Innbrotstrygging - viðbót

 

Áður birtur pistill um bætur úr Heimilis- eða Lausafjártryggingu ef um innbrot er að ræða þarf að uppfæra.

Það er skilyrði í flestum þessara tryggingaskilmála að gluggar séu lokaðir og hespaðir aftur.  Eins og gefur að skilja er erfitt að verða við því. Bæði snýst þetta um loftun, en einnig um ákveðið öryggi ef td til bruna kæmi, eins og dæmi er um.

Við skrifuðum öllum tryggingafélögunum bréf og bað um þeirra afstöðu til málsins.  Fátt hefur verið um svör, en félögin hafa greinilega ekki áttað sig á þessum annmarka við skilmálagerð sína. Á hinn bóginn er skiljanlegt að tryggingafélögin geta ekki tryggt hluti sem nánast liggja á glámbekk og auðvelt er fyrir misyndismenn að nálgast.

Tryggilegast er að hafa hnakkageymsluna, (þar liggja verðmætin) læsta með sérskrá.  Þannig ætti að vera sýnileg merki um innbrot og ef það er gluggi á geymslunni, ætti hann að geta vera lokaður.

Eins og áður sagði bætir Heimilistrygging tjónið amk að hluta, en lausafé (reiðtygi) falla undir trygginguna.  Bæturnar takmarkast þó við 15% af af vátryggingafjárhæðinni.  Ef tjónþoli er með heimilistryggingu að verðmæti 7 milljónir króna, er hámarksfjárhæð bóta 1.050.000 kr.  Lausafjártrygging og með læsta hnakkageymslu er öruggasta leiðin.

Öllum námskeiðum og einkatímum í reiðhölli félagsins frestað um óákveðinn tíma.

Öllum námskeiðum og einkatímum í reiðhölli félagsins frestað um óákveðinn tíma.

 

Í ljósi tilmæla frá sóttvarnarlækni og formanni ÍSÍ, hefur stjórn félagsins tekið ákvörðun um fresta allri skipulagðri starfsemi í reiðhöll félagsins.  Reiðhöllin verður opinn félagsmönnum til æfinga, en gæta skal að fyrirmælum um fjarlægð á milli knapa.  Áhorfendur eru bannaðir og ekki skulu vera fleiri inni í reiðhöllinni en 20 manns í einu.  Séu 20 knapar í höllinni, skulu aðrir bíða fyrir utan höllina, EKKI í fordyri hallarinnar.

Næstu daga munum við vera í sambandi við LH, ÍSÍ og hin hestamannafélögin á Höfuðborgarsvæðinu og samræma aðgerðir.  Það má geta þess að reiðhöllinni á Akureyri hefur verið lokað, en það viljum við forðast í lengstu lög.

Notum skynsemina og vináttuviljann, við viljum hvorki smitast né smita aðra.  Munum að við erum öll almannavarnir.

Stjórnin

Reiðhöll – sóttkví – hvernig skal haga sér í sóttkví

Reiðhöll – sóttkví – hvernig skal haga sér í sóttkví

Það að vera í sóttkví þýðir ekki að þú þurfir að loka þig af svo lengi sem þú ferð að öllu með gát, en ein­stak­lingar í sótt­kví mega ekki fara á manna­mót, lík­ams­rækt­ar­stöðv­ar, sund­laug­ar eða aðra staði þar sem margir koma sam­an og ekki dvelja í sam­eig­in­legum rýmum eða úti­vist­ar­svæð­um.

Hestamenn í sóttkví taka sjálfir ákvörðun um hvort að þeir hirði sín hús (fara á samt alveg eftir reglum landlæknis), en vinsamlega farið EKKI inn í reiðhöll.  Þó svo að smitun þar sé ekki líkleg, skapar það ótta annarra iðkenda.  Einhver hestamannafélög hafa lokað sínum reiðhöllum.  Við viljum ekki fara þá leið, nema nauðsyn beri til.

Hestamenn í sóttkví – Ekki fara í reiðhöllina.

