Sleppa á beit

Heimilt er að sleppa hrossum í beitarhólf á vegum félagsins föstudaginn 14. júní næstkomandi.
Notendur beitarhólfa skulu gæta að því að fara varlega með hólf þar sem spretta er skammt á veg komin, ekki randbeita til dæmis, taka hross inn hluta sólarhrings eða jafnvel gefa hey með. Það er nokkuð misjafnt ástand á hólfum þetta vorið.
Mosfellsbær leggur í okkar hendur að meta ástand hólfanna og að hver og einn sýni skynsemi og fari vel með hólf sem þeir hafa til umráða.
Allir gæta þess nú sem áður að hafa nóg rafmagn á girðingum enda er það eitt af skilyrðum þess að fá úthlutað beit. Eins verða settar vaktir sem þarf að standa varðandi að fanga laus hross, því sinna þeir sem fá beit og það er annað skilyrði þess að fá beit. Þetta verða ekki margir dagar á mann og við stöndum sama í að vinna þetta vel. Nánari upplýsingar næstu daga.
Ef eitthvað er óljóst má hafa samband við formann félagsins, Möggu Dögg í síma 8247059.
 

Öryggisupplifun Knapa

Á neðangreindum hlekk er hægt að lesa skýrslu um öryggisupplifun knapa og samspil við aðra útivistahópa á reiðleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að um 10.000 manns hið minnsta stundi hestamennsku að staðaldri á höfuðborgarsvæðinu, en ekki eru allir iðkendur hestamennsku skráðir í hestamannafélag. Þar að auki er fjöldi barna í reiðskólum og ferðamenn í hestaleigum sem erfitt er að henda reiður á.

Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt og formaður reiðveganefndar Fáks og Katrín Halldórsdóttir starfsmaður Vegagerðarinnar ákváðu að sameina krafta sína og reynslu og sóttu um styrk í rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar. Verkefnið hlaut styrkveitingu en heiti þess er „Samspil ríðandi umferðar og annara vegfarenda á stígakerfi höfuðborgarsvæðisins“ Fókusinn í verkefninu er fyrst og fremst að huga að öryggi knapa á reiðleiðum og kortleggja hvar og hvernig hætta skapast af völdum innviða, annarrar umferðar, bæði farartækja sem og útvistarhópa af ýmsum toga.

Til að nálgast þetta víðfeðma efni enduðum við á að setja upp skoðanakönnun meðal hestamanna til að reyna að kortleggja hvar knapar upplifa helst ógnir af völdum innviða eða annara útivistarhópa.

Niðurstöðurnar geta gefið vísbendingu um hvar úrbóta er þörf á innviðum og / eða hvernig þurfi að fræða betur og upplýsa notendur um hegðun sem getur valdið slysahættu á knöpum.


Hægt er að lesa skýrsluna á meðfylgjandi hlekk: 

https://fakur.is/wp-content/uploads/2024/06/20240319-Reidleidir-a-hofudborgarsvaedinu-oryggisupplifun-knapa.pdf

 

Afhending Harðarjakkanna

Afhending Harðarjakkanna fer fram í Harðarbóli í dag: fimmtudaginn 30.mai milli 19-20:00.  Einnig mánudaginn 03.júní milli 18-19:00.
Posi á staðnum fyrir greiðslur. 
Allir sem eiga pantaða jakka geta sótt (keppnisjakkar - Heklujakkar - hettupeysur).

Fyrri úrtaka Adams og Harðar

Fyrri úrtaka Harðar og Adams fer fram miðvikudaginn 5. Júní hún gildir inná Landsmót en ekki í úrslit.
Hörður sendir fyrir sína hönd 6 hesta í hverjum flokk.
Adam sendir fyrir sína hönd 1 hest í hverjum flokk.
Aðeins er tekið við skráningum hesta í eigu skuldlausra félagsmanna.
Keppt verður í:
-A flokk
-B flokk
- Ungmennaflokk
- Unglingaflokk
- Barnaflokk
Skráningar fara í gegnum sportfengur.com
Skráningu lýkur sunnudagskvöldið 02.06 kl. 24
Einungis verður tekið við afskráningum í gegnum messenger á Facebook síðu Mótanefndar Harðar.
 

