Hæfileikamótun LH

Með nýju fyrirkomulagi í afreksmálum LH hefur verið ákveðið að setja af stað verkefni fyrir unga og metnaðarfulla knapa, það kallast Hæfileikamótun LH. Verkefnið verður á ársgrundvelli og er fyrsta skref og undirbúningur fyrir U-21 árs landslið. Ný afreksstefna LH verður birt á heimasíðu sambandsins á næstunni.

Hæfileikamótun LH fer af stað 2020, þar munu koma saman til æfinga ungir og hæfileikaríkir knapar víðsvegar af landinu. Verkefnið samanstendur af 6 hópum sem verða staðsettir í hverjum landshluta fyrir sig. Fjöldi knapa í hóp er 8. Gjaldgengir í hópinn eru unglingar á aldrinum 14-17 ára (unglingaflokkur). Frábært tækifæri fyrir unga knapa til að undirbúa sig með markvissri kennslu til að takast á við verkefni bæði hérlendis og á erlendum vettvangi t.d. Norðurlandamóti. Sýnum karakter verkefnið verður haft til hliðsjónar við störf hópanna. Nálgast má lýsingu á verkefninu á þessari slóð: https://www.synumkarakter.is/

Markmið Hæfileikamótunar LH er að:

Fjölga þeim ungu knöpum sem fylgst er með á landsvísu
Undirbúa unga knapa fyrir hefðbundin landsliðsverkefni
Að byggja upp til framtíðar knapa í fremstu röð
Kynna stefnu LH í afreksmálum fyrir félögum og vinna í samvinnu með þeim
Stuðla að uppbyggilegu afreksstarfi víðsvegar um landið.
Viðburðir

Janúar – helgarnámskeið (laugard/sunnud-einstaklingskennsla með hesti 45min)
Mars – helgarnámskeið (laugard/sunnud-einstaklingskennsla með hesti 45min)
Apríl/maí – helgarnámskeið (laugard/sunnud-einstaklingskennsla með hesti 45min)
Maí – vinna vetrarins yfirfærð á keppnisvöll

Nánari upplýsingar við linkinu:

 

https://www.lhhestar.is/is/frettir/haefileikamotun-lh

Landsmót 2020!

Kæru félagsmenn! 

Nú geta félagsmenn keypt vikupassa á Landsmót Hestamanna sem haldið verður á Hellu 6. - 12. júlí 2020 og styrkt um leið félagið okkar.  Með því að kaupa í forsölu í gegnum linkinn hér að neðan  renna 1.000 kr til hestamannafélagsins. Miðaverð í forsölu er aðeins 16.900 kr. 

Sá hluti sem rennur til Harðar mun fara óskiptur til Fræðslunefndar fatlaðra.

 

https://tix.is/is/specialoffer/7ub3g2xr5qyle

Tökum höndum saman - styðjum félagið og tryggjum okkur um leið miða á Landsmót hestamanna 2020 á besta mögulega verði. 

 

Ársskýrsla 2019 Hestamannafélag Harðar

 
   


Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar 2019

 

Stjórn Hestamannafélagsins Harðar:

 

Formaður:

Hákon Hákonarson

Aðalstjórn:

Anna Lísa Guðmundsdóttir       Kjörin   2017

Erna Arnardóttir                       Kjörin   2017

Gígja Magnúsdóttir                   Kjörin   2018

Ólafur Haraldsson                     Kjörinn 2018

Haukur Níelsson                       Kjörinn 2017

Kristinn Már Sveinsson            Kjörinn 2017

Ragnhildur B. Traustadóttir      Kjörin   2018

Rúnar Guðbrandsson                Kjörinn 2018

Áheyrnarfulltrúi:

Thelma Rut Davíðsdóttir

Skoðunarmenn:

Sveinfríður Ólafsdóttir

Þröstur Karlsson

 

Skýrsla stjórnar

Haldnir voru 12 formlegir stjórnarfundir á starfsárinu og funduðu nefndir reglulega um sín málefni.  Tengiliður stjórnar situr í flestum nefndum félagsins. Reglulega fundaði formaður, stjórnarmenn og nokkrir formenn nefnda með starfsmönnum Mosfellsbæjar og einnig áttum fundi með UMSK.