Stjórnin

Tveggja daga námskeið með Hinrik Sigurðssyni reiðkennara fyrir Fræðslunefnd Harðar

9. og 10. apríl næstkomandi (skírdagur og föstudagurinn langi) verður einkatímanámskeið sem Hinrik Sigurðsson reiðkennari mun kenna. Námskeiðið er sett upp sem einkatímar, 30 mínútur hver. Tveir tímar hvor dag og spjall/bókleg í hádeginu fyrri daginn. Fólki er velkomið að (og má gjarnan) fylgjast með öðrum nemendum á námskeiðinu en hafa bara gildandi reglur varðandi umgengni fólks í huga.
Farið verður í það sem hver og einn vill með sinn hest, staðan metin og markmið sett fyrir framhald í þjálfun, hvert svo sem takmarkið er. Námskeiðið er ætlað fullorðnum (ungmenni og unglingar velkomnir ef pláss leyfir - hafið samband þá í This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) og er kennt frá 8 á morgni til 17 síðdegis báða dagana, tímar eru festir fyrirfram.
Námskeiðið kostar 30000 á mann, 8 manns komast að og skráning er í gegnum Sportfeng.

Samkomubann

Í ljósi þess að samkomubann hefur verið sett á næstu 4 vikurnar þá hefur öllum keppnum og sýningum á vegum Harðar verið aflýst næstu 4 vikurnar, þ.m.t. Vetrarmótunum og Hrímnismótaröðinni. 

Stjórnin

Námskeiðshald í Herði

Það hafa borist margar fyrirspurnir hvort námskeiðum í reiðhöllinni verði aflýst vegna samkomubanns. Við höfðum samband við UMFÍ og verða okkar námskeið áfram eins og staðan er i dag. Reiðkennarar voru upplýstir um að ekki mega vera fleiri enn 20 saman í einu og að virða skuli 2 metra millibil milli nemenda og einnig milli kennara/nemanda

COVID-19

Í ljósi þess að almannavarnir hafa lýst yfir hættustigi vegna COVID-19 veirunnar, viljum biðja félagsmenn að sýna þolinmæði, en einnig að taka tillit hvor til annars.  Í reiðhöllinni, hvort sem er á námskeiðum eða í æfingum, að halda ákveðinni fjarlægð á milli manna, að fólk í sóttkví noti ekki reiðhöllina og fer eftir reglum landlæknis og það sama gildir um heimilisfólk þeirra sem eru í einangrun vegna veirusmits.

Með samvinnu komumst við í gegnum þessa erfiðu tíma og gleymum ekki að brosa.

Stjórnin

Samkomubann mótar íþróttastarfið


Landlæknir, sóttvarnarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra telur ekki ráðlagt að gera ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir leik- og grunnskólabörn íþrótta- og ungmennafélaga fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars næstkomandi. Íþróttaiðkun framhaldsskólanema og fullorðinna er talin heimil að uppfylltum ákveðnum og ströngum skilyrðum.

Yfirvöld segja ljóst að að þessi skilyrði munu því miður útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina.

UMFÍ og ÍSÍ hafa átt í samskiptum við almannavarnir um helgina í tengslum við samkomubann sem sett verður á Íslandi í kvöld og varir næstu fjórar vikur til að fá svör við því hvort æfingar barna og yngri flokka megi fara fram.
 
UMFÍ mælist til þess að sambandsaðilar UMFÍ og aðildarfélög fari að öllum tilmælum yfirvalda og leggi iðkendur ekki í hættu á að smitast af COVID-19 veirunni. Iðkendur eigi fremur að njóta vafans og því er mikilvægt að félög fylgi þeim fyrirmælum sem berast frá yfirvöldum. 


Íþróttaiðkun gegn ströngum skilyrðum
Yfirvöld telja íþróttaiðkun fullorðinna heimila að uppfylltum skilyrðum samkvæmt því sem fram kemur í auglýsingu um samkomubann og birt var fyrir helgi þess efnis að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar inn í sama rými, hvort sem um er að ræða innan- eða utandyra. Þá skuli sjá til þess, eftir því sem unnt er, að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga, gera ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa búnað eða æfingasvæði daglega og tryggja aðgengi að hreinlætisaðstöðu til handþvotta og sótthreinsunar.

Íþrótta- og ungmennafélög eru hvött til að koma því á framfæri við iðkendur og félagsmenn hvað af íþróttastarfsemi þeirra þau telja að geti farið fram að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram hafa komið. Rétt er að ítreka að það á ekki að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem yfirvöld hafa sett fram til að sporna við útbreiðslu þessarar veiru.