Ársskýrsla Fræðslunefndar fatlaðra 2021

ffh.JPG

NÁMSKEIÐIN
Vornámskeiðin voru enn lituð af áhrifum Kórónuveirunnar,Covid-19.
Töluvert var um sóttkví bæði hjá nemendum og sjálfboðaliðum. Nokkrir nemendur afskráðu sig vegna smitáhættu á miðju námskeiðstímabil. Þetta olli því að suma daga voru afar fáir nemendur og lítið var unnt að hagræða með því að færa nemendur til á milli daga, þar sem námskeiðin voru hafin, en nemendur okkar eru með mjög skipulagða dagskrá alla vikuna í öðrum tómstundum. Þetta reyndist starfinu mjög kostnaðarsamt, þar sem fasti kostnaðurinn hélst óbreyttur ásamt kostnaði við sóttvarnir.
Mikil eftirspurn var eftir helgarnámskeiði, en því miður höfum við enn bara tök á að halda eitt slíkt á laugardagsmorgnum, en það var tæplega þreföld umframeftirspurn eftir helgarnámskeiðum bæði á vorönn og haustönn.
Haustnámskeiðin fara vel af stað. Haustnámskeiðin 2021 fóru mjög vel af stað og er fullbókað á öll námskeiðin og komust færri að en vildu. Undanfarin ár hefur sjálfboðaliðastarfið gengið mjög vel og árið í ár er engin undantekning. Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri, margir sem hafa verið í hestamennsku eða langar til að byrja og eignast hest. Það á sérstaklega við um krakka á aldrinum 13-18 ára, en þeim gefst kostur á að komast í reiðtúr á hestunum okkar, en við höfum reynt að hafa reiðtúrana okkar í hverri viku og stundum tvisvar til þess að allir fái tækifæri á að komast í reiðtúrana. Elma Benediktsdóttir sá að mestu leyti um reiðtúrana síðastliðið ár, en hún situr einnig í Fræðslunefnd fatlaðra.
Nýskráningar nemenda eru flestar hjá börnum og unglingum og yngsti nemandinn okkar er 4 ára en sá elsti yfir fertugt. Þátttakendur komu frá 6 sveitafélögum, aðallega frá Mosfellsbæ, Reykjavík og Hafnarfirði.
Við sjáum töluverðar framfarir hjá nemendum okkar og hafa sum þeirra haft getu til þess að taka þátt í reiðnámskeiðum sem haldin eru á sumrin hjá hestamannafélögunum. Einnig hafa þessi námskeið stuðlað að því að foreldrar sem stunda hestamennsku hafa í kjölfarið treyst sér til að fara í reiðtúra með barnið sitt.
Það er alltaf jafn ánægjulegt að segja frá því hversu frábærar móttökur og lof þetta starf fær, bæði frá þeim sem eru á námskeiðunum, en ekki síður frá aðstandendum og þeim sem fylgjast með starfinu. Flestir þátttakendur koma aftur og aftur og sumir taka þátt allan veturinn.
Foreldrar og umönnunaraðilar bera starfi okkar vel söguna og kynna reiðnámskeiðin sín á milli, það hefur haft í för með sér fjölgun á nýjum nemendum og færri komast að en vilja.

 

SJÁLFBOÐALIÐASTARF – öflugt og í öllum aldurshópum.

Án sjálfboðaliða væri ekkert starf fyrir fatlaða. Við erum í góðu samstarfi við grunnskólana í Mosfellsbæ, sem hafa kynnt sjálfboðaliðastarfið með okkur og boðið nemendum sínum að fá sjálfboðaliðastarfið metið sem valgrein. Þetta samstarf hefur verið okkur ómetanlegt og þátttaka ungra sjálfboðaliða er afar góð. Sjálfboðaliðahópurinn var mjög sterkur og öflugur og ánægjulegt að sjá einnig fjölgun í hópi fullorðna sjálfboðaliða, en við leggjum áherslu á, að á hverju námskeiði séu 4 fullorðnir ásamt yngri sjálfboðaliðum.
Í vetur var því miður ekki hægt að vera með sjálfboðaliðakvöldin, hvorki í upphafi námskeiða né í lok þeirra sökum Covid. Til stendur að halda sjálfboðaliðakvöld í nóvember og að venju verða sjálfboðaliðar leystir út með gjöfum í lok hverrar annar.
Sjálfboðaliðastarfið fer vel af stað í haust og höfum við aldrei haft jafnmarga sjálfboðaliða og nú.

