Að loknu Íslandsmóti

Kæru félagar,

Formaður og aðalstjórn félagsins vill þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd nýafstaðins Íslandsmóts fyrir frábæra frammistöðu. Mótið var til fyrirmyndar og félagi okkar til mikils sóma.

Með kveðju,

Stjórnin

Reiðhöllin

staalhaller1

Þá er runninn upp sá langþráði viðburður að fyrstu gámarnir með reiðhöllinni eru komnir á staðinn. Um er að ræða stálgrind hússins sem verður reyst nú á næstu vikum.

Bikarkeppni hestamannafélagana

Lokakeppni í Bikarkeppni hestamannafélagana á höfuðborgarsvæðinu verður í reiðhöllinni í Víðidal föstudaginn 13.mars.  Harðarfélögum hefur gengið vel í keppninni og hvetum við alla félagsmenn til að mæta og hvetja okkar fólk.  Til að allir félagsmenn hafi aðgang að því að mæta höfum við ákveðið að standa fyrir rútuferð fram og til baka frá Harðarbóli.  Lagt verður af stað kl. 19.30 og komið til baka um 22.30.

Stjórnin

PS. mætum með potta og sleifar og látum heyra í okkur til stuðnings okkar fólki.

Ís í Köldukvísl

Reiðmenn eru beðnir að hafa varann á þegar riðið er nærri Köldukvísl þegar fer að þiðna á morgun og um helgina.  Það er mikill ís í ánni og viðbúið að hún flæði yfir bakkana við hesthúsahverfið þegar þiðnar. Þá er hætt við rofi í reiðveginn sem getur verið varasamt þegar fer að skyggja. Áhaldahúsið sér síðan um viðgerðir á reiðveginum þegar um hægist í rennslinu.

Sprengingar við Vesturlandsveg

Frá og með miðvikudeginum 28.jan 2009 verður unnið við sprengingar vegna vinnu við mislæg gatnamót við Leirvogstungu og Tungumela.  Ætla má að sprengivinnan taki 3 – 4 mánuði. Þegar sprengt er, verður það milli kl 10 og 16.  Fyrir sprengingar verða gefin hljóðmerki og aftur að sprengingu lokinni.  Hljóðmerkjum verður þannig háttað að 30 sek fyrir sprengingu verður gefið slitrótt hljóðmerki.  Að lokinni sprengingu verður gefið samfellt hljóðmerki í 30 sek.  Fyrir sprengingar verður umferð í námunda við vinnusvæðið lokað.  Það verður gert með því að loka umferð á Hringveginum, á tengivegi úr Leirvogstungu að núverandi hringtorgi og á Fossavegi.
Titrings kann að verða vart vegna sprenginganna í næsta nágrenni.  Ef þú hefur einhverjar ábendingar vinsamlegast hafðu samband við öryggisstjóra verksins, Trausta Bjarnason, sem jafnfram er verkstjóri jarðvinnu í síma 840 7581. 
Nokkuð var sprengt í Leirvogstungu í fyrra og að því best er vitað olli það ekki truflun meðal hestamanna, þessar sprengingar eru talsvert fjær, austan Vesturlandsvegar. Þó er rétt að tilkynna það hér með. Ónæði gæti einna helst verið á reiðveginum frá brúnni yfir Leirvogsá, upp að gömlu brú og því er gott að hafa hljóðmerki sem hér er að framan nefnt í huga, þegar riði er þá leið.

 

 Með fyrir fram þökkum og von um gott samstarf. Bjarni Guðmundsson

Reiðhallarsamningar frágengnir

Jæja, ágætu félagar.

Þá er loksins hægt að segja frá því að allir samningar um byggingu reiðhallarinnar fram að reystu húsi eru frá gengnir. Eins og flestir vita þá var stefnt að því að byggja límtréshús, en þetta ótrúlega umhverfi sem við lifum í þessa dagana varð til þess að þegar til átti að taka þá dugði það fjármagn sem við höfum til umráða ekki til. Ástæðan var sú að verktakinn sem reynt var að semja við vildi fá upphæðina í takt við byggingavísitöluna sem þýddi hækkun um á annan tug milljóna bara vegna þess.  Í framhaldi af því var gengið til samninga við Hýsi ehf sem er fyrirtæki hér í Mosfellbænum, en þeir gerðu okkur tilboð sem ekki var hægt að hafna í stálgrindarhús. Verðið var mjög lágt, útborgun nánast engin og restin greidd í einu lagi eftir að húsið er risið.  Engar verðbætur, engir vextir og upphæðin tryggð í Íslenskum Krónum í gegnum Landsbankann og því ekki háð gengissveiflum. Í framhaldi af þessu var svo skrifað undir fjármögnunarpakka hjá Glitni sem tryggir fjárstreymi til framkvæmdanna eftir þörfum.  Samningurinn gerir ráð fyrir að verktakinn skili höllinni þann 1.júní 2009.

Þó þetta sé í höfn þá verður ýmislegt ógert þegar höllin er risin og viljum við biðla til félagsmanna að koma með okkur og taka til hendinni þegar að því kemur.

Með kveðju, Byggingarnefnd og Stjórn Harðar

Nýarskveðjur - Gamlársdagsreið

Kæru félagar,

Stjórn félagsins óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári.

Hin árlega Gamlársdagsreið til félaga okkar í Varmadal fellur niður í ár vegna salmonellu sýkingarinnar.  Við hugleiddum hvort við ættum að setja saman aðra reið, Blikastaðaneshring eða annað, en féllum frá því að vel hugsuðu máli.  Bæði þykir okkur ekki rétt að félagið stuðli að því að safna saman mörgum hestum úr mörgum hesthúsum þó dýralæknar segi smithættuna ekki mikla, auk þess að margir félagar okkar hafa mist hesta eftir margra daga baráttu og því finst  okkur ekki viðeigandi að efna til fagnaðar svo stuttu eftir þessa dapurlegu atburðarrás.  Hugur okkar er hjá þeim sem hafa misst hesta og von okkar hjá þeim sem enn eiga smitaða hesta á lífi.

Bestu kveðjur, Stjórnin

Salmonellu sýkingin

Enn hafa fleiri hross drepist og er búist við að enn muni 3 til 4 hross fara. Þau hross sem eftir eru, um 15 talsins eru taldir hafa góðar batalíkur.  Stefnt er að því að flytja þau hross sem enn eru á lífi burt úr hesthúsahverfinu á þriðjudaginn kemur.  Ég óskaði eftir því að því verði hraðað enn meir, en litlar líkur eru til þess að svo verði.  Héraðsdýralæknir er í samráði við tæknideild Mosfellsbæjar að semja við verktaka um jarðvegsskipti í gerðum, förgun á skít og sótthreinsun húsa og umhverfis. Salmonella getur lifað í nokkur ár íjarðvegi og skít og mér skilst að þessi tegund sé sérlega skæð bæði hestum og mönnum.  Það er því brínt að allir fari eftir fyrirmælum dýralækna um þrifnað og sóttvarnir.  Þó salmonellan sé smitandi ber þó að hafa í huga að hún smitast aðeins um munn.  Þannig hafa heilbrigðir hestar sem staðið hafa í stíum við hlið sýktra hesta ekki smitast. Það er mjög áríðandi að ástandið komist sem fyrst í eðlilegt horf.  Víð bíðum eftir áliti Héraðsdýralæknis um það hvenær óhætt er að taka hesta á hús með tryggum hætti, en ég vona að það verði fyrir gamlárskvöld þar sem margir eru með hesta í girðingum nálægt bænum og geta þeir fælst illilega við flugeldana.

Kveðja, Guðjón