Íþróttamaður og íþróttakona Mosfellsbæjar

Við eigum að tilnefna einstaklinga til íþróttamanns og íþróttakonu Mosfellsbæjar árið 2010.  Hörður hefur unnið þennan titil í tvö skipti á síðastliðnum 4 árum, Lindu Rún Pétursdóttur í fyrra og Halldór Guðjónsson fyrir þrem árum síðan.  Það er á ábyrgð formanns félagsins að tilnefna þessa aðila og óska ég hér með eftir ábendingum og upplýsingum um móta og keppnisárangur þeirra sem þið teljið að komi til greina á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir 30. janúar.  Aðilar þurfa að hafa skarað fram úr í íþróttinni á einhvern hátt.

Kveðja Guðjón formaður

 

 

Líkamsrækt fyrir Harðarfélaga

Öllum Harðarfélögum býðst nú að koma og æfa Hjá Eldingu, líkamsræktarstöð þeirra Hjalta og Höllu í íþróttahúsinu á sérstöku samningsverði eða 18.000.- kr. á ári.  Nú er engin afsökun lengur, því einfaldara getur þetta ekki verið.  Bara mæta, borga þetta tombólugjald og byrja að æfa.  Við Anna höfum æft þarna í nokkur ár og mælum með aðstöðunni, þetta er heimilisleg stöð, án nokurra fordóma eða tilgerðar þar sem hver púlar á sinn hátt.  Hér æfa einnig aðrir Harðarfélagar nú þegar svo þið verðið ekki eina hestafólkið á staðnum. 

Kveðja Guðjón

Hestadagar í Reykjavík

Áætlað er að Hestadagar í Reykjavík verði haldnir daganna 31. mars til 2. apríl 2011. Þetta er í fyrsta skiptið sem þessir dagar eru haldnir og er hér um að ræða spennandi tímamóta verkefni í samstarfi Reykjavíkur og hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu.  Hörður tekur þátt í þessu ásamt öðrum hestamannafélögum á höfuðborgarsvæðinu.  Í fyrstu koma Gyða Á. Helgadóttir og Reynir Örn Pálmason að þessu með mér, en þegar nær dregur þurfa nær allar nefndir félagsins að koma að málinu.

Uppsetning viðburðar er hugsaður á þessa leið

Á mánudegi til fimmtudags eru hestamannafélögin ásamt ræktunarbúum í kringum höfuðborgina með opin hús og litla viðburði sem auglýstir eru á vefsíðu Hestadaga í Reykjavík. Helgina á undan er Orrasýning sem án efa mun draga til sín töluvert af erlendum ferðamönnum enda stóðhesturinn Orri frá Þúfu goðsögn í huga flestra þeirra sem stunda íslandhestamennsku en það eru ca 130.000 manns í heiminum. Spurning hvort að markaðssetning á báðum viðburðum myndi fá fólk til þess að dvelja lengur á Íslandi?

Á föstudeginum 1. apríl er stórsýning í Laugardalshöll þar sem ljós, tónlist og samspil manna og hesta eru í fyrirrúmi.

Nánar...

Léttleiki og frelsi

Við minnum á námskeiðið Léttleiki og frelsi sem Súsanna Ólafsdóttir verður með í Harðarbóli á laugardaginn.  Hér er um tímamótanámskeið að ræða sem tekur á málum sem hafa orðið útundan í íþróttinni okkar fram að þessu.  Við Harðarfélagar erum stollt af þessu framtaki og hvetjum alla til að mæta.  Námskeiðið hefst kl. 9.30 á laugardagsmorgun og verður fram eftir degi.  Þáttökugjald er 2000.- kr, en innifalið í því er hádegismatur og kaffi.  Þess ber einnig að geta að Súsanna er sannur Harðarfélagi og ætlar að láta allan ágóða af námskeiðinu renna í nýstofnaðan stækkunarsjóð Harðarbóls, en eins og kom fram á aðalfundi félagsins stefnum við að því að stækka Harðarból úr 80 manna sal í 150 manna sal.

Hestar í skjól fyrir jól

Verkefnið Hestar í skjól fyrir jól gengur eftir áætlun.  Búið er að hreinsa  og fjarlægja rústirnar og loka gaflinum til bráðabirgða. Söfnunarreikningur hefur verið stofnaður, búið er að ná mjög góðum samningi við Byko, en Gunni Vals, sá sami og bjargaði hestunum úr brennandi húsinu, hafði milligöngu með það og byggingafulltrúinn er búinn að gefa grænt ljós á að byrja uppbyggingu.  Vikan hefur farið í það að undirbúa uppbygginguna, kaupa efni o.fl.

