Hestadagar í Reykjavík

Áætlað er að Hestadagar í Reykjavík verði haldnir daganna 31. mars til 2. apríl 2011. Þetta er í fyrsta skiptið sem þessir dagar eru haldnir og er hér um að ræða spennandi tímamóta verkefni í samstarfi Reykjavíkur og hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu.  Hörður tekur þátt í þessu ásamt öðrum hestamannafélögum á höfuðborgarsvæðinu.  Í fyrstu koma Gyða Á. Helgadóttir og Reynir Örn Pálmason að þessu með mér, en þegar nær dregur þurfa nær allar nefndir félagsins að koma að málinu.

Uppsetning viðburðar er hugsaður á þessa leið

Á mánudegi til fimmtudags eru hestamannafélögin ásamt ræktunarbúum í kringum höfuðborgina með opin hús og litla viðburði sem auglýstir eru á vefsíðu Hestadaga í Reykjavík. Helgina á undan er Orrasýning sem án efa mun draga til sín töluvert af erlendum ferðamönnum enda stóðhesturinn Orri frá Þúfu goðsögn í huga flestra þeirra sem stunda íslandhestamennsku en það eru ca 130.000 manns í heiminum. Spurning hvort að markaðssetning á báðum viðburðum myndi fá fólk til þess að dvelja lengur á Íslandi?

Á föstudeginum 1. apríl er stórsýning í Laugardalshöll þar sem ljós, tónlist og samspil manna og hesta eru í fyrirrúmi.

Hér er handrit í vinnslu sem gerir viðburðinn að leiksýningu ekki síður en hestasýningu. Nú þegar er þriggja manna nefnd frá hestamannafélögunum að störfum við að undirbúa þennan lið.

Á laugardegi 2. apríl er Laugardalurinn í Reykjavík undirlagður í samvinnu við Fjölskyldu og húsdýragarðinn þar sem hestateymingar, hestaferð á kerrum, litasýning á hestum, ásamt fjölda annarra viðburða eru í boði. 

Hestaþorp verður sett upp á bílastæði milli Skautahallarinnar og Húsdýragarðs. Þar verður handverksfólki og söluaðilum boðið að vera með vörur og kynningar. Einnig þeim afþreyingarfyrirtækjum sem vilja vera með kynningarbása.

Um kvöldið verður síðan Ístölt hinna allra sterkustu í Skautahöllinni.

Það er ljóst umbúnaður á þessum hestadögum í Reykjavík er töluverður og til þess að þeir verði haldnir með myndarskap er það von Landssambands hestamannafélaga að þið sjáið ykkur fært koma að honum með markaðssetningu og kynningarstarfi því það er ljóst að hér er ekki tjaldað til einnar nætur og mun þessi viðburður marka upphafið að Landsmóti í Skagafirði í sumar og ekki síður upphafið að Landsmóti í Reykjavík 2012.