Tilkynning frá Héraðsdýralækni

Kæru hestamenn í Herði !

Þegar þetta er ritað kl. 14 á aðfangadag hafa 9 hestar drepist úr 40 hesta stóði sem haldið var í Norðurgröf. Að sögn Ólafar Loftsdóttur dýralæknis, sem sinnt hefur hestunum eru enn þá einhverjir hestar alvarlega  veikir, en almennt séð er hjörðin þó á batavegi. Hestunum var komið fyrir í 4 hesthúsum í hesthúsahverfinu og í hesthúsi að Teigi við Reykjaveg. Þau hús þar sem veikir hestar eru hýstir hafa verið merkt með gulum borða og er til þess ætlast að eingöngu eigendur gangi um þau. Hafa eigendur og eða umráðamenn veiku hestanna verið beðnir um að fylgja eftirfarandi reglum:

·         Nota sérstök hlífðarföt til gegninga, sem ekki eru notuð annars staðar

·         Hafa skó/stígvél til skiptanna til að nota í hesthúsinu

·         Þvo sér rækilega um hendur eftir gegningar

·         Ekki hleypa hestunum út

Það eru nokkur önnur atriði sem ég vil nefna hér sem varða umgengni í hverfinu.

·         Óheimilt er að hundar gangi lausir á svæðinu meðan að þetta ástand varir, þar sem þeir eru snuðrandi í skít, sem gæti verið mengaður af smitefninu

·         Hafi hesthús sameiginlegt gerði með sameiginlegri taðþró með hestum sem eru veikir er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að hrossin komist ekki að þrónni, en mega að öðru leiti nýta gerðið ef ekki er unnt að koma þeim annað

·         Gerðar verða ráðstafanir til að urða tað sem kemur frá veiku hestunum þegar veikin er hjá liðin

·         Undirritaður leggur til að fólk fresti því að taka hesta á hús meðan þetta ástand varir, en telur að útreiðar séu í lagi út frá hverfinu

Greinilegt er að hér er um mjög harðvítugt smit að ræða. Fljótlega vaknaði grunur um að um salmonellusmit væri að ræða og hefur sá grunur styrkst jafnt og þétt í rannsóknarferlinu á Keldum. Allar ráðstafanir miðast við að svo sé.  Salmonella smitast nær eingöngu  um munn, en ekki um öndunarfæri, þ.e. ekki er um loftborið smit að ræða. Því er nausynlegt að gæta hreinlætis bæði persónulegs og innan hesthússins. Þar sem salmonella getur einnig smitað fólk er mikilvægt að fylgja þessum leiðbeiningum og tilmælum dýralækna sem sinna hestunum. Ekki er víst að uppruni sýkingarinnar verði nokkurn tíma staðfestur, en hey, fóður og vatn hefur verið sent til rannsóknar. Ekki er við því að búast að smitið dreifist um hesthúsahverfið. Hestar sem veikjast af salmonellu hreinsa sig af sýklunum eftir ákveðinn tíma og munum við með sýnatökum reyna að fylgjast með því.

 Ég vona að það versta sé yfirstaðið og þeir hestar sem nú eru veikir nái heilsu. Ég óska ykkur gleðilegra jóla.

Gunnar Örn Guðmundsson

Héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósarsvæðis