Reiðhöllin mikið kennsluálag

Gríðarlegt álag er nú á reiðhöllinni vegna mikillar kennslu og fjölgugnar námskeiða, bæði hjá börnum og fullorðnum.  Þrátt fyrir það höfum við lagt áherslu á að helmingur reiðhallarinnar sé alltaf laus fyrir þá sem vilja mæta og vinna með sinn hest einir.  Þetta hefur kallað á mikla og erfiða samræmingu hjá þeim sem standa fyrir námskeiðahaldi á vegum félagsins, eða æskulýðsnefnd, fræðslunefnd og fræðslunefnd fatlaðra.  þegar loksins var búið að koma dagskránni nokkurn vegin saman var einn kennslutími óleystur.  Það var því ákveðið að brjóta megin regluna og setja tímann í fremri hluta reiðhallarinnar á miðvikudögum frá kl. 16.00 til 17.00. og þar með loka á aðra notkun þennan klukkutíma í viku.  Ég veit að það er fullur skilningur á þessu hjá ykkur kæru félagsmenn, en  það fórst fyrir að auglýsa þetta og kynna sem leiddi til leiðindar uppákomu í reiðhöllinni þegar reiðkennari þurfti að vísa félagsmönnum frá á þessum tíma.  Ég bið hlutaðeigandi afsökunar á þessari yfirsjón sem ég tek að fullu á mig og vona að allir geti notið reiðhallarinnar sem mest, en þenna klukkutíma í viku þurfum við að víkja fyrir æskulýðsstarfinu á meðan þetta tiltekna námskeið er í gangi.

Guðjón formaður

Smalamót Harðar

Laugardaginn  5. Febrúar kl. 13.00 verður smalamót Harðar haldið í Harðarreiðhöllinni.  Þetta verður stórhátíð, enda mótið einstaklega skemmtilegt og áhorfendavænt.  Í stuttu máli fer það þannig fram að sett verður upp þrautabraut í reiðhöllinni og sá sem ríður hana hraðast vinnur.  Refsistig eru gefin ef hlutar brautarinnar eru felldir.  Þetta er góðgerðarmót og rennur öll innkoman til krabbameinssjúkra barna.  Það eru þær Súsanna Katarína og Harpa Sigríður sem eiga hugmyndina að mótinu, stilla því upp og smíða verðlaunagripi.  Öll vinna við mótið verður í sjálfboðavinnu.  Við kvetjum alla Mosfellinga til að mæta í reiðhöllina þennan dag,  horfa á frábæra skemmtun og styrkja gott málefni.

Skiptinemar til Íslands á vegum AFS

AFS skiptinema samtökin höfðu samband og báðu okkur að kynna starfsemina þar sem óvenju margir erlendir krakkar hafa óskað eftir að komast á heimili hjá hestafjölskyldum.  

Opnaðu heimili þitt og taktu á móti skiptinema AFS!

AFS eru alþjóðleg fræðslusamtök sem starfa í öllum heimsálfum. Aðalviðfangsefni samtakanna hér á landi er nemendaskipti unglinga á aldrinum 15-18 ára. Samtökin eru óháð stjórnmálaflokkum og trúfélögum

 

Nánar...

Frosnar heimæðar

Mosfellsbær bað okkur að koma því á framfæri við hesthúseigendur að þeir gæti að því að vatnsinntökin í hesthúsin séu frostvarin með einangrun og hitaþræði ef á þarf að halda.  Í frostinu um daginn fraus í tveim leiðslum og flæddi inn í hesthús af þeim sökum. 

Þorrablót Harðar

Þorrablót Harðar verður haldið í Hiarðarbóli laugardaginn 22.janúar.  Reiknað er með að gestir mæti beint af hestbaki  um kl. 17.00, í reiðfötum eða kúrekaátfitti.  Fjöldasöngur undir borðum.  Miðaverði haldi í lágmarki og dagskráin með svipuðu sniði og í fyrra (dans og fjör fram eftir kvöldi)  Húsið tekur aðeins um 80 manns svo ekki draga lengi að taka frá miða.  Miðapantanir eru hjá Makkernum Gumma B. í síma 8565505

