Reiðhallarsamningar frágengnir

Jæja, ágætu félagar.

Þá er loksins hægt að segja frá því að allir samningar um byggingu reiðhallarinnar fram að reystu húsi eru frá gengnir. Eins og flestir vita þá var stefnt að því að byggja límtréshús, en þetta ótrúlega umhverfi sem við lifum í þessa dagana varð til þess að þegar til átti að taka þá dugði það fjármagn sem við höfum til umráða ekki til. Ástæðan var sú að verktakinn sem reynt var að semja við vildi fá upphæðina í takt við byggingavísitöluna sem þýddi hækkun um á annan tug milljóna bara vegna þess.  Í framhaldi af því var gengið til samninga við Hýsi ehf sem er fyrirtæki hér í Mosfellbænum, en þeir gerðu okkur tilboð sem ekki var hægt að hafna í stálgrindarhús. Verðið var mjög lágt, útborgun nánast engin og restin greidd í einu lagi eftir að húsið er risið.  Engar verðbætur, engir vextir og upphæðin tryggð í Íslenskum Krónum í gegnum Landsbankann og því ekki háð gengissveiflum. Í framhaldi af þessu var svo skrifað undir fjármögnunarpakka hjá Glitni sem tryggir fjárstreymi til framkvæmdanna eftir þörfum.  Samningurinn gerir ráð fyrir að verktakinn skili höllinni þann 1.júní 2009.

Þó þetta sé í höfn þá verður ýmislegt ógert þegar höllin er risin og viljum við biðla til félagsmanna að koma með okkur og taka til hendinni þegar að því kemur.

Með kveðju, Byggingarnefnd og Stjórn Harðar

Nýarskveðjur - Gamlársdagsreið

Kæru félagar,

Stjórn félagsins óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári.

Hin árlega Gamlársdagsreið til félaga okkar í Varmadal fellur niður í ár vegna salmonellu sýkingarinnar.  Við hugleiddum hvort við ættum að setja saman aðra reið, Blikastaðaneshring eða annað, en féllum frá því að vel hugsuðu máli.  Bæði þykir okkur ekki rétt að félagið stuðli að því að safna saman mörgum hestum úr mörgum hesthúsum þó dýralæknar segi smithættuna ekki mikla, auk þess að margir félagar okkar hafa mist hesta eftir margra daga baráttu og því finst  okkur ekki viðeigandi að efna til fagnaðar svo stuttu eftir þessa dapurlegu atburðarrás.  Hugur okkar er hjá þeim sem hafa misst hesta og von okkar hjá þeim sem enn eiga smitaða hesta á lífi.

Bestu kveðjur, Stjórnin

Salmonellu sýkingin

Enn hafa fleiri hross drepist og er búist við að enn muni 3 til 4 hross fara. Þau hross sem eftir eru, um 15 talsins eru taldir hafa góðar batalíkur.  Stefnt er að því að flytja þau hross sem enn eru á lífi burt úr hesthúsahverfinu á þriðjudaginn kemur.  Ég óskaði eftir því að því verði hraðað enn meir, en litlar líkur eru til þess að svo verði.  Héraðsdýralæknir er í samráði við tæknideild Mosfellsbæjar að semja við verktaka um jarðvegsskipti í gerðum, förgun á skít og sótthreinsun húsa og umhverfis. Salmonella getur lifað í nokkur ár íjarðvegi og skít og mér skilst að þessi tegund sé sérlega skæð bæði hestum og mönnum.  Það er því brínt að allir fari eftir fyrirmælum dýralækna um þrifnað og sóttvarnir.  Þó salmonellan sé smitandi ber þó að hafa í huga að hún smitast aðeins um munn.  Þannig hafa heilbrigðir hestar sem staðið hafa í stíum við hlið sýktra hesta ekki smitast. Það er mjög áríðandi að ástandið komist sem fyrst í eðlilegt horf.  Víð bíðum eftir áliti Héraðsdýralæknis um það hvenær óhætt er að taka hesta á hús með tryggum hætti, en ég vona að það verði fyrir gamlárskvöld þar sem margir eru með hesta í girðingum nálægt bænum og geta þeir fælst illilega við flugeldana.