Formaður félagsins hefur fundað s.l. ár með formönnum Hestamannafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem farið er yfir hin ýmsu mál. 

Hulda Gústafsdóttir arkitekt hjá Landslagi, kynnti fyrir félagsmönnum nýtt deiliskipulag á Harðarsvæðinu 4. september sl.  Deiliskipulagið var síðan samþykkt í auglýsingu af Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar 13. september.  Í 1. áfanga verður úthlutað 3 hesthúsalengjum austast í hverfinu, nýtt svæði undir rúllubagga og Trek svæði, þar sem rúllubaggastæðið er núna.  Samfélagssjóður Kaupfélags Kjalnesinga veitti félaginu 2 milljóna króna styrk í væntanlega Trek braut félagsins og eru þeir peningar geymdir á sér reikningi, en Trek braut er þrautabraut fyrir hesta, bæði í keppni og til þjálfunar.  Í 2. áfanga verður núverandi byggð þétt.  Mesta aukningin verður síðan í 3ja áfanga, þegar Sorpa fer af svæðinu og þar  er gert ráð fyrir ca 10 - 12 hesthúsalengjum til viðbótar.  Þarna er verið að horfa til næstu 10 – 15 ára.  

Starfsmenn félagsins á árinu voru Hólmfríður Halldórsdóttir, sem sér um skráningu og utanumhald á Harðarbóli, Sonja Noack sem sér um samskipti við nefndir, skráningar á námsskeið, senda út reikninga o.fl. auk þess að vera yfirreiðkennari félagsins og  Rúnar Sigurpálsson framkvæmdastjóri sem sér m.a. um reiðhölllina, hringvöllinn og allar framkvæmdir á vegum félagsins. Ráðning framkvæmdastjóra var mikil lyftistöng fyrir félagið.  Rúnar þekkir félagið betur en nokkur annar, er vakinn og sofinn yfir starfsemi félagsins og hefur stjórnað framkvæmdum félagsins af mikilli rögggsemi. Helstu framkvæmdir félagsins voru:

Harðarból:

Ný lýsing var sett í eldri hluta hússins.  Gamli þakhlutinn var málaður og búið er að mála allan salinn og gluggana í eldri hlutanum.  Einnig var anddyrið og salernin máluð. Steypt var stétt við húsið austanvert og byggð skjólgirðing fyrir ruslatunnur og grillið.  Nýr ofn var keyptur í eldhúsið að upphæð 1 milljónir króna, en sá gamli var orðinn ónýtur.  Harðarból er mjög vinsælt í útleigu og því var talið nauðsynlegt að vera með góðan ofn.

Reiðhöllin:

Reiðhöllin var háþrýstiþrifin í sumar og nýtt hitakerfi sett undir áhorfendabekkina.  Búið er að byggja veglega sjoppu í höllina, sem er bæði ryk- vatns- og músaheld. Það var ekki forsvaranlegt að bjóða upp á veitingar í fyrri aðstöðu. Búið er að fá tilboð í vökvunarkerfi og verður það sett upp á næstu vikum.  Í framhaldinu verða settir speglar á battana, svo að knapar geti séð sjálfa sig og ganglag hestsins.