Og þá er komið að okkur Harðarmönnum

Allir sem vettlingi geta valdið eru beðnir að mæta í Harðarból kl. 9.30 á næsta laugadag. Þar verður boðið upp á morgunkaffi og dagurinn skipulagður. Að því loknu verða brettar upp ermar og byrjað að byggja.  Við viljum að sem allra flestir mæti þennan fyrsta dag, helst allt of margir, þannig að stjórnendur sjái allan hópinn og geti skipulagt vinnuna í framhaldinu.  Meiningin er að taka þetta með áhlaupi eins og alþekkt er hjá Amish fólkinu, en það byggir hlöðu á einum degi.  Ég veit við klárum þetta ekki á laugardaginn svo farið verður yfir stöðuna í lok dags og ákveðið hverjir geta mætt á sunnudaginn og næstu helgar og daga.

Það er spáð ágætis veðri, en verið samt vel klædd og þeir sem eiga verkfæri takið þau með.

Aðstoð við þá sem lentu í brunanum

Rústirnar eftir brunannÁ stjórnarfundi þann 13.nóv. var ákveðið að félagið aðstoðaði þá hesthúseigendur sem lentu í þeirri skelfingu að hesthúsin þeirra brunnu.  Húsin voru öll með lágt brunabótamat, eins og önnur hús á svæðinu (nokkuð sem við þurfum að skoða). Ástæðan fyrir því að við viljum aðstoða er sú að öll finnum við fyrir samkennd með þeim sem í þessu lentu og viljum hjálpa, en einnig viljum við stuðla að því að uppbyggingin fari strax af stað og verði lokið sem fyrst, að stefnt verði að því að hestar verði komnir í hús fyri jól. Aðstoðin verður þó háð nokkrum megin reglum, þar sem um hús í einkaeign er að ræða,  og er fyrirfram skilgreind þannig að hún taki ekki frá félaginu sem slíku. Aðstoð Harðar verður í megindráttum þessi:


Nánar...

Ný stjórn kjörin á Aðalfundi Harðar

Aðalfundur Harðar var haldinn í Harðarbóli fimmtudaginn 25.nóv. sl.  Guðjón Magnússon var endurkjörinn formaður.  Guðný Ívarsdóttir, Gyða Á. Helgadóttir og Sigurður Teitsson sitja áfram í stjórn, enda kosin til tveggja ára í fyrra.  Nýir menn í aðalstjórn voru kosnir: Hörður Bender, Sigurður Guðmundsson og Sigurður Ólafsson.  Úr aðalstjórn gengu Guðmundur Björgvinsson, Ingimundur Magnússon og Ragnhildur Traustadóttir, en þau voru öll kosin og tóku sæti í varastjórn. Þetta er allt saman sami hópurinn og sátu í aðal- og varastjórn, nema hvað Þórir Örn Grétarson vék sæti fyrir Herði Bender.  Tilfæringarnar milli aðal- og varastjórnar eru gerðar þar sem lög félagsins gera ráð fyrir því að 3 menn víki úr aðalstjórn ár hvert.  Í reynd skiptir þetta ekki máli þar sem bæði aðal og varastjórn sitja alla stjórnarfundi og hefur sá háttur verið hafður á í fjölda ára.

Við bjóðum nýja stjórn velkomna til starfa.

Í skjól fyrir jól

Bruninn 11.nóv 2010Hestar í skjól fyrir jól er verkefni sem hefur verið ýtt af stað til að styðja við eigendur hesthúsanna sem urðu eldi að bráð síðastliðið fimmtudagskvöld. Búið er að stofna facebook-síðu um verkefnið en á henni má lesa framvindu uppbyggingastarfsins og helstu upplýsingar. Smellið á myndina hér til vinstri eða á myndina fyrir ofan aðalvalmyndina.

Óskað er eftir sjálfboðaliðum í verkefnið. Margar hendur vinna létt verk en skipulag er mikilvægt til þess að kraftar okkar nýtist sem best. Áhugsömum sjálfboðaliðum er bent á að hafa samband við Sæmund í síma 699-7747 eða á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..  Gott er að á tölvupósti komi fram: Hvenær þið getið lagt lið og hve lengi, eins er ágætt að tilgreina hvað þið treystið ykkur til að gera því verkefnin sem framundan eru eru margvísleg.

Búið er að stofna söfnunarreikning í Íslandsbanka, fyrir þá sem vilja styrkja uppbyggingarstarfið með fjárframlögum. Söfnunarreikningurinn er á kennitölu Sæmundar Eiríkssonar en talsverðan tíma tekur að fá nýja kennitölu og verður þessi háttur hafður á. Sæmundur mun halda utan um þennan lið eins og fleiri liði í uppbyggingarstarfinu :)

Söfnunarreikningur er í Íslandsbanka Mosfellsbæ:549-15-124929 kt:261249-2949

Um helgina hófst hreinsunarstarf, og ætlunin er að nota vikuna í efnisöflun og forvinnu áður en uppbygging hesthúsanna getur hafist.