Ný stjórn kjörin á Aðalfundi Harðar

Aðalfundur Harðar var haldinn í Harðarbóli fimmtudaginn 25.nóv. sl.  Guðjón Magnússon var endurkjörinn formaður.  Guðný Ívarsdóttir, Gyða Á. Helgadóttir og Sigurður Teitsson sitja áfram í stjórn, enda kosin til tveggja ára í fyrra.  Nýir menn í aðalstjórn voru kosnir: Hörður Bender, Sigurður Guðmundsson og Sigurður Ólafsson.  Úr aðalstjórn gengu Guðmundur Björgvinsson, Ingimundur Magnússon og Ragnhildur Traustadóttir, en þau voru öll kosin og tóku sæti í varastjórn. Þetta er allt saman sami hópurinn og sátu í aðal- og varastjórn, nema hvað Þórir Örn Grétarson vék sæti fyrir Herði Bender.  Tilfæringarnar milli aðal- og varastjórnar eru gerðar þar sem lög félagsins gera ráð fyrir því að 3 menn víki úr aðalstjórn ár hvert.  Í reynd skiptir þetta ekki máli þar sem bæði aðal og varastjórn sitja alla stjórnarfundi og hefur sá háttur verið hafður á í fjölda ára.

Við bjóðum nýja stjórn velkomna til starfa.

Hestar í skjól fyrir jól

Verkefnið Hestar í skjól fyrir jól gengur eftir áætlun.  Búið er að hreinsa  og fjarlægja rústirnar og loka gaflinum til bráðabirgða. Söfnunarreikningur hefur verið stofnaður, búið er að ná mjög góðum samningi við Byko, en Gunni Vals, sá sami og bjargaði hestunum úr brennandi húsinu, hafði milligöngu með það og byggingafulltrúinn er búinn að gefa grænt ljós á að byrja uppbyggingu.  Vikan hefur farið í það að undirbúa uppbygginguna, kaupa efni o.fl.

Og þá er komið að okkur Harðarmönnum

Allir sem vettlingi geta valdið eru beðnir að mæta í Harðarból kl. 9.30 á næsta laugadag. Þar verður boðið upp á morgunkaffi og dagurinn skipulagður. Að því loknu verða brettar upp ermar og byrjað að byggja.  Við viljum að sem allra flestir mæti þennan fyrsta dag, helst allt of margir, þannig að stjórnendur sjái allan hópinn og geti skipulagt vinnuna í framhaldinu.  Meiningin er að taka þetta með áhlaupi eins og alþekkt er hjá Amish fólkinu, en það byggir hlöðu á einum degi.  Ég veit við klárum þetta ekki á laugardaginn svo farið verður yfir stöðuna í lok dags og ákveðið hverjir geta mætt á sunnudaginn og næstu helgar og daga.

Það er spáð ágætis veðri, en verið samt vel klædd og þeir sem eiga verkfæri takið þau með.

Aðstoð við þá sem lentu í brunanum

Rústirnar eftir brunannÁ stjórnarfundi þann 13.nóv. var ákveðið að félagið aðstoðaði þá hesthúseigendur sem lentu í þeirri skelfingu að hesthúsin þeirra brunnu.  Húsin voru öll með lágt brunabótamat, eins og önnur hús á svæðinu (nokkuð sem við þurfum að skoða). Ástæðan fyrir því að við viljum aðstoða er sú að öll finnum við fyrir samkennd með þeim sem í þessu lentu og viljum hjálpa, en einnig viljum við stuðla að því að uppbyggingin fari strax af stað og verði lokið sem fyrst, að stefnt verði að því að hestar verði komnir í hús fyri jól. Aðstoðin verður þó háð nokkrum megin reglum, þar sem um hús í einkaeign er að ræða,  og er fyrirfram skilgreind þannig að hún taki ekki frá félaginu sem slíku. Aðstoð Harðar verður í megindráttum þessi:


Nánar...