Reiðhöllin - aðgangsreglur

Af gefnu tilefni viljum við leiðrétta þann misskilning sem virðist í gangi að nóg sé að hafa einn reiðhallarlykil hangandi í hesthúsinu sem allir geta notað.  Ef þetta væri svona þyrfti hver lykill að kosta 50.000.- krónur til að dæmið gengi upp í stað 4.000.- króna í dag.  Reglurnar eru því þessar:  Til að fara inn í reiðhöllina með hest þarft þú að stimpla þig inn með lykli sem er skráður á þína kennitölu.  Hurðin opnast þá sjálfkrafa.  Ef hurðin er opin þarft þú engu að síður að stimpla þig inn. Þú mátt ekki ganga inn með öðrum nema að stimpla þig inn.  Þetta er mjög mikilvægt til að við getum fylgst með og fáum marktæka mælingu á notkun reiðhallarinnar. Lykklar kosta 4.000.- kr. og fást hjá Guðmundi Björgvinssyni  (Gummi B, Makkerinn) sími  856 5505.  Hann er yfirleitt við í reiðhöllinni eftir kl. 17.00 á daginn.Þetta er reiðhöll okkar Harðarmanna og við gerum þá kröfu á okkur sjálf að við göngum vel og heiðarlega um hana.  Ef lykill er lánaður eða misnotaður á annan hátt verður honum lokað án frekari viðvörunar.  Við minnum á að reiðhöllin er vöktuð með öryggismyndavélum.

Reiðhallarnefnd

Hestar fyrir kennslu fatlaðra

Búið er að leysa hestaþörfina fyrir kennslu og þjálfun fatlaðra, en það tókst á þann hátt að fyrirtækið Hestmennt ehf, sem er í eigu þeirra Beggu og Tótu leggur til 3 hesta sem henta í starfið auk þess að þær leggja til húsnæðið fyrir þá fram á vor.  Hestalist ehf gefur spón undir hestana og Bessi heysali gefur hey fyrir hestana fram á vor.  Við þökkum þeim kærlega fyrir þetta rausnalega framlag til málefnisins, en með því eru mest aðkallandi málin leyst og ekkert því til fyrirstöðu að við getum hafið kennslu og þjálfun fyrir fatlaða hér í Herði í byrjun febrúar og verða þau námskeið aulýst ásamt öðrum námskeiðum fljótlega.

Svona hefst þetta allt þegar allir leggjast á eitt ! 

Þrettándabrenna

Stjórn Harðar óskar öllum félagsmönnum gleðilegs árs, þökkum fyrir gott samstarf á liðnu ári og hlökkum til starfsins á því nýja.

Við minnum á að þrettándabrennan með tilheyrandi flugeldasýningu í Mosfellsbæ verður á sunnudagskvöld.  Þá er nauðsynlegt að hafa auga með hestunum, hafa kveikt ljós í hesthúsunum og útvarp í gangi. 

Stjónin

Hörður fær 700.000.- kr styrk frá Góða Hirðinum

Góði hirðirinn er eins og allir þekkja góðgerðarstarfsemi á vegum Sorpu þar sem nýtanlegum hlutum sem hefur verið hent er haldið til haga og seldir.  Ágóðanum af þessu er síðan deilt út til góðgerðarmála einu sinni til tvisvar á ári.  Í ár vorru það Hjálparstarf Kirkunnar,Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd, Rauði krossinn, Bandalag kvenna, Hringsjá, Umhyggja, Stígamót og Hestamannafélagið Hörður sem hlutu styrki.  Við erum, skiljanlega, stoltari en orð fá lýst að vera í þessum hópi.   Styrkurinn var veittur til að við getum látið sérsmíða tvo hnakka fyrir fatlaða, en við stofnuðum fræðslunefnd fatlaðra hér í Herði á haustdögum.  Ég fór ásamt Auði, formanni fræðslunefndar fatlaðra til að taka á móti styrknum í morgun og Auður pantaði hnakkana í kjölfarið.   Verið er að sérvelja 4 til 5 hesta í verkefnið og verða þeir væntanlega komnir á hús í janúar. Hugmyndin er sú að fá fyrirtæki eða einstaklinga til að taka að sér uppihaldið á einum hesti hvert, en nú þegar hefur einn aðili tekið að sér einn hest.  Okkur vantar því enn styrkaraðila til að greiða fyrir uppihald 3. til 4. hesta, en þar til það er í höfn leysum við málið á annan hátt, þrengjum að okkur í eigin húsum og dreifum hestunum á milli okkar ef ekki annað.

Sem sagt, því langþráða markmiði okkar að þjálfun fatlaðra geti hafist hér í Herði er náð og fer í gang af fullum krafti eftir áramótin.

Kveðja Guðjón