Eldsvoði í hesthúsahverfinu
- Nánar
- Flokkur: Stjórnin
- Skrifað þann Föstudagur, nóvember 12 2010 11:31
- Skrifað af Super User
Það varð eldsvoði í hesthúsahverfinu í nótt og brann hálf hesthúsalengja. Hetja dagsins er Gunni Vals, en honum tókst með snarræði og sinni alkunnu ósérhlífni að bjarga þeim hestum sem í húsinu voru með hjálp tveggja lögreglumanna, en hestar eru mjög viðkvæmir fyrir reyk og er þess skemmst að minnast þegar hestar dóu í öðrum bruna hér fyrir um 10 árum síðan. Fjöldi Harðarmanna dreif að þegar fréttist af brunanum og hjálpuðust að við að rýma nærliggjandi hesthús sem reykjarmökkinn lagði yfir. Hestunum var komið fyrir í hesthúsum neðar í hverfinu.Þó mikil mildi sé að allir hestar og menn slyppu frá þessu lifandi má þó ekki vanmeta þau áhrif sem svona atburður hefur á eigendur hesthúsanna.
Það er ömurlegt að horfa upp á jafn persónulega eign og hesthús er fuðra upp í eldi og þó að hægt sé að bæta eitthvað með nýju húsi þá hafa einnig glatast persónulegir munir sem aldrei verða bættir.Hugur okkar Harðarmanna er hjá þeim sem í þessu lentu, en þeir eru gamalkunnir Harðarfélagar og hluti af aðalstoðum félagsins. Samstaða okkar Harðarmanna er löngu orðin landsþekkt, við þjöppum okkur saman þegar á móti blæs og ég veit að við munum koma að þeirri uppbyggingu sem framundan er sem einn maður.
Við vitum ekki enn hvernig kraftar hvers og eins nýtast best, en þegar við erum búin að ná áttum og vitum hvað þarf til, til að koma hestum í þessi hús fyrir jól, þá munum við hvert og eitt leggja okkar af mörkum til að það megi takast.
Kveðja, Guðjón formaður