Reiðleiðir:

Blikastaðaneshringurinn var lagfærður, sem og Tungubakkahringurinn.  Leiðin frá brúnni að Fitjum að Varmadalsbrúnni var lagfærð og nýr vegur gerður í brekkuna fyrir ofan Varmadalsbrúna að Ístaki.  Stærsta framkvæmdin var lagfæring undir brúna við Köldukvísl.  Árfarvegurinn dýpkaður og lagfærðir árbakkarnir, ræsið stækkað og lagfært.  Er það von okkar að með þessu verði komið í veg fyrir skemmdir eða amk að skemmdir verði í lágmarki þegar árin ryður sig næsta vor.  Einnig var reiðleiðin á vesturbakka árinnar að vaðinu, lagfærð.  Reiðleiðin undir Varmárbrúna var einnig lagfærð og reiðleiðin frá Varmárbrúnni að vaðinu við Köldukvísl var lagfærð, sem og vaðið við trébrúna yfir Köldukvísl.  Hestamannafélagið lagði til 10 vörubíla af reiðvegaefni í nýju/gömlu reiðleiðina við Esjurætur.  En opnun þeirra reiðleiðar er mikið fagnaðarefni öllum hestamönnum.

Vegagerðin lagði varanlegt slitlag á veginn að Hafravatni og misstum við því reiðleiðina sem tengir Skarhólabraut við Hólmsheiði.  Ekki hefur fundist lausn á því, en verið er að vinna með hugmyndir.

Skeiðvöllurinn:

10 cm lag af vikri var keyrt í völlinn og hann grófjafnaður.  Á næstunni verður völlurinn heflaður og saltborinn, en með því á að binda efnið betur.  Okkur var ráðlagt að gera þetta að hausti og leyfa yfirborðinu að setjast vel yfir veturinn.

Sú breyting varð á styrkveitingum Mosfellsbæjar til reiðvegagerðar, að styrkjunum var úthlutað til félagsins og félagið bar síðan ábyrgð á og greiddi fyrir reiðvegaframkvæmdir. Það er til mikilla bóta, því féð nýtist þannig mun betur og framkvæmdir ganga greiðar fyrir sig. 

Mosfellsbær lagði fræs frá enda reiðhallarinnar við Harðarból og að gámnum og eins var lagt fræs á veginn milli efra og neðra hverfisins.

Kerrustæðin hafa komið vel út, en ákveðið var að hafa árgjaldið það lágt eða 6 þúsund krónur, að enginn mundi setja gjaldið fyrir sig og hefur það mælst vel fyrir. Hestamannafélagið hefur óskað eftir því við Mosfellsbæ að sett verði hraðahindrun við Blíðubakkahúsið, en alltof margir keyra of hratt í hverfinu, sem getur valdið stórlsysi. Beinir stjórn því til félagsmanna að þeir taki sig verulega á í þessum efnum. 

Einnig hefur félagið óskað eftir að lýsingu verði komið á frá hverfinu að Tungubakkahring og helst auðvitað að allur Tungubakkahringurinn verði upplýstur.

Á síðasta ári kom fram kæra um meint einelti. Þegar sú kæra barst, var undirritaður að endurskrifa Handbók Harðar, en eitt af skilyrðum þess að geta verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ, er að hafa slíka handbók.  Þar er ítarlegur kalfi um meint einelti og hvernig skuli taka á slíku. Aldrei áður á mínum félags- og stjórnunarferli til 30 ára, hef ég þurft að eiga við slíkt mál.  Um var að ræða meint einelti á milli félagsmanna, félagsmanna sem öll stjórnin þekkti vel og búin að þekkja til margra ára. Eineltismál eru í eðli sínu mjög viðkvæm mál og því skiptir miklu máli hvernig til tekst.  Stjórnin ákvað strax að leita til fagaðila með málið.  Það tók því miður nokkuð langan tíma og biður stjórnin hlutaðeigandi aðila enn og aftur afsökunar á þeirri töf.  Að endingu fengum við álit fagaðila og á stjórnarfundi félagsins í apríl sl, var lagt til í ljósi álitsins, að málinu yrði vísað frá og var það samþykkt.  Formaður hafði samband við málsaðila og skýrði þeim frá samþykkt stjórnar og bað þá afsökunar á töfinni.

Benedikt Ólafsson og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Harðar 2018 og óskum við þeim innilega til hamingju með þann tiltil. 