 

TÆKIFÆRI TIL VAXTAR OG MARKAÐSETNINGU Á ÍSLENSKA HESTINUM

Agla Hendriksdóttir, formaður fræðslunefndar fatlaðra sendi inn hugmynd að verkefni fyrir nemendur í MPM námi við Háskólann í Reykjavík, skýrslunni var skilað í vor og mun vonandi nýtast vel. Markmiðið var að tryggja enn betur rekstrargrundvöll starfsins og vöxt þess, en mikilvægt er að fleiri sveitafélög en Mosfellsbær komi að verkefninu og önnur hestamannafélög veiti aðstöðu, svo hægt sé að efla starfsemina og koma henni sem víðast. Agla setti sig einnig í samband við þá sem sinna sambærilegu starfi erlendis í von um samstarf. Slíkt samstarf getur nýst víða í hestasamfélaginu en þetta er einstakt tækifæri til að markaðssetja fjölhæfni íslenska hestsins og hið einstaka geðslag hans.
Við viljum nota tækifærið og hvetja þá sem hafa áhuga og búa yfir hestakosti sem nýtist í þetta starf að setja sig í samband við okkur. Þörfin er til staðar.

 

ÞAKKLÆTI TIL STYRKTARAÐILA OG VELUNNARA.

Fræðslunefnd Harðar vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þeirra aðila sem styrktu starfið á einn eða annan hátt. Einnig er það mjög þakkarvert að eiga góða að í hestasamfélaginu sjálfu.
Helgi í Blíðubakkahúsinu fær enn og aftur sérstakar þakkir fyrir að koma sjálfboðaliðastarfinu á framfæri við hestafólk í Blíðubakkahúsinu.
Heysalarnir okkar fá að sjálfsögðu þakkir fyrir að gefa af og til hey fyrir hestana, en Gulli Harðarfélagi hefur reynst okkur afar vel undanfarin ár, en Jón heysali á einnig þakkir skildar.
Því miður tókst ekki að afla styrkja vegna undirburðar umfram afsláttarkjara, en vonir standa til að úr rætist á komadi ári. Peningurinn sem kom við dósa og flöskusöfnun hefur að jafnaði verið nýttur til sjálfboðaliða en vegna Covid var lítið um söfnun á síðasta ári, en það sem safnaðist var nýtt upp upp í sóttvarnarkostnað, sbr. hanska, grímur og sótthreinsi fyrir búnaðinn.
Veiðivöruverslunin, Flugubúllan í Hlíðasmára styrkti starfið með grímum, en sá hluti hefði orðið verulega kostnaðarsamur fyrir okkur.
Á komandi ári þarf að endurnýja hjálma,beisli og tauma sem eru orðnir mjög slitnir, einnig þarf að fjölga stuðningsbeltum, þar sem nemendum hefur fjölgað. Leitað verður eftir stuðningi styrktaraðila, en einnig væri ánægjulegt ef að í hesthúsum Harðarfélaga leynist búnaður sem getur komið að góðum notum í starfinu okkar.
Í haust var ákveðið að fjölga í leiðbeinandahópnum í takt við fjölgun nemenda, en fram að þessu hefur einungis formaður getað leitt reiðnámskeiðin í fjarveru Fredricu Fagerlund reiðkennara og verið henni til stuðnings við að koma afar fötluðum einstaklingum á bak.
Lagðar voru inn styrkumsóknir fyrir komandi vetri m.a. til Rótarý í Mosfellsbæ og fengum við jákvæðar undirtektir, auk þess höfum við fengið nýja styrktaraðila sem ekki vilja láta nafns síns getið að svo stöddu. Við leggjum áherslu á að starfið sé rekið á þann hátt að útgjöld og skráningargjöld séu í lágmarki og nægir fjármunir séu til fyrir hverja námskeiðsönn svo hægt sé að halda starfseminni áfram. Það er ekki markmið með þessari starfsemi að hún skili hagnaði.
Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt málefninu lið kærlega fyrir og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

