Opnunarhátíð reiðhallar - ræða formanns
- Nánar
- Flokkur: Stjórnin
- Skrifað þann Mánudagur, nóvember 23 2009 11:06
- Skrifað af Super User
Kæru félagsmenn, alþingismenn, bæjarstjóri, bæjarráð, Íþrótta- og tómstundaráð, skipulags og byggingarnefnd, Guðni Ágústsson og aðrir hátíðargestir,
Ég vil bjóða ykkur öll velkomin á þessa hátíðarstund hjá okkur í Hestamannafélaginu Herði sem markar þau tímamót að nú eigum við glæsilegustu reiðhöll landsins. Þetta er stórt mannvirki, stærsta reiðhöllin sem er eingöngu reiðhöll, 80 x 30 metrar, eða 2400 m2 og með stærsta reiðsvæðinu.
Ég tel mig hafa grafið upp hvenær fyrst var stungið upp á því að hér yrði byggð reiðhöll, en það virðist hafa verið gert á stjórnarfundi hér í Herði árið 1995. Þá kom þáverandi varaformaður félagsins með þá hugmynd að byggja reiðhöll og var að eigin sögn kallaður hálfvit og vitleysingur að ætla að ríða út inni í húsi. Þrátt fyrir þessa niðurlægingu tók hann þetta upp á næsta LH þingi, svona sem hugmynd, það lá við að honum yrð hent út af þinginu. Einn þingmanna sneri sér þá að honum og sagði honum til huggunar að allar nýjar góðar hugmyndir tækju tíu ár. Og það er ekki fjarri lagi.
Árið 1999 var jarðvegurinn þó strax orðinn það jákvæður að stofnuð var byggingarnefnd Harðar sem skoðaði byggingar og lagði fyrstu drög að reiðhallarbyggingu hér á svæðinu. Þá voru menn að fikra sig áfram víðar með reiðhallarbyggingar, en vandamálið var alltaf það sama, hvernig á að fjármagna slíka byggingu. Það var ekkert fordæmi um að opinberir aðilar kæmu að slíkri fjármögnun og félögin eru langt frá því að standa undir slíkum byggingum með þeim tekjustofnum sem þau hafa. Til að þið fáið hlutina í samhengi þá kostar þessi reiðhöll svipaða upphæð og öll félagsgjöld félagsins í 150 ár
Það var svo fyrir um 5 árum síðan að sá hópur manna kom í byggingarnefnd Harðar sem nú hefur lokið verkinu. Þetta er lítill hópur manna, 4 til 5 menn, og á þeim hefur megin þunginn legið síðastliðin 5 ár. Við nutum þess starfs sem áður hafði verið unnið og fundum að nú var jarðvegurinn góður og meðbyr í seglin. Við gerðum tillögur og buðum forsvarsmönnum Mosfellsbæjar til fundar, kynntum tillögurnar bænum og landbúnaðarráðherra og útskýrðum mikilvægi þess að hestaíþróttafélög hefðu afnot af reiðhöll til kennslu og æfinga. Hestaíþróttin hefði breyst mikið á undanförnum árum og forsenda þess að við yrðum samkeppnishæf við önnur félög væri reiðhöll og góðir reiðvellir.
Fjármögnun tók nokkurn tíma og nokkra fundi, en að lokum varð niðurstaðan sú að Mosfellsbær með Ragnheiði Ríkarðsdóttir í fararbroddi lagði til 90 millj. til verksins sem greiðist út á 7 ára tímabili, landbúnaðarráðuneytið með Guðna Ágústsson í fararbroddi lagði til 25 millj. úr reiðhallarsjóði sem hann hafði nýlega komið á og hestamannafélagið sjálft 25 millj. sem það hefur staðið við að fullu og meira en það í formi sjálfboðavinnu, styrkja og afslátta ýmiskonar frá fyrirtækjum og verktökum.
Með þessa fjármuni í hendi héldum við af stað og leituðum tilboða í verkið. Við gerðum forsögn og útboðsgögn sjálfir en ákváðum að bjóða út reiðhöllina í einum pakka, þar með talin hönnun hússins. Lægsta tilboði var tekið, enda var það eina tilboðið þá sem við réðum við og byrjaði verktakinn fljótlega að láta hanna húsið og grafa fyrir undirstöðum.
Og þá byrjuðu tafirnar, ég ætla ekki að rekja þá sorgarsögu hér, en hún tók mjög á okkur félagana og stóð í vel á annað ár.
En upp með björtu hliðarnar, um mitt sumar árið 2008 voru komnir upp sökklar sem við áttum skuldlausa. Eftir að hafa gert upp við fyrsta verktakann, gerðum við nýja kostnaðaráætlun sem við sniðum að nýjum veruleika þar sem Evran var orðin hærri en þegar við lögðum af stað og hófum leit að nýjum verktaka.
