Nú er Landsmót 2018 í Víðidal í fullum gangi og forkeppni í gæðingagreinum lokið.
Gaman hefur verið að fylgjast með þessum fyrstu dögum mótsins en sýningarnar hafa verið skemmtilegar og hestakosturinn frábær.
Í gær fór fram milliriðill í barnaflokki og vorum við þar með tvo fulltrúa fyrir Hörð. Þeir gerðu sér lítið fyrir og náðu sér sæti í A- og B- úrslitum. Oddur Carl Arason og Hrafnagaldur frá Hvítárholti tryggðu sér 3. sæti inn í A-úrslit með 8,58 og þau Egill Ari Rúnarsson og Fjóla frá Árbæ tryggðu sér sæti í B-úrslitum með 8,48. Þvílíkt glæsilegar sýningar hjá þeim og við Harðarfélagar getum verið mjög stolt af þessum ungu og efnilegu knöpum okkar.
Í dag er svo milliriðlar í Unglingaflokki en þar keppa þrjú pör fyrir hönd Harðar. Það eru þau Sigrún Högna Tómasdóttir og Taktur frá Torfunesi, Benedikt Ólafsson og Biskup frá Ólafshaga og Rakel Ösp Gylfadóttir og Óskadís frá Hrísdal. Einnig fer fram milliriðill í B-Flokk í dag enn við erum ekki með fulltrúa þar að þessu sinni.
Á morgun fara fram milliriðlar í Ungmennaflokk og erum við þar með tvo fulltrúa fyrir Hörð. Það eru þau Erna Jökulsdóttir og Tinni frá Laugabóli og Thelma Dögg Tómasdóttir og Marta frá Húsavík.
Reynir Örn Pálmason og Laxnes frá Lambanesi riðu sig svo glæsilega upp í milliriðlana A-Flokks sem fara fram eftir hádegi á morgun.
Fyrstu tveir sprettir í 250m og 150m skeiðinu kláraðust í gærkvöldi en þar tók þátt Harðarmaðurinn Reynir Örn með hestinm Skemil frá Dalvík í 150m skeiði. Skemill lá báða sprettina en betri tími hans var 14.44 sek. Sprettir þrjú og fjögur verða svo á föstudaginn kl 16:15.
Við erum rosalega stolt af öllum knöpum og hestum sem voru fyrir okkar hönd á Landsmót þetta árið. Vel búnir hestar og flott reiðmennska einkenndi sýningarnar og þið getið öll verið ánægð með ykkar frammistöðu!
Við óskum okkar fólki sem komst áfram góðs gengis, við munum fylgjast spennt með ykkur!