 

f.h. Fræðslunefndar fatlaðra.

Agla Elísabet Hendriksdóttir, formaður.

Ársskýrsla 2020 - Félag hesthúsaeigenda á Varmárbökkum Mosfellsbæ

Ársskýrsla Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum í Mosfellsbæ 2020

Í stjórn Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum á Varmárbökkum 2020 sátu:

Júlíus Ármann formaður

Þóra A. Sigmundsdóttir gjaldkeri

Björk Magnúsdóttir ritari

Herdís Hjaltadóttir meðstjórnandi

Kjörinn endurskoðandi: Erna Arnardóttir

Tilgangur félagsins er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna hvað varðar hesthús á svæðinu og stuðla að ýmsum félagslegum umbótum. Í samningi Mosfellsbæjar og Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum frá 5. nóvember 2001 kemur fram að félagið hafi áfram til ársins 2023 réttindi sem lóðarhafi að sameiginlegu svæði hesthúsaeigenda á Varmárbökkum til sameiginlegra þarfa þeirra. Samkvæmt 11. gr. samningsins framlengist hann um fimm ár í senn, sé  honum ekki sagt upp með eins árs fyrirvara. Forsenda fyrir úthlutun svæðisins til félagsins er að félagið standi opið öllum hesthúsaeigendum á svæðinu og þeir geti nýtt alla aðstöðu á svæðinu eins og um sameign þeirra sé að ræða á grundvelli hliðstæðra reglna og kveðið er á um í lögum um fjöleignarhús, enda skulu þeir vera félagar í Félagi hesthúsaeigenda. Félagið skuldbindur sig til þess að hafa eftirlit með því að hesthúseigendur fullnægi skilmálum um umgengni og þrifnað í hesthúsahverfinu samkvæmt skipulags- og byggingarskilmálum fyrir hverfið, lóðaleigusamninga og samþykkt nr. 238/997. Verði félagsmenn ekki við tilmælum félagsins um umgengni, skal félagið leita til bæjarins, sem þá skal beita tiltækum úrræðum til bóta. Gegn þessum skilmálum greiðir félagið ekki lóðarleigu til Mosfellsbæjar.

Á starfsárinu 2020 voru haldnir þrír stjórnarfundir. Vegna fordæmalausra aðstæðna í samfélaginu vegna veirunnar Covid-19 voru ekki haldnir hefðbundnir stjórnarfundir og framan af fóru samskipti fram í gegnum tölvupóst og síma varðandi fyrirliggjandi verkefni. Vegna aðstæðna dróst að halda aðalfund félagsins vegna fjöldatakmarkana en þegar færi gafst var gætt að fjarlægðarmörkum og smitvörnum.

Sjúkragerðið er á vegum félagsins og hafa Júlíus og Herdís séð um það og liðsinnt þeim sem á því hafa þurft að halda fyrir veik og slösuð hross.

Hringgerðin eru í eigu og umsjón félagsins. Kvörtun barst um vatnsaga í gerðunum vegna þess að mölin sópast til hliðanna og lokar fyrir afrennsli. Verktaki var fenginn til að draga mölina aftur inn á miðju og gera vatnsrákir til að vatnið renni frá. Þá setti Magnús Ingi lamir á hliðin í gerðunum.

Líkt og undangengin ár sá félagið til þess að trjágróður á svæðinu væri snyrtur.

