Hestaveikin áríðandi tilkynning
- Nánar
- Flokkur: Stjórnin
- Skrifað þann Föstudagur, desember 26 2008 22:53
- Skrifað af Super User
Hér áríðandi tilkynning frá Héraðsdýralækni, en fyrst nokkur orð. Það er ljóst að veikin er skæð og bráðdrepandi þar sem nú eru 16 hestar farnir. Það er gríðarlegra áríðandi að við förum í einu og öllu eftir fyrirmælum dýralæknanna og að einangrunin sé virt og tekin alvarlega. Við höfum farið fram á að sýkt dýr verði flutt út úr hesthúsahverfinu svo sótthreinsun hverfinsins geti hafist, en okkur er sagt að það sé ekki alveg svo einfallt. Bæði er erfitt að finna stað sem vill taka við dýrunum svo og að erfitt sé að flytja sýkt dýr. Það er þó verið að kanna þennan möguleika og eru dýralæknar að ráðfæra sig um hvaða möguleikar séu í stöðunni.
En hér er tilkynningin frá Héraðsdýralækni:
"Nú hefur sextándi hesturinn fallið vegna salmonellusýkingar. Ljóst
er að hestarnir hafa orðið fyrir mjög mikilli sýkingu og greinilega er
týpan feikna harðskeytt. Er þetta miklu öflugri salmonellusýking en við
höfum áður séð í hestum hér á landi. Undirritaður vill taka það fram að
við slíka öfluga sýkingu af salmonellu hjá grasbítum verður í mörgum
tilfellum ekki við neitt ráðið þrátt fyrir bestu meðferð. Ástæða þess
er aðallega að leita í mjög stórum og vökvamiklum meltingarfærum
þessara dýra, sem mjög erfitt er og oft ómögulegt að hafa afgerandi
áhrif á. Því miður má búast við að enn munu einhverjir hestar drepast
áður en viðsnúningur verður.
Rannsókn á heyi, síld og vatni frá Norðurgröf er komin áleiðis og
bendir til að vatnsýnin séu menguð af salmonellu. Ekkert bendir til
eins og er að hey né síld séu menguð af salmonellu. Tekin voru viðbótar
sýni af heyi og síld í dag, sem fara í rannsókn á morgun, en fyrir því
verður að fást sem öruggust vitneskja, að þessar fóðurgerðir séu fríar
af salmonellu. Tekin verða viðbótar sýni af vatni fljótlega.
Þýðingarmikið er að allir taki nú höndum saman um að bæta
sóttvarnir í hesthúsahverfinu, en það er lykilatriði til að hindra að
sýkingin berist í aðra hesta og fólk. Enginn skal ganga um hesthúsin
þar sem veikir hestar eru hafðir án þess að brýn nauðsyn beri
til. Bakkar með sóttvarnarefni mun nú verða komið fyrir og skal enginn
ganga um húsin án þess að stíga í þá. Lausir hundar í hverfinu eru
bannaðir. Fólk sem þarf að ganga um húsin, setji öll sín föt í þvott er
heim er komið og þvoi og sótthreinsi skótau. Gegningarmenn noti
sérstakan klæðnað í húsin. Góð regla hefur verið tekin upp af
hestamönnum þeim er halda veika hesta að setja allan skít og mengaðan
úrgang í plastpoka, sem mun síðan verða urðaður.
Á morgun 27. desember munu dýralæknarnir Lísa, Katrín og Ólöf sinna neðra hverfinu, en Þórunn, Björn hestunum í Teigi. Til viðbótar munu dýralæknarnir Björgvin Þórisson og Gestur Júlíusson koma til aðstoðar, en þeir hafa báðir líkt og hin mikla reynslu af hestapraxis."
Á morgun 27. desember munu dýralæknarnir Lísa, Katrín og Ólöf sinna neðra hverfinu, en Þórunn, Björn hestunum í Teigi. Til viðbótar munu dýralæknarnir Björgvin Þórisson og Gestur Júlíusson koma til aðstoðar, en þeir hafa báðir líkt og hin mikla reynslu af hestapraxis."