Fyrirhugaðar framkvæmdir við Tunguveg
- Nánar
- Flokkur: Stjórnin
- Skrifað þann Mánudagur, maí 26 2008 10:29
- Skrifað af Super User
Fyrirhugaður Tunguvegur var fyrst kynntur formlega fyrir félaginu í apríl 2005, en þá fóru þáverandi aðalstjórn, reiðveganefnd og deild hesthúseigendafélagsins yfir þau skipulagsgögn sem fyrir lágu. Þá, sem nú, lá ljóst fyrir að félagsmenn Harðar vilja vera áfram á Varmárbökkum með sína hesthúsabyggð og aðstöðu, við viljum vera í byggð en ekki sífellt láta hrekjast lengra til fjalla. Þetta er okkur mikilvægt meðal annars með tilliti til þess að börnin okkar komist í hesthúsin gangandi eða hjólandi, og einnig að stutt sé fyrir okkur að gefa og sinna dýrunum. Það gengur ekki að segja þetta í einu orðinu og setja sig svo á móti annarri uppbyggingu í kringum okkur í hinu, hvort sem um byggingar- eða samgöngumannvirki er að ræða. Það er hins vegar mjög mikilvægt að gæta þess að reiðleiðir til og frá hverfinu séu góðar, sem og að reiðleiðir um byggðina í Mosfellsbæ séu ávallt í lagi og tekið tillit til þeirra við deiliskipulagningu nýrra hverfa. Þessi stefna var mótuð árið 2005 og hafa stjórnarmenn, reiðvegarnefndarmenn og deild félags hesthúseigenda unnið eftir henni síðan með mjög góðum árangri.
Reiðveganefnd, deild hesthúseigendafélagsins og aðalstjórn fóru mjög vandlega yfir þau skipulagsgögn sem fyrir lágu árið 2005 og óskuðu eftir viðamiklum breytingum á legu reiðvega og gerð þeirra. Þær óskir hafa allar verið uppfylltar í núverandi skipulagsgögnum og verða tvær reiðleiðir undir rúmgóðar brýr á veginum sitt hvoru megin Köldukvíslar auk þess að gerð verður reiðbrú yfir Köldukvísl þar sem nú er vað. Reiðleiðin til suðurs í átt að íþróttahúsinu verður óbreytt. Haft verður náið samráð við reiðveganefnd félagsins við nánari útfærslu á reiðleiðunum. Flugvallahringurinn verður að mestu óbreyttur ( færist væntanlega nokkra metra til vesturs þar sem hann liggur með veginum) og að auki verður gerður annar hringur sem sneyðir framhjá íþróttasvæðinu og bílastæðunum þar, sá hringur verður væntanlega um 300 metrum styttri en núverandi hringur, liggur fjarri vegi og bílastæðum og verður upplýstur.Í fyrra tókst okkur að gera 50 ára leigusamning við bæjarfélagið um hesthúsabyggðina á Varmárbökkum, sá samningur byggði á þeirri grundvallar ósk okkar að fá að vera áfram á þessu svæði, inni í bæjarfélaginu. Samhliða því lagði Mosfellsbær okkur til handa hátt á annað hundrað milljónir til byggingar reiðhallar á svæðinu. Reiðveganefndin hefur unnið þrotlaust að því með Mosfellsbæ að koma reiðleiðum um sveitarfélagið í betra horf og orðið verulega ágengt, nú síðast með undirritun viljayfirlýsingar um samstarfsverkefni Mosfellsbæjar og Vegagerðarinnar um lagningu reiðvegar um undirgöng frá iðnaðarhverfinu við Teig að Hafravatni, framkvæmd sem áætlað er að kosti á bilinu 30 til 40 milljónir. Búið er að leggja fram tillögu að stækkun hesthúsahverfisins til skipulagsnefndar á svæðinu þar sem nú er Sorpa og er hún nú í formlegu deiliskipulagsferli. Í 700 manna félagi eins og okkar eru menn með margskonar skoðanir. Það eru vissulega rök gegn því að gera fyrirhugaðan Tunguveg, en það eru líka rök með því. Rökin gegn því liggja að mestu í þeirri sjónmengun og hljóðmengun sem óhjákvæmilega fylgja umferðarmannvirkjum, en vegurinn mun ekki skerða reiðleiðirnar okkar, fyrir því hefur verið séð. Rökin með veginum eru einkum þau að íbúar í Leirvogstunguhverfinu tengjast byggðinni með innanbæjarvegi sem styttir þeim leið að skólum, þjónustu og þeim hestamönnum sem þar búa leiðina að hesthúsunum. Auk þess mun vegurinn auðvelda börnum og unglingum aðkomu að íþróttasvæðinu á Tungubökkum. Við sem höfum dregið vagninn hér í félaginu síðastliðin ár höfum þá skýru afstöðu að blanda félaginu ekki í flokkspólitískar deilur, í félaginu er, og á að vera, rúm fyrir allar pólitískar skoðanir. Það er hlutverk okkar lýðræðislegu kjörnu fulltrúa í bæjar- og skipulagsstjórn og sérfræðinga þeirra að meta hvernig best er að byggja bæjarfélagið upp, hestamannafélagið ákvað að hafa ekki skoðun á Tunguveginum sem slíkum hvorki með eða á móti, en einbeita sér að því að hugsa um svæðið okkar hér á Varmárbökkum, reiðvegagerð um sveitarfélagið og samgönguleiðum til og frá hesthúsahverfinu, þar berjumst við með kjafti og klóm. Með sömu rökum var uppbyggingu í Leirvogstungu eða Helgafellslandi ekki mótmælt þó vissulega þætti flestu útivistarfólki skemmtilegra og rómantískara að fara um þessi svæði og horfa á iðgræn tún eins og áður var. Þessi afstaða hefur verið afstaða að minnsta kosti þriggja síðustu stjórna og er óbreytt hjá núverandi stjórn. Það er hins vegar skylda okkar að sjá til þess að félagsmenn séu vel upplýstir um það hvað er að gerast í kringum okkur og þess vegna báðum við bæjarfélagið að halda kynningarfund sérstaklega fyrir félagsmenn Harðar um fyrirhugaðan Tunguveg. Á þann fund mættu 19 manns af 711 félagsmönnum og fengu kynningu á málinu.