Kveðja, Guðjón

Hestaveikin áríðandi tilkynning

Hér áríðandi tilkynning frá Héraðsdýralækni, en fyrst nokkur orð.  Það er ljóst að veikin er skæð og bráðdrepandi þar sem nú eru 16 hestar farnir.  Það er gríðarlegra áríðandi að við förum í einu og öllu eftir fyrirmælum dýralæknanna og að einangrunin sé virt og tekin alvarlega.  Við höfum farið fram á að sýkt dýr verði flutt út úr hesthúsahverfinu svo sótthreinsun hverfinsins geti hafist, en okkur er sagt að það sé ekki alveg svo einfallt.  Bæði er erfitt að finna stað sem vill taka við dýrunum svo og að erfitt sé að flytja sýkt dýr.  Það er þó verið að kanna þennan möguleika og eru dýralæknar að ráðfæra sig um hvaða möguleikar séu í stöðunni.

En hér er tilkynningin frá Héraðsdýralækni:

"Nú hefur sextándi hesturinn fallið vegna salmonellusýkingar. Ljóst er að hestarnir hafa orðið fyrir mjög mikilli sýkingu og greinilega er týpan feikna harðskeytt. Er þetta miklu öflugri salmonellusýking en við höfum áður séð í hestum hér á landi. Undirritaður vill taka það fram að við slíka öfluga sýkingu af salmonellu hjá grasbítum verður í mörgum tilfellum ekki við neitt ráðið þrátt fyrir bestu meðferð. Ástæða þess er aðallega að leita í mjög stórum og vökvamiklum meltingarfærum þessara dýra, sem mjög erfitt er og oft ómögulegt að hafa afgerandi áhrif á. Því miður má búast við að enn munu einhverjir hestar drepast áður en viðsnúningur verður.
Rannsókn á heyi, síld og vatni frá Norðurgröf er komin áleiðis og bendir til að vatnsýnin séu menguð af salmonellu. Ekkert bendir til eins og er að hey né síld séu menguð af salmonellu. Tekin voru viðbótar sýni af heyi og síld í dag, sem fara í rannsókn á morgun, en fyrir því verður að fást sem öruggust vitneskja, að þessar fóðurgerðir séu fríar af salmonellu. Tekin verða viðbótar sýni af vatni fljótlega.
Þýðingarmikið er að allir taki nú höndum saman um að bæta sóttvarnir í hesthúsahverfinu, en það er lykilatriði til að hindra að sýkingin berist í aðra hesta og fólk. Enginn skal ganga um hesthúsin þar sem veikir hestar eru hafðir án þess að brýn nauðsyn beri til. Bakkar með sóttvarnarefni mun nú verða komið fyrir og skal enginn ganga um húsin án þess að stíga í þá. Lausir hundar í hverfinu eru bannaðir. Fólk sem þarf að ganga um húsin, setji öll sín föt í þvott er heim er komið og þvoi og sótthreinsi skótau. Gegningarmenn noti sérstakan klæðnað í húsin. Góð regla hefur verið tekin upp af hestamönnum þeim er halda veika hesta að setja allan skít og mengaðan úrgang í plastpoka, sem mun síðan verða urðaður.
Á morgun 27. desember munu dýralæknarnir Lísa, Katrín og Ólöf sinna neðra hverfinu, en Þórunn, Björn hestunum í Teigi. Til viðbótar munu dýralæknarnir Björgvin Þórisson og Gestur Júlíusson koma til aðstoðar, en þeir hafa báðir líkt og hin mikla reynslu af hestapraxis."

 

Fleiri hestar deyja úr veikinni

Enn versnar ástandið, en nú eru 15 hestar farnir.  Gunnar Héraðsdýralæknir heldur okkur upplýstum og sendi þennan tölvupóst rétt áðan;

Sæll Guðjón !