Félaginu bárust kvartanir vegna gáma og vörubílspalla sem notaðir eru sem taðþrær í hesthúsahverfinu og í framhaldinu sendi félagið fyrirspurn á þá sem við átti varðandi frekari fyrirætlanir.

Nokkrar umræður urðu um hvaða verklag félagið eigi að viðhafa við að sjá til þess að félagsmenn gangi vel um hesthús sín og nærumhverfi. Til hliðsjónar eru; samningur félagsins við Mosfellsbæ um hesthúsahverfið á Varmárbökkum, samþykkt um umgengni og þrifnað í hverfinu nr. 283/1997 samþykktar af Umhverfisráðuneytinu og lóðarleigusamningar.

Júlíus Ármann

rekstrarreikningur.JPG

efnahags.JPG

 

Ársskýrsla Æskulýðsnefndar Harðar 2020-2021

Formáli

Formaður Æskulýðsnefndar 2020-2021 var Bryndís Ásmundsdóttir en með henni í nefnd voru þær Aðalheiður G. Halldórsdóttir, Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Halldóra Sif Guðlaugsdóttir, Kristín Tryggvadóttir og Randy Baldvina Friðjónsdóttir. 

Nefndin starfar í samstarfi við Sonju Noack sem sér um námskeiðahald og annað utan umhald fyrir félagið.

Kynningar viðburða fór fram í gegnum heimaísðu félagsins og í gegnum FB síðu Æskulýðsnefndar.

Æskan og hesturinn/ sýning í Herði

Undirbúningur var í gangi og var von okkar um að við gætum haldi viðburðinn Æskan og hesturinn. En því miður frestaðist hann vegna Covid 19. Fredrica Fagerlund hélt utan um þennan undirbúning sem að var fimleikar á hestum. Í staðinn fyrir æskan og hesturinn var haldin sýning fór fram þann 17. Maí. Krakkarnir buðu fjölskyldu og vinum á sýninguna sem tókst vel.

Þökkum Fredricu Fagurlund fyrir hennar þátt í undirbúningi.æskan.JPG

 

Pákafitness

Við héldum upp á páskafitness í mars þar sem að fjörutíu og átta krakkar tóku þátt. Við vorum með fullt af frumlegum og skemmtilegum leikjum. Svo í lokinn fengu allir vegleg verðlaun sem að var páskaegg.

 páskaf.JPG

 

 Fjölskylduferð á Hraðastaði

Við ákvöðum að halda fjölskylduferð á Hraðastaði. það voru nokkrir hugrakkir sem riðu upp eftir í grenjandi rigningu. Við grilluðum pylsur, fengum safa og prinspóló. Þetta var skemmtileg ferð.hraða.JPG

 Uppskeruhátíð 2021

Uppskeruhátíð verður haldin 18. Okt 2021 við í nefnd höfum skipulagt skemmtilegt kvöld fyrir krakkanna. Veðum m.a. með góðan mat, skemmtiatriði þar sem Einar Aron töframaður sýnir okkur töfra og svo verðlaunaafhendingu fyrir stigahæðstu knapa félagsins

Í barnaflokk voru það

  • Sigríður Fjóla Aradóttir

unglingaflokk voru það

  • Oddur Arason
  • Eydís Ósk Sævarsdóttir

Í ungmennaflokk voru það

  • Benedikt Ólafsson
  • Viktoría Von Ragnarsdóttir

Einnig varð Benedikt Ólafsson Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari í Gæðingaskeiði á Leiru Björk frá Naustum

 

Aðrir viðburðir

Því miður náðist ekki að halda fleirri viðburði þetta árið vegna samkomu takmarkanna vegna Covid 19 og því miður var ekki haldinn uppskeruhátíð né þrif á reiðtygjum og fjölskyldu ratleikur sem að hafði verið skipulagður. 

