• image1
  • image001
  • YG8A2829
  • 2K3P2468
  • YG8A5161
  • 2K3P1959
  • 2K3P1031
  • YG8A9345
  • 1150x250-2
  • 1150x250-1

Lög Hestamannafélagsins Harðar

Samþykkt á aðalfundi Hestamannafélagsins Harðar 29. nóvember 2023

LÖG HESTAMANNAFÉLAGSINS HARÐAR

1. grein

Nafn félagsins er: Hestamannafélagið Hörður. Félagssvæðið nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós. Heimili og varnarþing er Mosfellsbær. Félagið er aðili að UMSK, LH og ÍSÍ og háð lögum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.

Í félaginu er starfandi sem sér deild félag hesthúsaeigenda sem hefur það að markmiði að gæta sameiginlegra hagsmuna eigenda hesthúsa sem byggð hafa verið eða kunna að vera byggð á félagssvæði Hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ samanber nánar ákvæði 13.gr. laga þessara.

Opinber félagsbúningur skal vera hvít skyrta, rautt bindi, hvítar buxur og svört stígvél eða legghlífar, jakki skal vera Harðargrænn með flauelskraga eða svartur einlitur, Harðarmerki skal vera á hægra brjósti.

2.grein

Markmið félagsins er að stuðla að eflingu hestaíþrótta í víðtækustu merkingu. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að:

a) Gangast fyrir þjálfun og fræðslu knapa. Efla áhuga félagsmanna með

              upplýsingastarfsemi varðandi hestaíþróttir, hrossarækt og almenna

              hestamennsku.

b) Tryggja að félagsmenn hafi aðgang að keppnisvöllum og íþróttamannvirkjum sem

             svari til krafna þar um á hverjum tíma.

c) Beita sér fyrir því við sveitastjórnir og skipulagsyfirvöld á hverjum tíma að

             umferðarréttur sé tryggður og reiðgötur inni á samþykktu skipulagi.

             Áningarhólfum sé viðhaldið og þau greinilega merkt.

d) Stuðla að því við sveitarstjórnir að fyrir hendi sé aðstaða til beitar fyrir

             félagsmenn innan sveitarfélaganna.

e) Efna til keppni og sýninga í hinum ýmsu greinum hestaíþrótta.

3. grein

Félagi í Hestamannafélaginu Herði getur hver sá orðið sem þess óskar og er reiðubúinn að hlíta lögum félagsinsUmsókn um inngöngu skal senda á stjórn félagsins. Stjórnin skráir nýja félagsmenn og skulu þeir öðlast full réttindi í félaginu frá  þeim tíma er stjórn hefur samþykkt umsóknina og félagsgjald yfirstandandi almanaksár hefur verið greitt.

Félagsmaður sem skuldar félagsgjöld má vænta þess að vera felldur út af félagatali við lok almanaksárs. Þá skal félagsmaður sem skuldar félagsgjöld vegna yfirstandandi almanaksárs ekki hafa atkvæðisrétt á félagsfundum, ekki hafa aðgang að reiðhöll félagsins, né öðrum mannvirkjum s.s. hringvöllum, hringgerðum og sjúkragerði eða rétt til að taka þátt í mótum sem haldin eru á vegum félagsins.

Félagsmenn, sem eru ekki fullra 18 ára, hafa ekki atkvæðisrétt um sérstök málefni svo sem þau sem eru af fjárhagslegum toga.  Stjórn skal skera úr ágreiningi sem rísa kann vegna atkvæðisréttar félagsmanna.

4.grein

Stjórn félagsins boðar félagsfund eins oft og þurfa þykir. Sama er, ef minnst 25 félagsmenn sem atkvæðisrétt hafa á fundum félagsins samkvæmt 3. gr. æskja þess skriflega og tilgreina fundarefni. Félagsfundir skulu boðaðir með þriggja daga fyrirvara með tilkynningu á heimasíðu félagsins og með opinberri auglýsingu eða tölvupósti til félagsmanna.

Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað og minnst 25 félagsmenn sem atkvæðisrétt hafa á fundum félagsinssamkvæmt 3. gr sitja hann. Afl atkvæða skal ráða úrslitum allra mála á fundum félagsins nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum. Sé fundur ekki lögmætur, má boða til hans að nýju á venjulegan hátt og er hann þá lögmætur án tillit til þess, hversu margir eru mættir.

Formaður eða staðgengill hans setur fundi og lætur kjósa fundarstjóra í byrjun fundarins. Hinn kjörni fundarstjóri úrskurðar í byrjun fundarins, hvort löglega hafi verið til hans boðað og hvort hann sé lögmætur, m.a. með því að upplýsa um fjölda atkvæðisbærra félagsmanna sem mættir eru á fundinum.

5. grein

Aðalfund skal halda eigi síðar en fyrir lok október ár hvert. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Til aðalfundar skal boðað með minnst fjórtán daga fyrirvara. Sé löglega til hans boðað og minnst 25 atkvæðisbærir félagsmenn mættir, telst fundurinn löglegur. Séu lagabreytingar fyrirhugaðar skal þess getið í fundarboði og jafnframt skal gerð grein fyrir því hvaða tillögur eru gerðar um breytingar á lögum félagsins.
Dagskrá aðalfundar skal vera:

a)
a) Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.
b) Formaður flytur skýrslu stjórnar.
c) Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. milliuppgjör.
d) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
e) Reikningar bornir undir atkvæði.
f) Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður.
g) Árgjald ákveðið.
h) Lagabreytingar.
i) Kosningar samkvæmt 6. grein þessara laga.
j) Önnur mál.
k) Fundarslit.

6.grein

Stjórn félagsins skipa átta manns auk formanns. Stjórnin skiptir með sér verkum að undanskildum formanni, sem kosinn er beinni kosningu. Kosning stjórnar og formanns félagsins skal fara fram á aðalfundi félagsins samkvæmt eftirfarandi reglum:
Formaður skal kosinn til eins árs í senn og getur verið endurkjörinn alls þrisvar sinnum.
Átta meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að fjórir stjórnarmenn gangi úr stjórn ár hvert. Þeir sem ganga úr stjórn með þessum hætti geta verið endurkjörnir.
Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga félagsins til eins árs í senn.
Þá skal og kjósa fulltrúa félagsins á ársþing og aðalfundi þeirra samtaka sem félagið á aðild að en formaður félagsins skal þó teljast vera sjálfkjörinn.Aðalfundur getur heimilað stjórn að tilnefna fulltrúa til setu á fundum þeim sem getið er hér að framan.
Einungis félagar eldri en átján ára eru kjörgengir í kosningum til stjórnar, formanns félagsins, til að vera skoðunarmenn ársreikninga og til að vera fulltrúar félagsins á ársþingum og aðalfundum þeirra samtaka sem félagið á aðild að.
Framboð til kosninga á aðalfundi skulu berast stjórn minnst 7 dögum fyrir aðalfund.

7. grein

Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Skal stjórnin á fyrsta fundi eftir aðalfund skipa í nefndir sem vinna skulu með stjórn að málefnum félagsins hverju sinni. Stjórnin skal leggja nefndum til starfsreglur í skipunarbréfi. Heimilt er stjórn að ráða starfsmann til félagsins. Stjórnin skal framkvæma samþykktir aðalfundar, setja nauðsynlegar reglur og reglugerðir um hina ýmsu þætti félagsstarfsins, standa skil á skýrslum til þeirra félagssamtaka sem félagið er aðili að, koma fram fyrir hönd félagsins þar sem við á.

8. grein

Formaður boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni ber að boða til stjórnarfundar ef fjórir stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundir eru löglegir og ályktunarhæfir ef fimm stjórnarmenn eru mættir. Stjórnin skal halda gerðabók um störf sín og skulu fundargerðir birtar á heimasíðu félagsins.

9. grein

Heimilt er félaginu að gerast aðili að samtökum sem starfa á vettvangi sem falla undir áhugasvið er félagið hefur á stefnuskrá sinni.

