Hestar í skjól fyrir jól

Verkefnið Hestar í skjól fyrir jól gengur eftir áætlun.  Búið er að hreinsa  og fjarlægja rústirnar og loka gaflinum til bráðabirgða. Söfnunarreikningur hefur verið stofnaður, búið er að ná mjög góðum samningi við Byko, en Gunni Vals, sá sami og bjargaði hestunum úr brennandi húsinu, hafði milligöngu með það og byggingafulltrúinn er búinn að gefa grænt ljós á að byrja uppbyggingu.  Vikan hefur farið í það að undirbúa uppbygginguna, kaupa efni o.fl.

Og þá er komið að okkur Harðarmönnum

Allir sem vettlingi geta valdið eru beðnir að mæta í Harðarból kl. 9.30 á næsta laugadag. Þar verður boðið upp á morgunkaffi og dagurinn skipulagður. Að því loknu verða brettar upp ermar og byrjað að byggja.  Við viljum að sem allra flestir mæti þennan fyrsta dag, helst allt of margir, þannig að stjórnendur sjái allan hópinn og geti skipulagt vinnuna í framhaldinu.  Meiningin er að taka þetta með áhlaupi eins og alþekkt er hjá Amish fólkinu, en það byggir hlöðu á einum degi.  Ég veit við klárum þetta ekki á laugardaginn svo farið verður yfir stöðuna í lok dags og ákveðið hverjir geta mætt á sunnudaginn og næstu helgar og daga.

Það er spáð ágætis veðri, en verið samt vel klædd og þeir sem eiga verkfæri takið þau með.