Í skjól fyrir jól

Bruninn 11.nóv 2010Hestar í skjól fyrir jól er verkefni sem hefur verið ýtt af stað til að styðja við eigendur hesthúsanna sem urðu eldi að bráð síðastliðið fimmtudagskvöld. Búið er að stofna facebook-síðu um verkefnið en á henni má lesa framvindu uppbyggingastarfsins og helstu upplýsingar. Smellið á myndina hér til vinstri eða á myndina fyrir ofan aðalvalmyndina.

Óskað er eftir sjálfboðaliðum í verkefnið. Margar hendur vinna létt verk en skipulag er mikilvægt til þess að kraftar okkar nýtist sem best. Áhugsömum sjálfboðaliðum er bent á að hafa samband við Sæmund í síma 699-7747 eða á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..  Gott er að á tölvupósti komi fram: Hvenær þið getið lagt lið og hve lengi, eins er ágætt að tilgreina hvað þið treystið ykkur til að gera því verkefnin sem framundan eru eru margvísleg.

Búið er að stofna söfnunarreikning í Íslandsbanka, fyrir þá sem vilja styrkja uppbyggingarstarfið með fjárframlögum. Söfnunarreikningurinn er á kennitölu Sæmundar Eiríkssonar en talsverðan tíma tekur að fá nýja kennitölu og verður þessi háttur hafður á. Sæmundur mun halda utan um þennan lið eins og fleiri liði í uppbyggingarstarfinu :)

Söfnunarreikningur er í Íslandsbanka Mosfellsbæ:549-15-124929 kt:261249-2949

Um helgina hófst hreinsunarstarf, og ætlunin er að nota vikuna í efnisöflun og forvinnu áður en uppbygging hesthúsanna getur hafist.

Eldsvoði í hesthúsahverfinu

Það varð eldsvoði í hesthúsahverfinu í nótt og brann hálf hesthúsalengja.  Hetja dagsins er Gunni Vals, en honum tókst með snarræði og sinni alkunnu ósérhlífni að bjarga þeim hestum sem í húsinu voru með hjálp tveggja lögreglumanna, en hestar eru mjög viðkvæmir fyrir reyk og er þess skemmst að minnast þegar hestar dóu í öðrum bruna hér fyrir um 10 árum síðan.  Fjöldi Harðarmanna dreif að þegar fréttist af brunanum og hjálpuðust að við að rýma nærliggjandi hesthús sem reykjarmökkinn lagði yfir. Hestunum var komið fyrir í hesthúsum neðar í hverfinu.Þó mikil mildi sé að allir hestar og menn slyppu frá þessu lifandi má þó ekki vanmeta þau áhrif sem svona atburður hefur á eigendur hesthúsanna. 

Það er ömurlegt að horfa upp á jafn persónulega eign og hesthús er fuðra upp í eldi og þó að hægt sé að bæta eitthvað með nýju húsi þá hafa einnig glatast persónulegir munir sem aldrei verða bættir.Hugur okkar Harðarmanna er hjá þeim sem í þessu lentu, en þeir eru gamalkunnir Harðarfélagar og hluti af aðalstoðum félagsins.  Samstaða okkar Harðarmanna er löngu orðin landsþekkt,  við þjöppum okkur saman þegar á móti blæs og ég veit að við munum koma að þeirri uppbyggingu sem framundan er sem einn maður. 

Við vitum ekki enn hvernig kraftar hvers og eins nýtast best, en þegar við erum búin að ná áttum og vitum hvað þarf til, til að koma hestum í þessi hús fyrir jól,  þá munum við hvert og eitt leggja okkar af mörkum til að það megi takast.

Kveðja, Guðjón formaður

Formannafundur hjá LH

Kæru félagar

Í gær var haldinn formannafundur allra hestamannafélaga landsins hjá LH.  Markmið fundarins var að kortleggja hvernig staðan á hestapestinni er á landsmælihvarða með tilliti til þess hvort, og þá með hvaða hætti ætti að halda landsmót í ár.  Niðurstaðan virðist vera að pestin er útbreydd um nánast allt land.  Þau fáu svæði sem ekki voru sýkt eru að byrja ferlið núna.  Lögð voru fram gögn sem sýndu að ferli pestarinnar er frá 7 til 10 vikur.  Það ber þó að taka með varúð þar sem rétt liðlega 10 vikur eru liðnar frá því að veikin greindist og því getur enginn í reynd vitað hvernig framhaldið verður.