Því miður er ástandið á eftirlifandi hestum ekki nógu gott, margir eru enn þá mikið veikir. Alls eru nú 15 hestar dauðir. Vonir, frá því í gær, um að ástand þeirra væri að batna hefur ekki ræst. Ég fór í dag til að aðstoða dýralæknana sem voru að störfum og leit á flesta af hestunum og virðast mér margir þeirra þurfa kröftuga meðferð næstu daga til að ná heilsu. Höfum við dýralæknarnir ákveðið eftirfarandi skipulag fyrir næsta sólarhringinn. Björn Steinbjörnsson mun huga að hestunum í kvöld 25. des. og aðstoða Ólöfu Loftsdóttur. Á morgun 26. des. verður skipulagi þannig háttað að hestunum að Teigi verður sinnt af Þórunni Þórarinsdóttur, en hestarnir niður í hverfi verður sinnt af Lísu Bjarnadóttur og Katrínu Harðasrdóttur í samráði við Ólöfu Loftsdóttur. Gerðar hafa verið ráðastafanir til að útvega næg lyf fyrir morgundaginn til meðferðar á þeim hestum sem þess þurfa. Meðferðin fellst fyrst og fremst í vökvameðferð, en við sýkingu sem þessa skerðist starfsemi þarmanna og leiðir það til þess að dýrin þorna upp þar sem eiturefni frá bakterínum valda niðurgangi og verkjum í kviðarholi, auk eitrunareinkennum í hestunum. Ég vil biðja alla eigendur hesta sem veikir eru að hafa samband við dýralæknana þannig að þeir geti aðstoða við lækningu sinna hesta, en seinlegt er að láta fleiri lítra af vökva renna í hestana. Allir skulu gæta fyllsta hreinlætis, þvo sér reglulega um hendur og setja öll hlífðarföt strax í þvott við heimkomu og sótthreinsa skótau.
með kveðju
Gunnar Örn


Hestasjúkdómurinn

Hér  fyrir neðan er tilkynning frá Gunnari  Héraðsdýralækni Gullbringu- og Kjósarumdæmis til okkar, en eins og þar kemur fram hallast þeir að því að um salmonellu sýkingu sé að ræða.  Hesthúsin sem sýktu hestarnir eru í hafa verið sett í einangrun en ekki þótti ástæða til að loka hesthúsahverfinu.  Ég hvet hinsvegar alla til að vera á varðbergi áfram þar til endanleg niðurstaða fæst í málið.  En hér er tilkynningin:


„Í Norðurgröf við Esjurætur, eru haldin hross á útifóðrun, um það bil 40 stykki. Í gærdag 21. desember fannst dautt hross í hjörðinni og við nánari athugun reyndust mörg hross vera veik. Voru þau sum hver með háan hita og mörg með niðurgang, og var skíturinn frá þeim illa lyktandi. Tekin voru blóðsýni úr úr þremur hrossum og kom í ljós fækkun hvítrablóðkorna ( Leucopenía ) sem gæti bent til veirusmits. Í gærkvöldi og morgun voru hross flutt niður í hesthúsahverfið í Mosfellsbæ. Ástæða þessa var að hrossin voru sum hver mikið veik og sum kvalin. Talað hefur verið við formann hestamannafélagsins Harðar Guðjón Magnússon og hann beðinn um að sjá til þess að ekki sé komið með hross inn í hverfið að svo stöddu, en margir munu ætla að taka inn um hátíðarnar. Í morgun var þetta dauða hross krufið, um var að ræða fullorðinn feitan klár, helstu niðurstöður eru miklar bólgubreytingar í meltingarkerfi, en ekki að sjá neinar breytingar sem benda til veirusmits. Grunur leikur á smiti með salmonellu eða kokkum eða listeríu. Tekin hafa verið sýni til vefjaskoðunar, til bakteríu rannsóknar og til veirurannsóknar. Niðurstöður ættu að liggja fyrir eftir nokkra daga. Þangað til eru eigendur hesthúsanna þar sem hestarnir eru beðnir um að fylgja ströngum reglum um sóttvarnir, hleypa engum inní hesthúsin, nota sérklæðnað og skótau í húsunum, þvo sér vel og reglulega um hendur. Skít frá hestunum þarf að urða ef að um sýkingu með salmonellu reynist vera.
Gunnar Örn

Tilkynning frá Héraðsdýralækni

Kæru hestamenn í Herði !