Lokaorð

Árið 2020-21 var því miður litað af samkomu takmörkunum. En við vonum að árið 2022 verði betra. Vonum að þeir sem starfi í nefnd haldi áfram að láta starfið blómstra eins og hefur verið undanfarin ár þrátt fyrir miklar takmarkanir.

Fyrir hönd æskulýðsnefndar skilar hér formaður æskulýðsnefndar Bryndís Ásmundsdóttir árskýrslu nefndar.

Ársskýrsla Reiðveganefndar 2021

Reiðveganefnd Harðar :
Einar Guðbjörnsson
Guðmundur Jónsson
Ingólfur Á Sigþórsson
Jóhannes Oddsson
Ragnheiður Þórólfsdóttir
Sæmundur Eiríksson formaður

Reiðveganefnd hafði til ráðstöfunar árið 2021 eftirfarandi framlög : Frá Landssambandi Hestamannafélaga til framkvæmda við reiðvegi í Mosfellsbæ og nágrenni kr. 3.350.000,- og sérstök úthlutun í Skógarhólaleið kr. 10.000.000,- Hörður fékk úthlutað frá Mosfellsbæ til viðhalds og nýframkvæmda reiðvega kr. 3.000.000,- og til viðbótar kr. 1.700.000,- sem Áhaldahúsið hafði til viðhalds á reiðleiðum í samráði við Hestamannafélagið Hörð. Samtals til reiðvegaframkvæmda hjá Hestamannafélaginu Herði kr. 18.050.000,-

Helstu verkefni og framkvæmdir á vegum Harðar og reiðveganefndar árið 2021 :

Keyrt var út efni og jafnað á reiðgötur um Tungubakkahringinn og vestur með Leirvogsá norðan við Flugskýlin. Stefnt er að því að bæta efni í reiðleið sunnanmegin þannig að reiðleiðin standi upp úr á stórstraumsflóði. - mynd 1mynd1.JPG

 

Reiðleið R11.09 Brúarlandsleið frá Tunguvegi að Brúarlandi hefur verið lokuð frá því í júní og er enn lokuð vegna framkvæmda. Sett hefur verið ný göngubrú yfir Köldukvísl neðan Leirvogstunguhverfis og verður gamla brúin notuð fyrir hestaumferð. Ekki er lokið frágangi á stígunum að göngubrú og reiðbrú. – mynd 2mynd2.JPG

 

Reiðleið R10.04 með Köldukvísl var hefluð frá brú á Vesturlandsvegi og upp að Víðiodda. Gert var við ræsi í brekkunni vestan Hringvegar neðan við Kiwanishúsið. Reiðleið R106.22 yfir Leirvogstungumela var öll lagfærð með ýtu og búið er að keyra út og jafna efni yfir norðurhluta leiðarinnar. Eftir er að hefla norðurhlutann og stefnt er að því að keyra efni yfir suðurhluta leiðarinnar og laga skarðið syðst á reiðleiðinni. – mynd 3mynd3.JPG

 

Á reiðleið R106.29 neðan við Bakkakotsvöll var gert við tvö ræsi. – mynd 4mynd4.JPG

 

Á reiðleið R20.02 Kollafjarðarleið um Esjumela var farið með ýtu og leiðin jöfnuð og lagfærð. Stefnt er að því að keyra yfirborðsefni í reiðleiðina. – mynd 5mynd5.JPG

 

Hluti reiðleiðar R11.09 Brúarlandsleið frá Völuteigi og að Stekkjaflöt var grjóthreinsuð og yfirborðsefni keyrt út, jafnað og heflað. Ný reiðgöng á Reykjavegi við Ísfugl voru opnuð í mars á þessu ári. – mynd 6mynd6.JPG

 