10. grein

Stjórn félagsins er heimilt að veita þeim félagsmönnum viðurkenningu, sem  hafa unnið af atorku og eljusemi að viðgangi hestaíþróttarinnar í störfum sínum fyrir félagið.  Skal stjórn heimilt að veita þeim aðilum sem hún tilnefnir merki félagsins  tilnefningunni til staðfestingar.  

Þá skal stjórn heimilt að bera fram á aðalfundi félagsins tillögu um kjör heiðursfélaga.  Heiðursfélagar geta þeir einir orðið, sem sýnt hafa frábæran árangur og dugnað í störfum sínum til eflingar félaginu og markmiðum þess.  

Stjórn skal setja reglur um veitingu viðurkenninga og tilnefningu heiðursfélaga sem birtar skulu á heimasíðu félagsins.

11. grein 

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi, þar sem mættir eru minnst 25 félagsmenn sem atkvæðisrétt hafa á fundum félagsins samkvæmt 3. gr. og 2/3 (tveir þriðju hlutar) greiddra atkvæða samþykki breytinguna. Náist ekki tilskilinn fjöldi fundarmanna, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillaga um lagabreytingu gildi ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði sitt, án tillits til fundarsóknar.

 

12. grein

Stjórn félagsins er óheimilt að selja fasteignir þess, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra nema samþykki lögmætts félagsfundar komi til. Ef stjórn hyggst leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun skal geta þess í fundarboði. Heimilidir samkvæmt grein þessari skal nota innan tveggja ára frá því þær eru veittar.

 

13. grein

Í félaginu er starfandi sem sér deild, félag hesthúsaeigenda sem hefur það að markmiði að gæta sameiginlegra hagsmuna eigenda hesthúsa sem byggð hafa verið eða kunna að vera byggð á félagssvæði Hestamannafélagsins Harðar í samræmi við samning Mosfellsbæjar við Félag hesthúseigenda á Varmárbökkum um hesthúsahverfið.  Nafn deildarinnar er Félaghesthúseigenda á Varmárbökkum í Mosfellsbæ.  

Deildin hefur sjálfstæða stjórn sem skipuð skasjö stjórnarmönnum, þar af einum stjórnarmanni sem tilnefndur er af stjórn Hestamannafélagsins Harðar.  

Deildin hefur sjálfstæðan fjárhag og sér kennitölu og skal sjálf fjármagna rekstur sinn.  Deildin hefur ekki heimild til að að skuldbinda Hestamannafélagið Hörð fjárhagslega eða á annan hátt nema með samþykki stjórnar Hestamannafélagsins Harðar.  

Stjórn deildarinnar ber ábyrgð á að rita fundargerðir aðalfunda, félagsfunda og stjórnarfunda deildarinnar og koma þeim til stjórnar Hestamannafélagsins Harðar til varðveislu. Deildin skal halda aðalfund fyrir 1. október ár hvert og skal í kjölfarið skila ársreikningi til Hestamannafélagsins Harðar fyrir síðastliðið starfsár ásamt ársskýrslu sem tekin skal upp í ársskýrslu Hestamannafélagsins Harðar.

Um starfsemi deildarinnar gilda sér lög og skal þess gætt að ákvæði þeirra stangist ekki á við lög Hestamannafélagsins Harðar.    Breytingar á lögum deildarinnar öðlast ekki gildi fyrr en þau hafa verið staðfest af stjórn Hestamannafélagsins Harðar.

14. grein

Ef leggja á félagið niður getur það einungis gerst á aðalfundi þar sem mættir eru minnst 3/4 (þrír fjórðu hlutar) atkvæðisbærra félagsmanna og með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Náist ekki tilskilinn fjöldi fundarmanna, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillagum að leggja félagið niður  gildi ef 2/3 (tveir þriðju hlutar) fundarmanna greiðir henni atkvæði sitt, án tillits til fundarsóknar.

Eignir félagsins skal þá afhenda UMSK til varðveislu.