- Nánar
- Skrifað þann Miðvikudagur, mars 14 2007 17:14
- Skrifað af Super User
Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Gísli Jónsson í Arnarholti á Kjalarnesi en sveitungi hans Gunnar Tryggvason á Skrauthólum var kjörinn varaformaður. Aðrir í stjórn voru kjörnir Guðmundur Þorláksson í Seljabrekku í Mosfellssveit, ritari, Steini Guðmundsson, Valdastöðum í Kjós, gjaldkeri. Meðstjórnendur voru kjörnir Kristján Þorgeirsson, Bergvík á Kjalarnesi, Þorgeir Jónsson, Gufunesi í Mosfellsveit og Hjörtur Þorsteinsson, Eyri í Kjós.
Eitt af fyrstu verkefnum stjórnar var að sækja um inngöngu í Landsamband hestamannafélaga sem þá hafði verið stofnað nokkru fyrr. Þá var fljótlega hafinn undirbúningur að þátttöku í fyrsta landsmóti LH sem haldið var þá um sumarið. Svo var haldið fyrsta hestamót félagsins að Arnarhamri á Kjalarnesi sem var aðal vettvangur félagsins fyrir félagsmótin allt til ársins 1988. Það ár var í fyrsta skipti haldið Íslandsmót á nýju félagssvæði að Varmárbökkum í Mosfellsbæ. Tókst það með miklum ágætum og þótti að margra áliti marka þáttaskil hvað varðar þau mót. Hafa síðan verið haldin þar ein þrjú Íslandsmót.
Tveimur árum síðar var félagsheimilið Harðarból sem staðsett er á mótssvæðinu á Varmárbökkum tekið í notkun. Áður hafði félagið haft aðgang að Brúarlandskjallaranum ásamt Ungmennafélaginu Aftureldingu og Æsklýðsfélagi kirkjunnar. Var það Mosfellsbær sem veitti félaginu þessa aðstöðu en segja má að eftir að þungamiðja félagsstarfsins fluttist í Mosfellssveitina hafi félagið ávallt átt mjög gott samstarf við Mosfellshrepp og síðar Mosfellsbæ eftir að sú nafngift var upp tekin.
Reiðvegagerð hefur alltaf verið mikilvægur þáttur í starfi hestamannafélagsins bæði á félagssvæðinu auk þess sem viðhald og gerð reiðvega til Skógarhóla á Þingvöllum hefur alla tíð mætt mjög á harðarfélögum enda reiðleiðin að stórum hluta á félagssvæðinu og líklega mest notuð af þeim.
Frá fyrstu tíð hefur félagið staðið fyrir ýmiskonar hópreiðum og ferðalögum. Hefur ávallt verið starfrækt ferðanefnd sem hefur annast þennan þátt starfsins. Á fyrstu þrjátíu árum stóð félagið oft fyrir ferðalögum um hálendi landsins en hin síðari ár hefur starfsemin snúist meir um styttri ferðir þar sem einstaklingar innan félagsins og annarra félaga sjá sjálfir um að skipuleggja lengri ferðir. Á hverju ári eru nágrannafélög Harðar heimsótt í skipulögðum ferðum hvert vor og um árabil var farin árleg Kjósarreið í tengslum við mótahald á Arnarhamri.
Hörður hefur frá öndverðu tekið mjög virkan þátt í starfsemi LH og hafa tveir félagsmenn gengt stöðu formanns í samtökum og aðrir tveir félgsmenn verið framkvæmdastjórar samtakanna. Þá hefur félagið ávallt tekið þátt í landsmótum samtakanna og þar hafa hestar félagsmanna oftsinnis verið í fremstu röð í keppni mótanna.
Hin síðari ár hefur æskulýðsstarf á vegum félgsins verið eflt stórlega og er nú rekið með myndarlegum hætti. Hið sama má segja um fræðslustarf sem alla tíð hefur verið fastur liður í starfseminni. Seint á áttunda áratugnum var byggt tamningagerði sem skapaði aðstöðu til reiðnámskeiða. Með tilkomu hesthúshverfisins á Varmárbökkum sama ártug fluttist þungamiðja félagsstarfsins smátt og smátt í Mosfellsbæinn og er þar nú hin ágætasta aðstaða til hestamennsku.
Seint á tíunda áratug síðustu aldar urðu straumhvörf í sögu félagsins þegar Mosfellsbær tryggði félaginu aðgang að reiðhöllinni í Hindisvík sem staðsett er í hesthúsahverfinu að Varmárbökkum. Fundu félagsmenn þar glöggt hversu mikilvægt slíkt afdrep er fyrir framfarir í reiðmennsku. Fyrir dyrum stendur bygging nýrrar reiðhallar sem væntanlega verður í eigu félagsins og standa vonir til að hún verði tilbúin í ársbyrjun 2008.