Sjálfvirkur gjafabúnaður!

Vélsmiðja Ólafsfjarðar hefur verið að þróa nýjan sjálfvirkan gjafabúnað (stalla) fyrir hesthús. Þessi búnaður sér um að gefa aðra gjöfina hvort heldur er morgun eða kvöldgjöf. Þessir stallar eru riðfríir og taka ekki meira pláss heldur en venjulegir stallar. Við höfum einnig verið að smíða stíur úr riðfríu og galvanseruðu stáli. Það má sjá há-upplausna myndir á slóðinni: http://frontpage.simnet.is/velo/stallar.htm

Kæru Harðarfélagar

Nú er komið að því að mála félagsheimilið okkar, Harðarból, að innan og gera það glansandi fínt. Okkur vantar því fólk á pensla og rúllur á laugardaginn 5. mars. Veitingar í boði félagsins. Þeir sem sjá sér fært að mæta og mála hringið, fyrir laugardag, í Kolbrúnu í síma 6995178

Nýjar reglur um hjálmanotkun

Við vekjum athygli á nýjum reglum um hjálmanotkun á mótum en þær ganga út á það að hjálmurinn verður að vera af viðurkendri gerð, þ.e. merktur með CE 1384. Innan í hjálminum er einnig skráð hvaða ár á að hætta að nota hjálminn. Allir aðrir hjálmar eru ólöglegir á mótum samkvæmt FIBO reglum sem við Íslendingar höfum nú tekið upp.

Krakkar í barnaflokki !!!

Verðlaun verða veitt þeim sem mætir á árshátíðarmótið á snyrtilegasta og best hirta hestinum í barnaflokk. Þessi viðurkenning verður veitt í barnaflokki á hverju móti fram á vor, þannig að nú er að taka fram kambinn og kemba.

Tilkynning frá stjórninni

Að gefnu tilefni lýsir stjórn Hestamannafélagsins Harðar yfir fullum stuðningi við störf barna og æskulýðsnefndar félagsins, hinsvegar harmar stjórnin að ekki skuli hafa verið nákvæmar verklagsreglur til leiðbeiningar um val á knapa ársins og efnilegasta knapa í hverjum flokki. Að ofansögðu mun stjórn Harðar beita sér fyrir að nýjar verklagsreglur verði tilbúnar til samþykktar fyrir næsta aðalfund.

Efnilegasti knapi Harðar árið 2005

Ákveðið hefur verið að efnilegasti knapi Harðar í ungmenna- unglinga- og barnaflokki árið 2005 verði sá knapi sem hlítur flest stig á innanfélagsmótum Harðar á árinu. Knapi getur aðeins hlotið þessa viðurkenningu einu sinni.