Aðstaða félagsmanna í reiðhöllinni í vetur

Gengið hefur verið frá samningum við nýja eigendur reiðhallarinnar sem nú heitir Hestamiðstöðin Hestasýn(áður Hindisvík). Þeir félagsmenn Harðar sem hafa greitt félagsgjöldin hafa aðgang að höllinni frá 2.janúar 2007 til 30.maí 2007, en hún verður opin fyrir félagsmenn frá kl. 18.00 til 23.00 á virkum dögum og frá 14.00 til 20.00 um helgar. Reiðnámskeið barna, unglinga og ungmenna hafa þó forgang, sem og reiðnámskeið á vegum félagsins. Félagsmönnum er heimilt að vera með reiðkennara með sér í höllinni í einkatímum, en að öðru leiti er reiðkennsla í höllinni óheimil án skriflegs samþykkis fræðslunefndar félagsins. Við minnum á umferðarreglur í reiðhöll sem eru á link hér til vinstri.

Sumar og haust hagi í Svínadal

Getum ennþá tekið við nokkrum hestum í sumar- og haust haga á Efra-Skarð í Svínadal, Hvalfjarðarsveit. Góð beit í innan við klukkustundarakstri frá Reykjavík. Ágætar reiðleiðir á svæðinu og aðgengi að hrossunum gott frá þjóðveginum. Nánari upplýsingar veitir Magnús Ólafsson í sím 898 1206 og Eva Magnúsdóttir 8926011.

Kirkjureið að Mosfelli

Hin árlega kirkjureið Harðarfélaga verður endurvakin n.k. sunnudag, þann 14.maí. Riðið verður frá hesthúsahverfinu kl. 13.00. Sr.Ragnheiður Jónsdóttir flytur guðsþjónustu í Mosfellskirkju kl. 14.00. Í messunni verður skírt barn, og einn Harðarfélagi, Saga Guðmundsdóttir, verður fermd. Að guðsþjónustu lokinni verður riðið heim og öllum kirkjugestum boðið í kirkjukaffi í Harðarbóli. Kirkjukaffið er í boði Harðar og fermingarbarnsins.

WorldFengur - opinn fyrir Harðarfélaga

Nú geta allir Harðarfélagar skráð sig í WorldFeng endurgjaldslaust með því að smella á hnappinn hér neðst til hægri á síðunni og fylla út umsóknareyðublaðið. WorldFengur er með lista yfir þá félaga sem greitt hafa félagsgjaldið fyrir 2006 og oppna þá fyrir aðgang. Athugið að við sendum nýjan lista yfir skuldlausa félaga til WF daglega næstu viku,eða til 7.apríl en einu sinni í viku eftir það. Við vonum að sem flestir nýti sér þessa nýju þjónustu við félagsmenn og hafi bæði gagn og gaman að. Með kveðju Stjórnin

Framhaldsskólamótið í hestaíþróttum 24. - 26. mars 2006

Framhaldsskólamótið í Hestaíþróttum verður haldið í Reiðhöllinni í Víðidal dagana 24-26 mars næstkomandi. Þar sem skólar alls staðar af landi munu etja kappi um titilinn stigahæsti skólinn. Mikil skráning er á mótið og er hestakosturinn ekki í verri endandum. Glæsileg verðlaun eru í boði Toyota Selfossi,Hraunhamars og Blends fyrir öll úrslitasætin, einnig fær stigahæsti knapinn gefinn bíl frá Höfðabílum. Við hvetjum fólk til að koma og kíkja á skemmtilega og spennandi keppni. Frítt er inn og veglegar veitingar eru í boði. Kveðja, Framhaldsskólanefndin í Hestaíþróttum

Harðarfélagar!

Í vetur verður gerð tilraun til að taka baggaplastið af svæðinu okkur að kostnaðarlausu. Gámaþjónustan hf mun í samstarfi við Hörð koma með gám sem staðsettur verður í Hindisvík annan hvern laugardag milli kl. 14 og 16. Fyrsta skiptið verður þann 11. febrúar. Athugið að mjög mikilvægt er að aðeins fari í gáminn hreint plast (landbúnaðarplast og annað mjúkt plast) og ekkert annað rusl, ekki einu sinni baggaböndin. Sameinumst um að fara að þessum reglum svo að við missum ekki þessa frábæru þjónustu frá okkur aftur. Hestamannafélagið Hörður og Gámaþjónustan hf.

Bjórkvöld

Jæja nú eru flestir komnir með fiðring í hófana og kominn tími til að halda bjórkvöld! Það verður opið hús hjá Íshestum að Sörlaskeiði 26 Hafnarfirði laugardagskvöldið 25 Mars. Húsið opnar klukkan 20:00 og það verður trúbador trallandi frameftir kvöldi, tilboð á barnum og taumlaus gleði!! Svo nú er bara mál að bomsa sig upp og mæta í bana stuði!!