í tvíbýli.  
Innifalið er: Flug, skattar, flugvallarakstur erlendis, gisting á 4* hóteli í 4 nætur með morgunmat, akstur frá hóteli á mótssvæði, aðgöngumiði á mótið og íslensk fararstjórn.Þetta tilboð gildir til 15. júní en eftir það hækkar ferðin um kr. 5.000. Eingöngu er hægt að kaupa ferðina á netinu á slóðinni www.uu.is Með bestu kveðju,Úrval-Útsýn

Reiðhöllin, staða mála

Kæru félagsmenn, það hefur ekki farið framhjá neinum að verulegar tafir hafa orðið á reiðhallarbyggingunni okkar.  Það hefur dregist hjá okkur að setja ykkur inn í stöðu mála, einkum vegna þess að framvinda mála hefur verið með ólíkindum og  við vissum ekki fyrir víst hvernig framhaldið yrði fyrr en nú.  

Við ákváðum að bjóða verkið út í heild á sínum tíma, þ.e. að reistu húsi fullfrágengnu að utan.  Þar með var fullnaðarhönnun hússins innifalin í verkinu.  Þetta var gert til að hafa verkið allt á einni hendi og útiloka þar með að verktakinn kenndi ófullnægjandi hönnun um tafir og aukaverk eins og oft vill verða.  Venjulega gefst þessi aðferð mjög vel og minkar verulega líkurnar á aukaverkum með tilheyrandi aukakostnaði. Allt fór þetta vel af stað og aðalverktakinn réði til sín arkitekt og verkfræðing sem áttu að skila teikningum í águst 2007, en skila átti okkur reiðhöllinni 1.des.2007.  Arkitektinn skilaði fljótt og vel, þannig að hægt var að grafa og gera burðarpúðann undir reiðhöllina, en verkfræðingurinn skilaði ekki teikningum þrátt fyrir að aðalverktakinn legði á hann verulega pressu.  

Nánar...

Fyrirhugaðar framkvæmdir við Tunguveg

 Vegna skiptra skoðana á fyrirhuguðum Tunguvegi vill stjórn hestamannafélagsins Harðar koma eftirfarandi á framfæri svo afstaða stjórnar hestamannafélagins til málsins sé skýr.

Fyrirhugaður Tunguvegur var fyrst kynntur formlega fyrir félaginu í apríl 2005, en þá fóru þáverandi aðalstjórn, reiðveganefnd og deild hesthúseigendafélagsins yfir þau skipulagsgögn sem fyrir lágu.  Þá, sem nú, lá ljóst fyrir að félagsmenn Harðar vilja vera áfram á Varmárbökkum með sína hesthúsabyggð og aðstöðu, við viljum vera í byggð en ekki sífellt láta hrekjast lengra til fjalla.  Þetta er okkur mikilvægt meðal annars með tilliti til þess að börnin okkar komist í hesthúsin gangandi eða hjólandi, og einnig að stutt sé fyrir okkur að gefa og sinna dýrunum.  Það gengur ekki að segja þetta í einu orðinu og setja sig svo á móti annarri uppbyggingu í kringum okkur í hinu, hvort sem um byggingar- eða samgöngumannvirki er að ræða.  Það er hins vegar mjög mikilvægt að gæta þess að reiðleiðir til og frá hverfinu séu góðar, sem og að reiðleiðir um byggðina í Mosfellsbæ séu ávallt í lagi og tekið tillit til þeirra við deiliskipulagningu nýrra hverfa.  Þessi stefna var mótuð árið 2005 og hafa stjórnarmenn, reiðvegarnefndarmenn og deild félags hesthúseigenda unnið eftir henni síðan með mjög góðum árangri. 

Nánar...

Tilkynning til félagsmanna

Kæru félagsmenn.  Síðasta laugardag var haldið umdeilt einkasamkvæmi í félagsheimili Harðar.  Samkvæmið var haldið af nokkrum félagsmönnum í góðri trú og til styrktar reiðvegagerðar á svæðinu.  Það er ekkert nema gott um það að segja, nema að eitt af atriðunum var ekki við hæfi, sérstaklega í ljósi þeirrar neikvæðu umræðu sem slíkt atriði vakti í fyrra.  Okkur er sagt að slík atriði hafi verið á formlegum karlakvöldum Harðar um árabil eins og reyndar hjá fjölmörgum öðrum hestamanna- og íþróttafélögum.   Þetta  var einnig til siðs þegar kvennakvöld Harðar voru haldin, en þá var svipað atriði á dagskránni , en með karlmanni.   Sú umræða sem á sér stað í þjóðfélaginu í dag hefur gert það að verkum að slík atriði eru óviðeigandi  í aldursblönduðu félagi eins og okkar,  leifar úr fortíðinni.  Félagsheimilið okkar er leigt út til ýmissa uppákoma og fram að þessu höfum við ekki skipt okkur af því hvað þar fer fram svo fremi að það sé innan ramma laga og reglugerða.   Félagsmenn eru margir og í félaginu eiga að rúmast margar og mismunandi skoðanir þeirra einstaklinga sem í því eru.   Það er hinsvegar klár afstaða stjórnar félagsins að leifa ekki slík atriði í félagsheimilinu í framtíðinni.  Ef karlakvöld og/eða kvennakvöld Harðar verða haldin að ári verður það að vera með öðru sniði en hingað til.  Við hörmum þá neikvæðu umræðu sem orðið hefur um félagið vegna þessa, en lítum fram á veginn og tökum höndum saman um að gera gott félag enn betra.