Þegar þetta er ritað kl. 14 á aðfangadag hafa 9 hestar drepist úr 40 hesta stóði sem haldið var í Norðurgröf. Að sögn Ólafar Loftsdóttur dýralæknis, sem sinnt hefur hestunum eru enn þá einhverjir hestar alvarlega  veikir, en almennt séð er hjörðin þó á batavegi. Hestunum var komið fyrir í 4 hesthúsum í hesthúsahverfinu og í hesthúsi að Teigi við Reykjaveg. Þau hús þar sem veikir hestar eru hýstir hafa verið merkt með gulum borða og er til þess ætlast að eingöngu eigendur gangi um þau. Hafa eigendur og eða umráðamenn veiku hestanna verið beðnir um að fylgja eftirfarandi reglum:

·         Nota sérstök hlífðarföt til gegninga, sem ekki eru notuð annars staðar

·         Hafa skó/stígvél til skiptanna til að nota í hesthúsinu

·         Þvo sér rækilega um hendur eftir gegningar

·         Ekki hleypa hestunum út

Það eru nokkur önnur atriði sem ég vil nefna hér sem varða umgengni í hverfinu.

·         Óheimilt er að hundar gangi lausir á svæðinu meðan að þetta ástand varir, þar sem þeir eru snuðrandi í skít, sem gæti verið mengaður af smitefninu

·         Hafi hesthús sameiginlegt gerði með sameiginlegri taðþró með hestum sem eru veikir er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að hrossin komist ekki að þrónni, en mega að öðru leiti nýta gerðið ef ekki er unnt að koma þeim annað

·         Gerðar verða ráðstafanir til að urða tað sem kemur frá veiku hestunum þegar veikin er hjá liðin

·         Undirritaður leggur til að fólk fresti því að taka hesta á hús meðan þetta ástand varir, en telur að útreiðar séu í lagi út frá hverfinu

Greinilegt er að hér er um mjög harðvítugt smit að ræða. Fljótlega vaknaði grunur um að um salmonellusmit væri að ræða og hefur sá grunur styrkst jafnt og þétt í rannsóknarferlinu á Keldum. Allar ráðstafanir miðast við að svo sé.  Salmonella smitast nær eingöngu  um munn, en ekki um öndunarfæri, þ.e. ekki er um loftborið smit að ræða. Því er nausynlegt að gæta hreinlætis bæði persónulegs og innan hesthússins. Þar sem salmonella getur einnig smitað fólk er mikilvægt að fylgja þessum leiðbeiningum og tilmælum dýralækna sem sinna hestunum. Ekki er víst að uppruni sýkingarinnar verði nokkurn tíma staðfestur, en hey, fóður og vatn hefur verið sent til rannsóknar. Ekki er við því að búast að smitið dreifist um hesthúsahverfið. Hestar sem veikjast af salmonellu hreinsa sig af sýklunum eftir ákveðinn tíma og munum við með sýnatökum reyna að fylgjast með því.

 Ég vona að það versta sé yfirstaðið og þeir hestar sem nú eru veikir nái heilsu. Ég óska ykkur gleðilegra jóla.

Gunnar Örn Guðmundsson

Héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósarsvæðis

Áhugasamt og duglegt fólk óskast til stjórnar og nefndarstarfa

Nú fer að líða að aðalfundi félagsins og þar með nýju starfsári.  Það er margt gott og duglegt fólk sem drífur félagið áfram, en okkur vantar fleiri til að draga vagninn með okkur.  Við auglýsum því eftir áhugasömum, duglegum og ósérhlífnum Harðarfélögum til ýmissa félags- nefndar- og stjórnarstarfa.  Allt sem þarf að gera er að hafa samband við formann þeirrar nefndar sem þú hefur áhuga á að starfa í eða við Guðjon formann í síma 894 5101, eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Með bestu kveðju, stjórnin.