Og þá hrundi Ísland og hálfur heimurinn með. Ég fékk nett sjokk, eiginlega meira vegna reiðhallarinnar en eigin fyrirtækis og hringdi í Harald bæjarstjóra sem var í sama sjokkinu og ég og eftir stutt samtal sagði hann: „en Guðjón, við erum varla að fara að byggja reiðhöll eins og staðan er í dag, er það? „ Ég svaraði: „Jú við erum að fara að gera það“. Og þá sagði hann: „Allt í lagi, bærinn mun standa við sitt“. Nánari eftirgrennslan sýndi að Landbúnaðarráðuneytið var sama sinnis og harðákveðið í að standa við sinn hluta. Og það sama var um Íslandsbanka sem er að fjármagna reiðhöllina fyrir okkur.
Í framhaldi af þessu settumst við niður, endurskoðuðum allar áætlanir einu sinni enn og fórum á fund nýrra verktaka. Við ræddum við 4 verktakafyrirtæki og enduðum með því að ljúka samningum við fyrirtæki hér í bakgarðinum hjá okkur, Hýsi, sem sýnir að oft leitar maður langt yfir skammt. Ástæðan fyrir því að við sömdum á endanum við Hýsi var ekki af því að þeir eru góðir vinir okkar, nágrannar og frændur, allt samt góðar og gildar íslenskar ástæður til að ráða menn í vinnu, heldur voru þeir einfaldlega bæði ódýrastir og þar að auki með snilldar hugmynd sem við útfærðum síðan með þeim.
Þessi hugmynd gekk út á að festa gengi krónunnar og taka þar með gengisáhættuna út úr spilinu. Það var óðs manns æði á þeim tíma að kaupa hús í útlöndum fyrir tugi milljóna og skuldbinda sig til að greiða það í evrum eftir 4 mánuði. Enginn vissi þá hvar evran endaði frekar en nú. Þetta var í stuttu máli útfært þannig að Íslandsbanki sem er bankinn okkar og Landsbankinn, banki Hýsis fóru í samstarf. Landsbankinn keypti evrur með tryggingu frá okkur í gegnum Íslandsbanka sem hann lánaði síðan Hýsi sem staðgreiddi reiðhöllina erlendis og þar með var gengið sett fast. Á þessum tíma var evran komin í um 180 krónur, hafði hríðfallið á stuttum tíma. Þá gerðu stjórnvöld eina efnahagstilraunina enn og handstýrðu genginu niður í 145 til 150 krónur. Það hélt í um viku tíma og sú vika var notuð til að kaupa evrur. Þetta ásamt því að Hýsir tók á sig alla vaxtabyrgði á verktímanum varð til þess að við stöndum hér í dag. Og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra framlag.
Við fengum reiðhöllina afhenta um mitt sumar, en þá átti eftir að innrétta hana. Við endurskoðuðum áætlanir enn einu sinni og reyndum að aðlaga verkefnið að því fjármagni sem við höfðum, héldum stjórnarfund, ákváðum að halda áfram og hétum sjálfum okkur því að klára höllina á tveimur mánuðum.
Stór hluti verksins var unninn í sjálfboðavinnu, þar með talið allt þetta vandaða tréverk sem þið sjáið hér sem var gróft mótatimbur þegar það var keypt. Heiðurshjón hér í félaginu sem eiga trésmíðaverkstæði lánuðu okkur aðstöðuna og þar stóðu félagsmenn og hefluðu og smíðuðu dögum saman.
Önnur heiðurshjón eiga malarnámur sem þau hleyptu okkur í til að fylla í sökklana. Aðrir hlutir voru unnir á mjög lágum tilboðum frá félagsmönnum sem reyndar eru allir þektir fyrir að hafa unnið í sjálfboðavinnu fyrir félagið árum saman. Þessu heiðursfólki sem hefur mætt hér helgi eftir helgi og kvöld eftir kvöld, nokkrir hafa meira að segja tekið sér frí frá vinnu dögum saman til að geta unnið hér, er þakkað alveg sérstaklega.
Ég vil jafnframt nota tækifærið og þakka öllum þeim tugum sjálfboðaliða sem starfa hér árin út og árin inn við félagsstörf, mótahald, veitingarekstur, æskulýðsstörf og öll þau fjölmörgu handtök sem vinna þarf í félagi sem þessu, enda er félagið ekki með neinn launaðan starfsmann, sem er eiginlega ótrúlegt þegar horft er til þeirrar miklu starfsemi sem hér fer fram.
