Frá stjórn

Góðir félagsmenn Eins og öllum mun kunnugt er aðalfundur Harðar nú nýafstaðinn og meðal þess sem þar gerðist var að töluverð endurnýjun varð í stjórn félagsins og er nýja stjórnin um þessar mundir að taka við stjórnartaumunum. En vel fer á, áður en lengra er haldið, að þakka því ágæta fólki sem staðið hefur vaktina síðustu árin fyrir mikið og óeigingjarnt starf og sér í lagi fráfarandi formanni, Þórhildi Þórhallsdóttur. Hin nýkjörna stjórn hefur hist einu sinn fyrir utan að mæta á fund með fyrri stjórn þar sem segja má að innsetningin hafi farið fram. Þótt ekki sé á þessari stundu búið að marka stefnu í hinum fjölmörgu viðfangsefnum félagsins hafa þó verið markaðar línur gróflega í einstökum málum. Þar á meðal virðist það samhljóða skoðun stjórnamanna að reyna að auka verulega tengslin milli stjórnkerfis félagsins og félagsmanna og virkja þar heimasíðu félagsins frekar en gert hefur verið til þessa. Það er deginum ljósara að heimasíðan verður stöðugt mikilvægari fyrir félagsstarfið og því tímabært að huga að enn frekari notkunarmöguleikum netsins í þessum efnum. Þá liggur það ljóst fyrir að hagsmunagæsla út á við er mjög vaxandi þáttur í störfum stjórnar Harðar sem og annarra hestamannafélaga. Mikill tími og orka stjórnarmanna í fráfarandi stjórn fór einmitt í þennan þátt og mun ekki minnka eftir því sem best verður séð. Af þessum sökum meðal annars verður að leggja enn frekari áherslu á að virkja fleiri félagsmenn til starfa því margar hendur vinna létt verk. Einhugur er um það innan stjórnar að leggja mikið í sölurnar til að virkja sem flesta til starfa og reyna af fremsta megni að dreifa verkefnum félagsins sem mest. Félagsstarf er hin besta skemmtan svo lengi sem verkefnin verða ekki tröllaukin og yfirþyrmandi þrúgandi og hvíli á fárra manna herðum. Það hefur því miður lengi loðað við í slíku starfi, ekki bara hér í Herði, að alltof fáir dragi hlassið og viljum við gera heiðarlega tilraun til að breyta því. Við heitum á alla félagsmenn að bregðast vel við þegar til þeirra verður leitað. Hörður hefur átt gott og farsælt samstarf við bæjarstjórn Mosfellsbæjar í gegnum tíðina og í dag eru þessi samskipti orðin afar fjölþætt. Stjórnin mun að sjálfsögðu leggja ríka áherslu á að að hlúa vel að þessu samstarfi sem og góðu samstarfi við bæði Reykjavíkurborg sem nú ríkir að hluta á félagssvæði Harðar og stjórnendur Kjósarhrepps. Stjórnarfundir verða haldnir tvisvar í mánuði fram á sumar og væntum við góðs samstarfs og stuðnings frá félagsmönnum. Við lítum svo á að hlutverk okkar sé að leiða félagið í gegnum þau verkefni og viðfangsefni sem við blasa þannig að vöxtur og viðgangur hestamennskunnar í Herði verði sem mestur og bestur. Án trausts baklands erum við lítils megnug en með samstilltu átaki breiðfylkingu félagsmanna lítum við björtum augum til komandi árs. Að endingu sendir stjórn Harðar bestu jólakveðjur til félagsmanna með óskum um góðar stundir í samneyti við þarfasta þjóninn á komandi ári. Fyrir hönd stjórnar Guðmundur Björgvinsson