Hörður og FMOS eru áfram í samstarfi og er skólinn að leigja reiðhöllina undir verklega kennslu.  Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri leigir höllina aftur veturinn 2019 – 2020 undir kennslu í Reiðmanninum.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir þetta árið og framkvæmdaáætlun fyrir félagið til næstu 7 ára var gerð og lögð fyrir Mosfellsbæ.  Með slíkri áætlun er reynt að horfa heildstætt á svæðið og nauðsynlegar framkvæmdir, en áætlanir Mosfellsbæjar gera ráð fyrir mikilli fjölgun bæjarbúa og eðlilegt að gera ráð fyrir að sú fjölgun íbúa, kalli á aukna starfsemi íþróttafélaganna og þ.m.t. hestamannafélagins.

Kostnaður vegna framkvæmda ársins nemur um 15 – 17 milljónum króna, en enn hafa ekki allir reikningar skilað sér í hús. 

Árshátíð Harðar var haldin í Harðarbóli 23. febrúar og tókst mjög vel. Þangað mættu um 100 manns og skemmtu sér vel. Þökkum við árshátíðarnefnd fyrir hennar vinnu.

Umhverfisnefndin sá um að skipuleggja hreinsunardaginn og gekk hann vel. Hann var haldinn á sumardaginn fyrsta.  Félagsmenn voru virkir í að hreinsa til í hverfinu og ánægjulegt að sjá hvað margar hendur vinna létt verk.  Eftir hreinsunina var boðið í grill í reiðhöllinni.

Firmakeppni Harðar fór líka fram sumardaginn fyrsta og var mikil þátttaka og fór verðlaunaafhending fram í Harðarbóli og seldar voru vöfflur, kaffi og kakó.

Í maí var Formannsfrúarreið Harðar.  Þar mættu 55 konur úr Herði og endað var á mikilli veislu í Harðarbóli.

  1. maí var Hlégarðsreið Fáks og buðum við upp á veislu í reiðhöll félagsins og við heimsóttum Fák 11. maí.

Ákveðið var að leggja niður beitarnefnd félagsins amk tímabundið.  Á vegum Mosfellsbæjar er verið að teikna upp beitarsvæði Harðar og verður sú teikning sett á heimasíðu bæjarins. Í framhaldinu verður beitarsvæðið endurskipulagt með það í huga að bæta nýtingu og að sem flestir hafi aðgengi að vatni, sé þess nokkur kostur.  Sú vinna er ekki hafin, en beðið er eftir teikningunni frá Mosfellsbæ.  Með þessu ætti gagnsæi að vera meira og auðveldara að sjá á netinu, hver er með hvert beitarhólf.  Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri úthlutuðu beit eftir nýju reglum félagsins og fengu nær allir beitarhólf sem þess óskuðu.  Úthlutunin gekk vel og fáar kvartanir.

Íslandsmótið 2019 var haldið á félagssvæði Fáks.  Öll hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu stóðu saman að mótinu, sem tókst afar vel. Hörður átti fulltrúa í hinum ýsmu greinum og stóðu keppendurnir sig mjög vel. Lítilsháttar tap varð á mótinu og var hlutur Harðar í tapinu liðlega 40 þús krónur.

Heldri menn og konur halda áfram að slá í gegn.  Haldnir voru 4 viðburðir hjá þeim á árinu og mæting hefur verið á bilinu 60 – 110 manns.  M.a. stóðu þau fyrir Þorrablóti og mættu yfir 100 manns.  Boðið hefur verið upp á mat, fyrirlestra,  hópsöng, einsöng og alltaf verið einstök stemming

 

Skýrslur frá nefndum félagsins verða birtar á heimasíðu félagsins, ásamt ársreikningi og skýrslu stjórnar.