Ég var á formannafundi hestamannafélagana um daginn og þar voru nokkrir formenn annarra félaga sem sneru sér að mér og spurðu hvað væri eiginlega að gerast í Herði, þeir væru að heyra ótrúlegar sögur um staðfestu og vinnusemi Harðarfélaga og vildu fá uppskriftina til að nota í sínu eigin félagi. Ég sagði þeim auðvitað að þeir ættu ekki sjens, Harðarfélagar væru einfaldlega miklu öflugri, duglegri, fallegri og sprækari en aðrir Íslendingar.
Ef reiðhöllin hefði verið reyst í eðlilegu árferði þá hefðum við verið örfáir félagarnir sem hefðum notið þeirrar tilfinningar sem fylgir því að ganga hér um, horfa í kringum sig og hugsa stoltur: hér á ég eitthvað, hér er stórvirki sem ég á minn þátt í. En þessi leið sem við völdum að fara varð þess valdandi að ótrúlegur fjöldi manna kom hér að verkinu og lagðist á árar sem einn maður við að klára þetta. Ég er ánægður í dag fyrir það að tugir manna geta nú, eins og ég, gengið hér um og hugsað: þetta gerði ég, hér lagði ég til minn svita, mína þekkingu, reynslu og tíma. Þetta er hverjum manni góð tilfinning sem sannar máltækið að „betra er að gefa en þiggja.“
Það hefur oft barist í tal undanfarna mánuði að mun auðveldara sé að fá fólk til að taka til hendinni í sjálfboðavinnu. Sú útskýring sem beinast liggur við er að samheldnin hafi aukist í kreppunni, en þegar ég hugsa til baka, þá var þetta byrjað hér hjá okkur í Herð löngu fyrir kreppu.
Ég hef margoft rekið mig á það, að það sem virðist mótlæti einn daginn leiðir oft til blessunar annan daginn. Ef allar tímaáætlanir hefðu staðist, þá hefðum við þurft að fjármagna reiðhöllina með lánum til 6 ára, það lán hefði verið tekið árið 2007 og numið um 100 millj. króna. Þá mæltu allir helstu fjármálasnillingar landsins með lánum í erlendri mynnt. Ég þarf ekki að segja meir, er það? Þið kunnið að reikna.
Notkun reiðhallarinnar verður að mestu leiti á vegum æskulýðsnefndar og fræðslunefndar, en félagar geta keypt sér rafrænan lykil og notað höllina þegar ekki eru þar formleg námskeið. Vellinum verður tvískipt, þannig að reiðkennsla getur verið í einum endanum og almennir félagsmenn við æfingar í hinum. Það verður bannað að fara inn í reiðhöllina með hest án slíks lykils. Sjálfvirkt eftirlitskerfi heldur svo skrá yfir það hverjir eru í reiðhöllinni hverju sinni.
Það var frá upphafi markmið okkar og draumur að þjálfun fatlaðra ætti hér góða aðstöðu og er allt fyrirkomulag hér miðað við að svo verði. Stórar innkeyrsludyr og ríflegt framsvæði hér framan við reiðvöllinn gefa færi á að keyra inn bíla með fatlaða einstaklinga og sérstakri lyftu og öðrum búnaði verður komið hér fyrir til að auðvelda praktísku hlutina.
Fjármögnun reiðhallarinnar verður ekki lokið fyrr en árið 2012 þegar lokagreiðsla kemur frá Mosfellsbæ, en þangað til fjármagnar Íslandsbanki dæmið fyrir okkur á bestu fáanlegu vöxtum. Eins og dæmið lítur út í dag, þá ná endar saman og allt útlit fyrir að við getum efnt það loforð okkar frá því fyrir fimm árum, að afhenda reiðhöll til félagsins skuldlausa. Það er nefnilega svo að það hafa allir gefist upp á því að reka reiðhallir á markaðsgrundvelli, það er einfaldlega ekki hægt. Þær eru íþróttamannvirki og kennsluhúsnæði og það þarf að fjármagna byggingu þeirra og rekstur sem slíkan.
Við erum með söfnun fyrir Barnaspítala Hringsins hér í veislunni undir merkjunum „Hörður gefur til baka“ okkur hefur gengið vel og viljum gefa gott af okkur til baka. Söfnunarbaukurinn er eldrauður , vel merktur og verður sýnilegur hér í dag.
Ég vona að þessi litla saga um stórt hús verði til þess að brýna ykkur kæru vinir til að láta aldrei bugast þó blási á móti og allt sýnist svart, því fyrst þetta var hægt, þá er allt hægt.
Takk fyrir og enn og aftur velkomin í Harðarhöllina.