Fyrirhugaðar framkvæmdir við Tunguveg
- Nánar
- Flokkur: Stjórnin
- Skrifað þann Mánudagur, maí 26 2008 10:29
- Skrifað af Super User
Fyrirhugaður Tunguvegur var fyrst kynntur formlega fyrir félaginu í apríl 2005, en þá fóru þáverandi aðalstjórn, reiðveganefnd og deild hesthúseigendafélagsins yfir þau skipulagsgögn sem fyrir lágu. Þá, sem nú, lá ljóst fyrir að félagsmenn Harðar vilja vera áfram á Varmárbökkum með sína hesthúsabyggð og aðstöðu, við viljum vera í byggð en ekki sífellt láta hrekjast lengra til fjalla. Þetta er okkur mikilvægt meðal annars með tilliti til þess að börnin okkar komist í hesthúsin gangandi eða hjólandi, og einnig að stutt sé fyrir okkur að gefa og sinna dýrunum. Það gengur ekki að segja þetta í einu orðinu og setja sig svo á móti annarri uppbyggingu í kringum okkur í hinu, hvort sem um byggingar- eða samgöngumannvirki er að ræða. Það er hins vegar mjög mikilvægt að gæta þess að reiðleiðir til og frá hverfinu séu góðar, sem og að reiðleiðir um byggðina í Mosfellsbæ séu ávallt í lagi og tekið tillit til þeirra við deiliskipulagningu nýrra hverfa. Þessi stefna var mótuð árið 2005 og hafa stjórnarmenn, reiðvegarnefndarmenn og deild félags hesthúseigenda unnið eftir henni síðan með mjög góðum árangri.