 

Nefndirnar hafa lagt mikla vinnu af mörkum og staðið sig afburða vel.  Eiga nefndarmenn þakkir skildar fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig fyrir félagið.  Án sjálfboðaliðastarfsins væri félagið ekki til.  Einnig vill stjórnin þakka Mosfellsbæ fyrir öflugan stuðning við félagið.  Framundan eru mörg og flest nauðsynleg verkefni fyrir félagið og má þar nefna öðru fremur að koma upp félagshúsi og þá er sérstaklega horft til nýliðunar í hestamennsku.  Önnur hestamannafélög víða um land hafa komið sér upp slíku húsi og hefur það gengið  vel og bætt nýliðun. Það er erfitt fyrir börn og unglinga að byrja í hestamennsku ef þau eiga ekki ættingja eða fjölskylduvini til þess að hýsa hestinn og að hjálpa þeim af stað í hestaíþróttinni.

Stjórn félagsins er ánægð með rekstrarafkomu ársins, en talsvert var fjárfest á árinu sem allt er gjaldfært. Félagið stendur all vel fjárhagslega og hefur bolmagn í frekari framkvæmdir. Skuldir félagsins eru engar. Horft er til þess að Hestamannafélagið Hörður er fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.  Stjórn félagsins þakkar félagsmönnum fyrir árið og hlakkar til samstarfs á næsta ári.

 

Árskýrsla Reiðveganefndar 2019

Reiðveganefnd Harðar :

Guðmundur Jónsson
Helgi Ólafsson
Ingólfur Á Sigþórsson
Jóhannes Oddsson
Ragnheiður Þórólfsdóttir
Sæmundur Eiríksson formaður

Reiðveganefnd hefur til ráðstöfunar á þessu ári eftirfarandi framlög :
Frá Landssambandi Hestamannafélaga til framkvæmda í Mosfellsbæ kr. 2.900.000,-.
Frá Mosfellsbæ til nýframkvæmda kr. 5.000.000,-
og til viðhalds reiðvega kr. 1.400.000,-
Samtals til reiðvegaframkvæmda hjá hestamannafélaginu Herði kr. 9.300.000,-

Helstu verkefni og framkvæmdir á vegum reiðveganefndar árið 2019 :

Reiðleið um Blikastaðanes var lagfærð. Borið var efni í veginn þvert yfir nesið og lagfærð leiðin umhverfis nesið.

Lokið var við nýja reiðveginn vestan við neðra hesthúsahverfið, keyrt var út yfirborðsefni á veginn og það brotið og heflað.

Keyrt var út efni og brotið á reiðgötur út frá hesthúsahverfi. Leiðin norðan hesthúsahverfis yfir vaðið á Varmá, upp með Köldukvísl um reiðgöngin á Tunguvegi og upp að göngubrú. Einnig leiðin frá efri reiðgöngum á Tunguvegi yfir á efra vaði á Varmá og norður að göngubrúnni á Köldukvísl. Auk þess voru lagfæringar á Tungubakkahringnum. Nýtt hefur verið sem ofaníburður á reiðleiðir næst hesthúsahverfinu malarefni úr hesthúsagerðum.

Við austurenda Úlfarsfells var sett ræsi í gilið og borið í reiðveginn út að Hafravatnsvegi.

Við Víðiodda var lagður nýr reiðvegur frá vaði sem var nokkur faratálmi á leiðinni upp Mosfellsdalinn, grýtt og erfitt yfirferðar ef mikið var í ánni. Nýi reiðvegurinn liggur nú um gamalt vað sem er ofar í ánni og er fyrir ofan ármót Norðurár og Suðurár.

Á leiðina með Köldukvísl milli Mosfellsvegar og golfvallar verður keyrt út yfirborðsefni.

Hafin er vinna við lagfæringu og endubætur á efri reiðgöngum á Tunguvegi með Varmánni. Tunguvegur var tekinn í notkun árið 2014 og í flóðum á hverju ári hafa Kaldakvísl og Varmá tekið með sér reiðvegarefnið úr undirgöngunum. Vonast er til að ástandið skáni eitthvað með þeim lagfæringum sem nú standa yfir.

