Reglur við úthlutun beitarhólfa

Úthlutun beitarhólfa, reglur:

Allir skuldlausir félagsmenn Hestamannafélagsins Harðar sem sækja um beit hafa rétt á beitarhólfi meðan einhver slík eru laus. Umsækjandi skal vera með hesta á félagssvæði Harðar. Þetta skilyrði taki gildi vorið 2019. Við útfyllingu umsóknar um beitarhólf verði sérstaklega spurt um hvar umsækjandi haldi sína hesta.

Allir sem hafa áður hlotið hólf og ekki brotið gegn reglum um umgengni fá úthlutað sama hólfi og árið áður. Við úthlutun til nýrra umsækjenda skal tekið tillit til þess hvort umsækjandi hafi sótt um áður en ekki fengið. Þeir sem oftast hafa sótt um án þess að fá úthlutað hólfi skulu vera í forgangi losni hólf eða ný svæði komi til úthlutunar. Við úthlutun nýrra beitarhólfa, skulu greiðendur opinberra gjalda í Mosfellsbæ að jafnaði hafa forgang.

Stjórn Harðar ákveður hvort draga skuli um hólf þegar umsækjendur eru fleiri en laus hólf til nýrrar úthlutunar. Þeir sem hafa hlotið hólf til beitar skulu að öllu jöfnu fá hólfið að ári sé það áfram boðið til afnota af hálfu Mosfellsbæjar. Frávik frá því geta verið ítrekuð brot á reglum um notkun og meðferð hólfsins. Á það skal bent að Mosfellsbær úthlutar hólfunum aðeins til eins árs í senn og því getur félagið að sama skapi aðeins úthlutað hólfunum til eins árs í senn.

Hljóti beitarhólf einkunn 4 þrjú ár í röð skal beitarhafi sviptur hólfinu og fær ekki úthlutun hjá félaginu næstu tvö árin. Ávallt þegar beitarhólf fær falleinkunn skal viðkomandi leigjanda skriflega send ábending þar um þar sem minnt er á fyrrgreind viðurlög.

Stranglega bannað er að endurleigja eða lána hólf til annarra aðila (sbr. samningur milli Mosfellsbæjar og Harðar) og gildir þar einu hvort viðkomandi er félagsmaður í Herði eða ekki. Sjái beitarþegi fram á af einhverjum ástæðum, að hann geti ekki eða þurfi ekki hólfið það árið, skal hann láta félagið vita. Verður hólfinu þá endurúthlutað til bráðabirgða það árið.

Ekki er ætlast til að í beitarhólfum Mosfellsbæjar séu folöld eða ótamin tryppi, heldur séu þau ætluð fyrir tamin reiðhross sem einfalt er að meðhöndla komi til þess að þau sleppi út til dæmis. Standi sérstaklega á skal sótt um heimild félagsins hjá framkvæmdastjóra til að geyma hryssur með folöldum eða tryppi til skamms tíma í hólfunum.

Beitarþegum ber að ganga vel og snyrtilega um hólfin. Fjarlægja ber alla lausa plaststrengi og plaststaura að loknum beitartíma. Einnig skal fjarlægja alla minni plaststampa sem ekki er hægt að fergja niður til varnar foki.  Þá skulu stærri vatnskör sett á hvolf fyrir veturinn. Það sem ekki hefur verið fjarlægt af lausum hlutum fyrir 1. október ár hvert verður fjarlægt og ráðstafað/fargað.

Öll hross í beit hjá Herði skulu vera ábyrgðartryggð. Beitarþegi er ábyrgur á að svo sé í viðkomandi beitarhólfi.  Allar girðingar skulu vera með rafmagni allan beitartímann.

Umsækjendur skulu kynna sér reglur þessar til hlítar og staðfesta að svo hafi verið gert með því að haka við í þar til gerðan reit í umsókninni.

Reglur um notkun og umgengni í beitarhólfum

Beitarþegar skulu nýta beitarhólfin af skynsemi og ráðdeild þannig að ekki sé ofbeitt og hólfum skilað hóflega nýttum. Að sama skapi er gerð krafa um að beitin sé sannarleg nýtt en hólf ekki látin vaxa úr sér og standa óbeitt.

Beitarþegum ber að kynna sér hvernig best sé að standa að nýtingu hólfanna með tilliti til aðstæðna á hverjum stað. Við haustúttekt eru hólfin tekin út af sérfræðingi Landgræðslu ríkisins og þau metin skv. dómskala þar sem gefnar eru einkunnir frá 0 sem þýðir óbitið og niður í 5 sem er mikið skemmdur svörður vegna ofbeitar og traðks. Best er að hólfunum sé skilað í einkunn 3 sem þýðir að hólfið sé fullnýtt og skilað í viðunandi ástandi undir veturinn.

Beitartíminn er almennt  frá 10. júní til 10. september en heimilt er í samráði við fulltrúa Mosfellsbæjar að víkja frá þessum dagsetningum á báða bóga gefi aðstæður tilefni til þess.

Beitarþegum ber undantekningarlaust að sjá um viðhald girðinga á eigin kostnað. Þeir sem fá nýtt svæði til beitar þurfa sjálfir að sjá um að girða svæðið á eigin kostnað enda sé það hluti af leigu hólfsins. Nýjar girðingar fyrnast og ganga til félagsins að liðnum 3 árum.

Girðingar skulu vera að lágmarki tveggja strengja með tré eða járnstaurum. Æskilegt er að amk annar þeirra sé vírstrengur. Á hornum skulu vera veglegir burðarstaurar með stögum eða stífum á hornum. Girðingarnar skulu vera rafmagnaðar meðan hross eru í þeim og viðvörunarskilti á þeim þar sem vænta má umferðar í kringum þær. Gaddavírsgirðingar eru stranglega bannaðar og þær sem fyrir eru skulu fjarlægðar.

Til útskýringar:

Við úthlutun undanfarin ár hefur tvennskonar verklag aðallega verið viðhaft. Annarsvegar verið dregið um hver fær hvaða hólf og hinsvegar hólfunum raðað í samráði við umsækjendur.

Síðustu árin hefur verið rætt við alla umsækjendur til að greina enn frekar en kemur fram í umsókn hver þörfin er. Eftir hverju umsækjandinn er að leita. Oft hefur það leitt til að umsækjandi þiggur ekki hólf af ýmsum ástæðum. Má þar nefna að þörfin ekki svo brýn eða það sem í boði er hentar viðkomandi ekki. Stundum hefur fólk dregið sig út þegar það skynjar að það eru aðrir sem hafa meiri þörf og svo sækja ýmsir um til þess að tryggja sig inn í kerfið, ef það skyldi þurfa seinna á beit að halda. Yfirleitt hefur verið góður friður og sátt um úthlutunina þótt á því megi finna undantekningar.

Reglur þessar tóku gildi vorið 2018 og voru endurskoðaðar 2023.