Hlégarðsreið á morgun

Á morgun laugardaginn 4. maí munum við taka á móti nágrönnum okkar í Fáki sem koma ríðandi til okkar að venju, Hlégarðsreið að gömlum sið.
Lagt verður af stað til móts við þau frá naflanum klukkan 13.00 og væntanlega mætum við hópnum í Óskoti. Matarmikil súpa og meðlæti í reiðhöllinni eftir reiðtúr, kostar 1500 kr á mann.
Höldum í þessa skemmtilegu hefð og fjölmennum að taka á móti Fáksfólki!
441349092_955675983234456_5501155852111675461_n.jpg
 

Áburður

Þeir sem hafa fengið staðfesta sumarbeit á vegum félagsins í sumar geta sótt áburð við reiðhöll Harðar á þessum tímum:

Mánudag 27. maí kl 18-19.30

Miðvikudag 29. maí kl 17-18.30

Áríðandi er að koma með ílát eða sterka poka til að setja áburðinn í og virða þessar tímasetningar!

 

Stjórnin

Akstur á Tungubakkaveginum

Vinsamlega athugið að það er hreint ekki ætlast til þess að verið sé að keyra bíla á reiðveginum á Tungubakka eða annarstaðar ef því er að skipta. Undantekning er við rekstur, það gilda líka ákveðnar reglur um þann akstur og eins þegar beitarhólfum er sinnt. Það er snúið að ætlast til að bæjaryfirvöld sinni viðhaldið á vegunum okkar þegar við hugsum ekki um þá af alúð sjálf.

Tungubakkahringurinn er í frábæru ástandi núna, reynum að halda honum þannig.

OIP.jpg

 

 

Náttúrureið

Hin árlega náttúrureið Harðar verður farin næstkomandi laugardag þann 11. maí.
Planið er að keyra hestana í Sörla Hafnarfirði og ríða gegnum Heiðmörkina heim í Hörð þar sem bíður okkar grill og gleði. Lagt verður af stað keyrandi frá Mos kl 12 og áætluð brottför frá Sörla kl 13. Grillið er svo kl 18.
Við hvetjum þá sem geta komið sér sjálfir í Sörla með hesta í kerru að gera það en annars verður Bjarni Kóngur tilbúinn með trailerinn til að keyra hesta í Sörla og kostar það 3.500kr á hest.
Grillið kostar 2.500kr og verða drykkjarveigar einnig til sölu.
Nauðsynlegt er að skrá sig í ferðina í commentum í facebook hjá hestamannafélaginu  fyrir fimmtudagsmorgunn svo hægt sé að raða niður í kerrur og kaupa í matinn. Láta koma fram hvort vanti far og fyrir hvað marga hesta eða hvort komi sér sjálft á staðinn.
Vonumst til að sjá sem flesta 😊
 
441289090_957020513100003_3369401066908386197_n.jpg
 

Hreinsunardagurinn

Þá er komið að því að hreinsa hverfið okkar, reiðgöturnar og nær umhverfið eins og við gerum hvert vor.

 

Við byrjum við reiðhöllina kl 9.30 næstkomandi fimmtudag, sumardaginn fyrsta.

 

Allir fá úthlutað svæði til að hreinsa, og plastpokum til að setja ruslið í. Það er nóg pláss fyrir alla og fólk hvatt til að taka þátt, ungir sem aldnir. Gott er að hafa með malarhrífur séu slíkar tiltækar og þeir sem eiga léttar kerrur mega gjarnan hafa þær með. Gámur verður staðsettur við reiðhöllina og í hann losum við ruslið.

 

Um klukkan 12 verður boðið upp á grillaða hamborðara og pylsur við reiðhöllina.

 

Eins og félagsmenn vita, þá er hreinsunin bæði gagnleg og skemmtileg og mikilvægt að við stöndum öll saman í að gera snyrtilegt í kringum hesthúsin og okkar íþróttasvæði. Því fleiri sem leggja hönd á plóg því betra 😊

 

Mætið endilega tímanlega, eigum skemmtilegan dag saman!