Það er óbreytt staða með reiðleið ofan Reykjahvols og áfram yfir Varmá í Húsadal að reiðleið um Skammdal og allt útlit fyrir að reiðleiðin lokist vegna andstöðu landeiganda og húsbygginga ofan á reiðgötunni. Samþykkt hafði verið hjá Mosfellsbæ að reiðgata yrði færð upp fyrir húsin Reykjahvol 26, 28 og 30 til bráðabirgða áður en framkvæmdaleyfi fyrir húsbyggingum yrði samþykkt, en eins og staðan er núna er það ekki að ganga eftir.

Reiðgöng á Reykjavegi. Frá árinu 2008 hefur málið verið tekið upp á hverju ári á fundum með Vegagerð og Mosfellsbæ. Loks kom það fram á fundi með Vegagerð nú í apríl að fara ætti í framkvæmd á undirgöngum á þessu ári og göngin yrðu tilbúin fyrir áramót. Ekki gekk það eftir, póstur kom frá Vegagerðinni um það að framkvæmd yrði frestað fram á næsta ár.

Í sumar var sett bundið slitlag á Hafravatnsveginn frá Reykjavegi og að vesturenda Hafravatns. Hafravatnsvegurinn frá gatnamótum Úlfarsfellsvegar hefur verið notaður sem reiðleið sem er framhald af reiðleiðinni meðfram Úlfarsfelli. Reynt var að fá samþykki landeiganda til þess að leggja reiðveg öðru hvoru megin við Hafravatnsveginn en það leyfi fékkst ekki. Einnig var í sumar lagt malbiksfræs á fremsta hlutann af veginum í gegnum sumarbústaðahverfið við vesturenda Hafravatns.

Reiðleið frá hesthúsahverfi út að Brúarlandi hefur verið notuð fyrir umferð vegna byggingar á nýju íþróttahúsi við Varmárskóla. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki um mánaðarmótin okt/nóv og ætti reiðleiðin að opnast um mánaðarmótin nóv/des 2019.

Reiðleið um Skarhólamýri upp að Úlfarsfelli verður notuð sem vinnuvegur við byggingu á vatnstanki sem reisa á upp í norðurhlíð Úlfarsfells. Byrjað er á jarðvinnu og gerð vinnuvegar. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki um miðjan maí 2020 og reiðleiðin opnist þá að nýju.

reiðleið1.JPG

Reiðleiðir um og út frá hesthúsahverfi, Tungubakkar.

reiðleið2.JPG

Reiðleið um Blikastaðanes

reiðleið3.JPG

Reiðleið um vað við Víðirodda.

 

reiðleið4.JPG

Reiðleið með Köldukvísl í Mosfellsdal.

 

reiðleið5.JPG

Reiðleið við Úlfarsfell, Hafravatnsveg og fyrirhuguð reiðleið um Reykjahvol og Húsadal. Reiðleið um undirgöng á Reykjavegi og um Skarhólamýri.

 

 

 

 

 

Ársskýrsla 2018 Félag hesthúsaeigenda

Ársskýrsla Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum í Mosfellsbæ 2018

Í stjórn Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum 2018 sátu:

Júlíus Ármann formaður
Þóra A. Sigmundsdóttir gjaldkeri
Björk Magnúsdóttir ritari
Herdís Hjaltadóttir meðstjórnandi
Ragnheiður Traustadóttir tilnefnd af stjórn Harðar
Kjörinn endurskoðandi: Erna Arnardóttir