Á reiðleið R11.04 Uxamýri var gert við tvö ræsi, og keyrt efni í stærstu holur. Á síðasta ári var lagt bundið slitlag á hluta Hafravatnsvegar (brotin lína á mynd). Ekki hefur fengist leyfi landeiganda til þess að leggja reiðveg við hlið akvegar. Hafravatnsvegur er flokkaður sem „skilavegur“ hjá Vegagerðinni, það er honum verður skilað til Mosfellsbæjar á næsta ári og þá með bundnu slitlagi út undir Dalland. Samkvæmt aðalskipulagi er Hafravatnsvegur einnig skilgreindur sem reiðleið. Leitað hefur verið eftir því við Veggerðina að hugað verði að reiðleið með Hafravatnsvegi en það hefur litlu skilað til þessa. – mynd 7mynd7.JPG

 

Á reiðleið R11.05 Skammadalsleið vestur var gert við ræsi þar sem reiðleiðin liggur yfir Skammdalslækinn og fyllt í stærstu holur. Með Skammdalslæk er reiðleið á skipulagi (græn lína). Reiðleiðin liggur frá Völuteig um Álafossveg og með Skammadalslæk upp í suðurenda Skammadals. Vonandi verið farið í það að leggja þessa reiðleið sem fyrst þannig að greið leið verði um Skammadal milli reiðleiðar við Völuteig og yfir í Mosfellsdal þar sem ekki er sýnt að leysist úr þeim hnút sem reiðleiðir eru í við Reykjahvol. - mynd 8mynd8.JPG

 

Framkvæmdum við vatnstankinn í Úlfarsfelli var lokið nú í haust en reiðleiðin hefur verið notuð sem aðkomuleið verktaka. Í verklok var sett yfirborðsefni yfir reiðleiðina frá áningunni neðan við vatnstankinn og út að Skarhólabraut. Eftir að að setja upp lokun fyrir bílaumferð við Skarhólabraut. – mynd 9mynd9.JPG

 

Áfram var unnið við lagfæringar á reiðleið R410.03 um Esjuhlíðar og sett niður nokkur ræsi og gert við girðingar. – mynd 10mynd10.JPG

 

Sérstök úthlutun var sett í Skógarhólaleið kr. 10.000.000,- og stendur sú vinna yfir núna. Lagfæringar verða gerðar á reiðleið milli Brúsastaða og Selkots, á kafla austan og sunnan við Stíflisdalsvatn og á kafla í Fellsendaflóa – mynd 11mynd11.JPG

Árskýrsla mótanefndar 2021

mn.JPG

Nefndi var óvenjulega stór og vel skipuð ár:

-        Ragnheiður Þorvaldsdóttir (formaður)

-        Kristinn Sveinsson

-        Sigurður H. Örnólfsson

-        Rakel Katrín Sigurhanssdóttir

-        Ásta Friðjónsdóttir

-        Jón Geir Sigurbjörnsson

-        Súsanna Katarínaa Sand Guðmundóttir

Eftirfarandi mót voru haldin í vetur

3 vetrar mót:

Grímutölt Fiskbúðarinnar Mosfellsbæjra, Lækjabakkamótið og Fákafarsmótið. Grímutöltsmótið var haldið inn í höllinni hjá okkur og mættu rúmlega 30 keppendur til leiks. Seinni tvö vetar mótinn okkar voru svo haldin út á vellinum hjá okkur, meðal annars vegna Covid reglna um mótahald. Í hvoru móti fyrir sig voru rúmlega 50 skráningar

Opna Gæðingarmótið

Opna Gæðingarmót Harðar var haldið helgina 8-9 maí. Mótið var með hefðbundnum hætti. Þátttakendur voru tæplega 100 og var góð stemming meðal þátttakenda, dómara, sjálfboðaliða og annar sem komu að mótinu.

Opna Mosfellsbæjarmeistarmótið

Opna Mosfellsbæjarmeistarmótið var haldið 4-6 júni. Keppt var í als 32 flokkum og 270 skráningar. Mótið tókst í alls staði vel, mikil ánægja var bæði meðal þátttakanda, dómar og sjálfboðaliða. Þar sem við víxluðum íþróttamóti og gæðingamóti, færðist unghestakeppni yfir á þetta mót.