Stjórnin

Þrekþjálfun afreksfólks

Mosfellsbær og íþróttafélögin í Mosfellsbæ hafa gert samning við líkamsræktarstöðina Eldingu, sem er í íþróttahúsinu við Varmárskóla.  Samningurinn felur í sér að Mosfellsbær greiðir Eldingu fyrir ákveðin fjölda tíma  til handa afreksfólki íþróttafélagana sem íþróttafélögin síðan ráðstafa til sinna afreksmanna.  Lögð verður áhersla á þrekþjálfun og Olympiskar lyfitngar undir stjórn þeirra Hjalta Ursusar kraftakarls og Höllu Heimisdóttir líðheilsufræðings.  Þeir sem koma til greina verða að keppa fyrir Hörð og vera í unglinga, ungmenna eða fullorðinsflokki.  Farið verður eftir stigagjafarreglum félagsins, þeim sömu og eru notaðar til að velja íþróttamann Harðar og árangri í öðrum hestaíþróttakeppnum, þolreið, fimi o.s.frv..  Áhugasamir sendi tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  með upplýsingum um aldur og stigafjölda árið 2007 og/ eða annan árangur í hestaíþróttum.  Til að byrja með getum við ráðstafað 10 kortum. 

Tunguvegur, kynning á fyrirhuguðu vegstæði og framtíðar reiðleiðum

Stjórnarmenn Harðar, hesthúseigendafélag og reiðveganefnd voru kölluð til kynningarfundar hjá Mosfellsbæ þar sem farið var yfir tillögur að svokölluðum Tunguvegi sem tengja á Leirvogstunguhverfið við innra vegakerfi Mosfellsbæjar.  Árið 2005 var haldinn kynningarfundur með Herði og fyrirhugað vegstæði kynnt.  Þá voru verulegir ágallar á fyrirkomulagi reiðleiða til og frá hverfinu.  Þáverandi stjórn og reiðveganefnd óskuðu eftir að það yrði lagfært.  Á þeim tillögum sem þarna voru kynntar var búið að koma til móts við allar þær athugasemdir sem félagið gerði á sínum tíma.  Hér fyrir neðan er linkur inn á mos.is þar sem hægt er að skoða kynninguna og sjá hvernig reiðleiðir verða til og frá hesthúsahverfinu ef Tunguvegur verður að veruleika.

Linkurinn sem var gefinn hér vísaði ekki í nýustu tillögurnar, nýr linkur verður settur inn um leið og hann er tilbúinn af hálfu Mosfellsbæjar

Halldór Guðjónsson kosinn íþróttamaður Mosfellsbæjar

Halldór Guðjónsson var kosinn íþróttamaður Mosfellsbæjar á uppskeruhátíð íþróttamanna í Mosfellsbæ.  Þetta er mikil viðurkenning, bæði fyrir Halldór og okkur öll sem stundum þessa íþrótt.  Súsanna Ólafsdóttir var tilnefnd í titilinn íþróttakona Mosfellsbæjar, ein af fjórum íþróttakonum.

  Halldór er frábær íþróttamaður með mikinn metnað og dugnað í sinni íþrótt.  Hann er í fremsta flokki hvar sem hann keppir, auk þess að vera frábær námsmaður sem dúxaði á reiðkennarabraut í Hólaskóla vorið 2007.  Árið 2007 var honum sérstaklega afreksríkt þar sem hann náði því að verða Íslandsmeistari í 250 m skeiði.   

Afreksferill Halldórs í hestaíþróttum 2007

 

2sæti á Ístölti Akureyrar febrúar -keppti fyrir hönd Hólaskóla (boðið)   

 

2sæti á opnu íþróttamóti á Sauðárkróki í tölti Meistara       

 

3sæti á opnu íþróttamóti á Sauðárkróki í gæðingaskeiði     

 

1sæti í tölti meistara á Gæðingamóti Harðar (opið tölt)       

 

1sæti í 100m flugskeiði á Gæðingamóti Harðar (opið skeið)  

 

1sæti í 250m skeiði á Gæðingamóti Harðar (opið skeið)     

 

1sæti og Íslandsmeistaratitill í 250m skeiði á Íslandsmóti fullorðinna á Dalvík   

 

3sæti í gæðingaskeiði opinn flokkur á Íslandsmóti fullorðinna á Dalvík     

 

5sæti í tölti meistaraflokki á Íslandsmóti fullorðinna á Dalvík  

 

5-6sæti í fimmgangi opinn flokkur(varpað hlutkesti) á Íslandsmóti fullorðinna á Dalvík  

 

Einn hestur sýndur í kynbótadómi í fyrstu verðlaun   

 

Stóð efstur og fékk reiðkennaraverðlaunin á reiðkennarabraut Hólaskóla vorið 2007

 

 

 

Halldór var tilnefndur af fagráði í hrossarækt ásamt íþróttafréttamönnum,  einn af 6 knöpum sem Skeiðknapi ársins sem veitt var á uppskeruhátíð hestamanna í nóvember síðastliðnum.  Þetta er mikill heiður fyrir hann sem og Hestamannafélagið Hörð