Tilgangur félagsins er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna hvað varðar hesthús á svæðinu og stuðla að ýmsum félagslegum umbótum. Í samningi Mosfellsbæjar og Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum frá 5. nóvember 2001 kemur fram að félagið hafi áfram til ársins 2023 réttindi sem lóðarhafi að sameiginlegu svæði hesthúsaeigenda á Varmárbökkum til sameiginlegra þarfa þeirra. Forsenda fyrir úthlutun svæðisins til félagsins er að félagið standi opið öllum hesthúsaeigendum á svæðinu og þeir geti nýtt alla aðstöðu á svæðinu eins og um sameign þeirra sé að ræða á grundvelli hliðstæðra reglna og kveðið er á um í lögum um fjöleignarhús, enda skulu þeir vera félagar í Félagi hesthúsaeigenda. Félagið skuldbindur sig til þess að hafa eftirlit með því að hesthúseigendur fullnægi skilmálum um umgengni og þrifnað í hesthúsahverfinu. Enn fremur að ef félagsmenn verði ekki við tilmælum félagsins um umgengni, skuli félagið leita til bæjarins, sem þá skal beita tiltækum úrræðum til bóta. Gegn þessum skilmálum greiðir félagið ekki lóðarleigu til Mosfellsbæjar. Í lögum félagsins segir að tilgangur þess sé að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna hvað varðar hesthúsin, skipulag og umgengni, þannig að snyrtimennska og menningarbragur ráði þar ríkjum á öllum sviðum. Enn fremur að stuðla að ýmsum félagslegum umbótum, s.s. bað- og sjúkraaðstöðu fyrir hross félagsmanna, lýsingu svæðisins, lagfæringar á bíl- og reiðvegum og annað sem félagsmenn telja nauðsynlegt til uppbyggingar svæðisins.

Haldnir voru þrír stjórnarfundir á starfsárinu og voru störf stjórnar með hefðbundnu sniði. Stjórnin fór í vettvangsferð um hesthúsahverfið og unnið var að viðhaldi á hringgerðum og snyrtingu á trjágróðri á svæðinu. Þá sátu stjórnarmenn stefnumótafund sem Hestamannafélagið hélt í apríl þar sem fjallað var um skipulags- og umhverfismál og innra starf félagsins. Farið var yfir hesthúseigendaskrá vegna innheimtu félagsgjalda fyrir árið 2019 í samræmi við þá ákvörðun að innheimta aðeins eitt gjald fyrir hvert hesthús. Fengin var uppfærð eignaskrá hjá Þjóðskrá Íslands sem innheimtulisti var unnin eftir.

Júlíus Ármann formaður

Ársskýrla Fræðslunefndar fatlaðra 2018-2019

Starfsemi Fræðslunefndar fatlaðra 2018-2019.

Reiðskólinn fór af stað á haustönn með10 vikna námskeiðum en eftir áramót voru námskeiðunum skipt upp í  2 x 8 vikna námskeið.  Í hverri viku voru haldin fimm námskeið og er hámarksfjöldi þátttakenda fimm á hverju námskeiði.

Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel í og eru þó nokkuð margir sem sækja námskeiðin allan veturinn.

Þrátt fyrir umfram eftirspurn í gegnum tíðina, þá hefur ekki verið fullbókað á öll reiðnámskeiðin, svo var einnig nú. Ástæðuna má rekja annars vegar til þess að sumir dagar eru vinsælli en aðrir og því þurftu nokkrir frá að hverfa.  Hins vegar kom upp atvik þar sem tveir nemendur þurftu að hætta á miðju námskeiði vegna veikinda.  Nýtingin var hins vegar mjög góð þar sem við fækkuðum námskeiðsdögum um einn og lækkuðum þar með rekstrarkostnað á móti.  

Þegar líða fór á vorið bættist við stutt 4ja vikna námskeið fyrir unga nemendur í grunnskóla.  

Töluvert var  af nýjum nemendum sérstaklega á aldrinum 8 – 14 ára, einnig bættust við í hópinn tveir eldri nemendur sem glíma við fötlun í kjölfar sjúkdóma eða áfalla á lífsleiðinni.

Nú í haust munum við í fyrsta skipti hafa tækifæri til að raða nemendum niður eftir aldri og getu, það  verður spennandi að sjá árangurinn af því.