Tölumót Harðar

Vegna úrtöku fyrir Íslandsmót var sett upp tölumót 24.júni þar boðið var upp á allar greinar í meistara flokki (T1, T2, V1, F1 PP1). Þetta mót reyndist vel og mættu als 70 þátttakendur til leiks.

Auk þess var fjárfest í nýjum spjaldtölvum fyrir dómara, reyndust mjög vel og auðvelduðu okkur til muna mótahaldið..

Mótanefndi þakkar öllum sem tók þátt, keppendur, dómurum og sjálfboðaliðum fyrir frábæra samveru og sjáumst hress á næsta ári.

Fyrir hönd mótanefndar

Ragnheiður Þorvaldsdóttir

Uppskerahátíð Æskulýðsnefndar 2021

Takk fyrir uppskeruhátíð kæru Harðarfélagar!
Við vorum með pizzaveislu fengum Aron Einar töframann til að skemmta okkur aðeins, síðan var verðlaunaafhending og svo ís í desert.
Takk fyrir komuna og hlökkum til vetrar þar sem eitthvað skemmtilegt verður brallað saman.
Með kveðju æskulýðsnefndin
 
Viðurkenningar fyrir stigahæstur knapar
Í barnaflokk voru það
- Sigríður Fjóla Aradóttir
 
unglingaflokk voru það
- Oddur Arason
- Eydís Ósk Sævarsdóttir
 
Í ungmennaflokk voru það
- Benedikt Ólafsson
- Viktoría Von Ragnarsdóttir
 
Einnig varð Benedikt Ólafsson Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari í Gæðingaskeiði á Leiru Björk frá Naustum.
usk.jpg
usk1.jpg
usk2.jpg
usk3.jpg

Aðalfundur í dag miðvikudag kl 20 -áminning

Boðað er til aðalfundar hestamannafélagsins Harðar miðvikudaginn 27. október nk. kl 20 í Harðarbóli. 

Félagsmenn eru hvattir til þess að mæta.  

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundatstörf samkvæmt 5. gr félagsins.

Dagskrá aðalfundar skal vera: Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður flytur skýrslu stjórnar

Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. Milliuppgjör

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins

Reikningar bornir undir atkvæði

Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Árgjald ákveðið

Lagabreytingar

Kosningar samkvæmt 6. grein þessara laga

Önnur mál

Fundarslit

Aðeins skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á fundinum skv. 3.gr laga félagsins. Stjórnin  

Uppskerahátíð Æskulýðsnefndar

Uppskeruhátíð æskulýðsnefndar verður mánudaginn 18.10.21 kl 18-19:45
 
Allir velkomir sem eru í Herði!
Boðið verður uppá mat, skemmtiatriði og verðlaunaafhendingu fyrir árið 2021
Endilega látið vita í eventinum á Facebook hversu margir koma.
 
Endilega koma með börnin ykkar og þá sem eru í kringum ykkur í hesthúsinu. Það eru ekki öll börn á fb svo ég leita til ykkar að hvetja þau til að koma það verður töframaður sem mætir og sýnir okkur eitthvað skemmtilegt sem allir geta haft gaman af.
 
með bestu kveðju
Æskulýðsnefndin

Aðalfundur Harðar - Fundarboð

Boðað er til aðalfundar hestamannafélagsins Harðar miðvikudaginn 27. október nk. kl 20 í Harðarbóli. 

Félagsmenn eru hvattir til þess að mæta.  

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundatstörf samkvæmt 5. gr félagsins.

Dagskrá aðalfundar skal vera: Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara

Formaður flytur skýrslu stjórnar

Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins og kynnir 9 mán. Milliuppgjör

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins

Reikningar bornir undir atkvæði

Fjárhagsáætlun næsta árs og umræður

Árgjald ákveðið

Lagabreytingar

Kosningar samkvæmt 6. grein þessara laga

Önnur mál

Fundarslit

Aðeins skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á fundinum skv. 3.gr laga félagsins. Stjórnin