Í lok fundarins voru lagðar fram tvær ályktanir sem báðar voru samþykktar einróma.  Fyrri ályktunin gekk út á að að LH hefði velferð hestsins í fyrsta sæti þegar ákvörðun um landsmót væri endanlega tekin, hin var áskorun til yfirvalda um að þau beittu sér fyrir því að komast að þvi hvernig þetta smit hefði borist til landsins og að framkvæmd sóttvarna verði stórbætt.

Ákvörðun um það hvort landsmót verði haldið í ár verður tekin á mánudaginn. Miðað við þær upplýsingar sem komu fram á fundinum þá er ég á þeirri skoðun, þó hart sé, að ekki sé verjandi að halda landsmóti í ár.

Kveðja, Guðjón

Hestapestin nýjustu upplýsingar

  Nú má lesa nýjustu fréttir og leiðbeiningar um hrossapestina á vefnum  www.mast.is  Þar kemur fram að pestin stafar af bakteríusýkingu (Streptococcus Zooepidemicus)  Þarna er einnig að finna leiðbeiningar um sóttvarnir, en ljóst er að þessi sýking er sennilega komin til að vera í íslenska hrossastofninum og er óttast að nýr faraldur breiðist út í haust eða þegar tekið verður inn.  Ráðleggingar um sóttvarnir eru eflaust ágætar, en ekki get ég séð hvernig á að útfæra þær í praksís.  Það er til dæmis lagt til að veik hross séu hýst í öðrum húsum en frísk, en við eigum jú flest aðeins eitt hesthús og þá er spurningin, þarf að byggja sjúkrahús???  Aðrar ráðleggingar eru raunhæfari, td. að moka út úr húsum og sótthreinsa þau vel áður en tekið er inn í vetur.  Það er tiltölulega einföld aðgerð að sótthreinsa með venjulegum úðabrúsa og sótthreinsidufti sem blandað er í vatn.  Stjórn Harðar mun funda um málið á næstunni og koma með tillögur og tilmæli í framhaldi af því.

Kveðja, Guðjón formaður

 

 

 

Kynjareið - rútuferð

Þar sem aðstæður eru þannig þessa dagana að ekki eru allir ríðandi höfum við ákveðið að bjóða félagsmönnum upp rútuferð í grillið( og til baka ).  Við vonum að sem flestir mæti og láti ekki leiðindi pestarinnar hafa áhrif á félagsandann.  Lagt verður af stað frá naflanum kl. 14.30 eða rétt á eftir þeim sem fara ríðandi.  Rútuferðin kostar ekkert aukalega fyrir félagsmenn.

Hestum sleppt, farið varlega

Nú fer að líða að því að hestum verður sleppt og eins og áður hefur komið fram þá höfum við fengið leifi bæjaryfirvalda til að sleppa fyrr í ár.  Það er þó varasamt að "henda hestum út" eftirlitslaust sem hafa verið veikir. Dæmi eru um það að hestum sem hefur verið sleppt þegar kalt hefur verið í veðri, hafi slegið heiftarlega niður og hefur þurft að taka þá inn aftur og setja í hendur dýralæknum.

Fylgist því vel með hestunum eftir að þeim hefur verið sleppt, breiðið yfir þá eða takið aftur á hús ef mikil vosbúð er eða ef merki sjást um veikindi.

Sleppingum flýtt

Kæru félgar,

Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í hesthúsahverfinu hefur okkur tekist að fá leifi bæjaryfirvalda til að sleppa fyrr á stykkin í ár.  Það er þó háð því skilyrði að beitarstykkin séu tilbúin til beitar.  Það verður metið af beitarnefnd og bæjarstarfsmönnum í sameiningu stykki fyrir stykki.  Stefnt er að því að byrja að sleppa um mánaðarmótin, eða hálfum mánuði fyrr en venjulega.  Vinsamlegast fylgist með frekari tímasetningum á netinu eða snúið ykkur til beitarnefndar varðandi ykkar tiltekna stykki.

Kveðja Guðjón