Á vorönn var lögð áhersla á að veita reiðkennslu eftir þörfum hvers og eins og reyna að auka markvisst við hreyfigetu og sjálfsöryggi á baki og fengu sumir t.d. að prófa hringteymingar og ásetuæfingar á baug.  Einnig var notast við brokkspírur og hefðbundinn tól og tæki til að auka við hreyfigetu á baki og stjórn á hesti. Það var ánægjulegt að sjá árangur af starfinu eftir veturinn hjá sumum einstaklingum.

 

Sjálfboðaliðastarfið:

Við erum í góðu samstarfi við grunnskólana í Mosfellsbæ, sem hafa auglýst sjálfboðaliðstarfið með okkur og  boðið nemendum sínum að fá sjálfboðaliðastarfið metið sem valgrein.  Þátttaka ungra sjálfboðaliða er því afar góð. Hins vegar vildi svo óheppilega til að stundaskrá nemenda í FMOS rakst saman við reiðnámskeið fatlaðra og því misstum við nokkra sjálfboðaliða eftir áramót, en það stendur nú til bóta.  Hins vegar fjölgaði í hópi fullorðna sjálfboðaliða og styrktist því hópurinn.

Við leggjum áherslu á að á hverju námskeiði séu að lágmarki 3 fullorðnir ásamt yngri sjálfboðaliðum. Á hverju námskeiði þarf um og yfir 8 manns og því eru sjálfboðaliðar okkur afar mikilvægir til þess að halda úti starfinu.

Á starfsárinu vorum við með fjögur sjálfboðaliðakvöld. Við lögðum áherslu á að nýta þessi kvöld til þess að þétta hópinn.  Haldin voru Pizzakvöld, pylsupartí og kaffi, þar sem farið var í skemmtilega leiki en um leið var farið yfir hið mikilvæga hlutverk sjálfboðaliða á námskeiðunum. Svo virtist sem allir höfðu gagn og gaman af.

  

Við þökkuðum sjálfboðaliðunum einnig fyrir þeirra frábæra starf með því að leysa þá út með gjöfum.  Sjálfboðaliðar haustannar voru leystir út með jólagjöfum og veitti Rúmfatalagerinn okkur um 50% afslátt af sængurverum.  Sjálfboðaliðar á vorönn fengu m.a. mjög skemmtilega hálsklúta/buff og Zealskin fingravettlinga, en það var veiðivöruverslunin; Flugubúllan í Kópavogi sem veitti okkur 40% afslátt af þeim vörum. 

Kostnaður vegna sjálfboðaliðastarfsins, þ.e. veitingar, kostnaður við leiki og gjafir var greiddur með peningum sem fengust fyrir dósir og flöskur sem Hestamannafélagið hefur gefið Fræðslunefndinni sem styrk á hverju ári.

Gulli í Blíðubakka styrkti starfsemina með því að gefa hey, Byko styrkti einnig starfið með því að gefa spónaballa. Einnig styrkti Helgi í Blíðubakkahúsinu starfið með því að veita okkur skjól í reiðskemmunni í Blíðubakkahúsinu þegar að reiðhöll Harðar var fullbókuð.

 

Rekstur:

 Á árinu fækkuðum við námskeiðsdögum um einn og fjölguðum nemendum í hvern tíma, þannig náðist rekstrarhagræði og námskeiðin urðu einnig líflegri og þjappaði sjálfboðaliðunum meira saman. Söfnun styrkja gekk vel. Auk ofangreindra styrkja, þá sótti  Fræðslunefnd um styrk til Öryrkjabandalags Íslands og fékk 600 þúsund króna styrk frá ÖBÍ, auk þess fengum við 100 þúsund króna styrk frá LH. (Landssambandi Hestamanna)

Kostnaður við undirburð var meiri en áætlað var og óvæntur kostnaður varð af viðgerð á lyftu. Styrkirnir komu sér því afar vel þetta árið.

Þökkum við öllum sem hafa lagt málefninu lið kærlega fyrir og hlökkum til áframhaldandi samstarfs. 

f.h. Fræðslunefndar fatlaðra.

Agla Elísabet Hendriksdóttir

formaður.