Jólakveðja

Við óskum öllum Harðarfélögum og öðrum hestamönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og hlökkum til ársins framundan með ykkur.

Stjórn og nefndir Hestamannafélagsins Harðar.

Samningi slitið við GT bygg og stál.

Kæru félagsmenn,

Reiðhallarnefndin, í samráði við Aðalstjórn, hefur fundið sig knúna til að gera samkomulag við GT bygg og stál um slit á verksamningi.  Nefndin hefur staðið í ströngu í erfiðri aðstöðu, bæði hvað varðar tafirnar sem orðið hafa á verkinu, en ekki síður því sí versnandi umhverfi sem samfélagið hefur gengið í gegnum á síðastliðnu eina og hálfa ári. Nú er unnið að því að loka samningi við annan verktaka um næsta áfanga byggingarinnar sem er sjálf reiðskemman.

Það var nánast sama reiðhallarnefnd og nú situr sem aflaði fjár til reiðhallarbyggingarinnar og tók það nokkur ár þar sem ofurkapp var lagt á að Hörður eignaðist reiðhöllina skuldlausa.  Í fyrstu leit fjármögnunin þannig út að áætlað var að reiðhöllin kostaði 140 millj.kr. og ætlaði ríkið að leggja fram helming þess fjár að því tilskildu að bærinn legði fram það sama á móti.  Þegar við töldum okkur hafa handsalað þann samning við Landbúnaðarráðherra og bæjarfélagið bárust þær fréttir að ákveðið hefði verið að dreifa fjármununum víðar þannig að Hörður fengi aðeins 25 millj. frá ráðuneytinu.  Í framhaldi af því fórum við til Mosfellsbæjar sem féllst á að hækka framlag sitt í 90 millj.  Hörður yrði síðan að leggja fram það sem á vantaði eða 25 millj. Í framhaldi af því var skrifað undir samning við bæjarfélagið um fjármögnun til 6 ára, þannig að Hörður fær 15 millj. á ári, vísitölutryggðar næstu 6 árin. Það var skilyrði frá bænum að við sæjum sjálf um að fjármagna verkið, hvort sem við kysum að byggja nú þegar eða safna peningunum og byggja síðar þegar sjóðurinn væri stærri og lántökuþörfin minni.  Við skynjuðum að þörfin fyrir reiðhöll væri mikill og lögðum því til að farið yrði í bygginguna strax, enda vextir lágir og nóg af lánsfé.  Við sömdum því við Glitni um fjármögnun framkvæmdanna. 

Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að leggja til að verkið yrði boðið út í heild, þ.e. að reistu húsi fullfrágengnu að utan.  Þar með var fullnaðarhönnun hússins innifalin í verkinu.  Þetta var gert til að hafa verkið allt á einni hendi og útiloka þar með að verktakinn kenndi ófullnægjandi hönnun um tafir og aukaverk eins og oft vill verða.  Venjulega gefst þessi aðferð mjög vel og minkar verulega líkurnar á aukaverkum með tilheyrandi aukakostnaði.   Leitað var eftir tilboðum í reiðhöllina og var tilboð GT bygg og stál ehf. langlægst eða 88 millj. kr. næsta tilboð fyrir ofan var 100 millj. kr. og önnur mun hærri.  í framhaldi af því var lagt til á almennum félagsfundi sem sérstaklega var boðaður um málið að tilboði GT yrði tekið, enda var það eina tilboðið sem raunhæft var innan þess fjármagnsramma sem félagið hafði.  (Fundargerð félagsfundarins er hér aftast í fréttinni  í fullri lengd.)

Allt fór þetta vel af stað og aðalverktakinn réði til sín arkitekt og verkfræðing sem áttu að skila teikningum í águst 2007, en skila átti okkur reiðhöllinni 1.des.2007.  Arkitektinn skilaði fljótt og vel, þannig að hægt var að grafa og gera burðarpúðann undir reiðhöllina sem tók tiltölulega stuttan tíma, en verkfræðingurinn skilaði ekki teikningum þrátt fyrir að aðalverktakinn legði á hann verulega pressu.  

 

Nánar...