Fundagerð Aðalfundar

Aðalfundur Hestamannafélagsins Harðar Harðarbóli 03.12.2003 kl. 20:15 Formaður leggur til að Leifur Jóhannesson stýri fundi og Einar Ragnarsson riti fund. Samþykkt. Formaður afhendir fundarstjóra fundinn. Leifur fer yfir dagskrá aðalfundar fundarmönnum til glöggvunar og gefur formanni orðið sem fer yfir helstu mál í skýrslu. (Sjá fylgiskjal 1) Formaður leggur áherslu á að fundarmenn kynni sér skýrslur nefnda og leiðréttir missögu í skýrslu fjáröflunarnefndar varðandi samning um beitarmál milli félagsins og bæjarstjónar. Gjaldkeri skýrir niðurstöðu reikninga fyrir 2002 (fylgiskjal 2) og fer yfir milliuppgjör níu mánaða 2003 (fylgiskjal 3). Kynnir rekstaráætlun fyrir árið 2004. Fundarstjóri þakkar greinagóða skýrslu og reikninga. Umræður um skýrslu og reikninga. Valdimar Kristinsson tekur til máls og staðfestir orð formanns um missagnir í skýrslu fjáröflunarnefndar. Segir að bæjarstjórn (umhverfisnefnd) hafi hug á að endurskoða samninga um beitarmál. Reikningar bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða. Ákvörðun um að árgjald verði óbreytt. Samþykkt. Lagabreytingar engar. Kostningar samkvæmt lögum félagsins. Formaður: Tillaga Guðmundur Björgvinsson. Engar móttillögur. Aðalmenn: Páll Viktorsson Kolbrún Haraldsdóttir Guðjón Magnússon Engar aðrar tillögur Varamenn: Valdimar Kristinsson Svanur Magnússon Guðmundur Magnússon Engar aðrar tillögur Skoðurnarmenn reikninga: Leifur Jóhannesson og Birgir Hólm Fulltrúar á LH þing (fylgiskjal 4) Þrír jafnir, Friðþjófur dregur tvo inn. Aðalmenn: Eysteinn Leifsson, Halldór Guðjónsson, Guðni Indriðason, Þröstur Karlsson, Marteinn Magnússon og Rafn Jónsson Varamenn: Kolbrún Haraldsdóttir, Jóhann Þór Jóhannsson og Guðjón Magnússon UMSK þing: Þórhildur Þórhallsdóttir, Guðni Indriðason og Halldór Guðjónsson Önnur mál: Friðþjófur Þorkelsson þakkar fyrir nýtt hringgerði. Þórhildur Þórhallsdóttir bendir á að þetta sé framtak hesthúseigendadeildarinnar. Einar Ragnarsson tók til máls og þakkaði samstarfsfólki sínu og óskaði nýrri stjórn alls góðs. Hreinn Ólafsson spyr hvort ekki sé hægt að hafa opið hús um helgar með kaffisölu. Þórhildur svarar því til að undanfarin ár hafi það lítið verið notað þegar þetta hefur verið reynt og því ekki rekstargrundvöllur fyrir því. Bendir félagsmönnum á ýmsa hluti sem eru til sölu á fundinum. Ekki fleira á dagskrá, fundi slitið. Hestahúseigendadeild hestamannafélagsins Harðar Formaður flytur skýrslu stjórnar (fylgiskjal 5). Fer yfir helstu framkvæmdir sem felast aðallega í viðhaldi á eignum á svæðinu. 76% eigenda hesthúsa óskaði eftir því að hitaveita yrði leidd í húsin. Bæjarstjórn hefur ekki svarað erindi um málefnið. Endurnýjun lóðaleigusamninga er í höfn og hvetur formaður eigendur til að endurnýja samninga sína hið fyrsta. Bréfið hefur þegar borist frá bænum. Eigendur þurfa að ganga frá eignaskiptasamning áður en skrifað verður undir nýjan samning. Formaður skorar á hesthúseigendur að sýna samstöðu og halda áfram að greiða félagsgjöld. Kostningar: Rúnar Sigurpálsson og Gígja Magnúsdóttir gefa ekki kost á sér. Aðalstjórn: Marteinn Hjaltested, Sölvi Sigurðarson, Hinrik Gylfason og Birgir Hólm. Varastjórn: Herdís Hjaltadóttir og Óli Antonsson Fundi slitið. Fylgiskjal 1 Stjórn félagsins á þessu starfsári var skipuð eftirfarandi: Þórhildur Þórhallsdóttir formaður Einar Ragnarsson varaformaður Edda Ragna Davíðsdóttir gjaldkeri Álfhildur Leifsdóttir meðstjórnandi Þorvaldur J. Kristinsson meðstjórnandi Halldór Guðjónsson meðstjórnandi Jóhann Þór Jóhannsson Til vara: Pétur Jónsson ritari Haukur Þorvaldsson Ragnheiður Þórólfsdóttir Helstu störf stjórnar á starfsárinu: Margvísleg mál er vörðuðu skipulag á afnotasvæðum hestamanna komu til kasta stjórnar á árinu. Þau helstu voru breytingar á deiliskipulagi Tungubakka, skipulag á Blikastaðanesi, og óskir okkar um deiliskipulag félagssvæðisins. Hér verður ferli þessara mála rakið stuttlega. Tungubakkar. Í tengslum við vaxandi umsvif fótboltans á Tungubökkum kom meðal annars upp sú hugmynd að leyfa akstur í gegnum hesthúsahverfi Harðar og út á og að fótboltavöllunum á Tungubökkum. Þetta var hugsað til að auðvelda þeim sem stunda fótbolta á Tungubökkum aðgegni að svæðinu. Þessu mótmæltum við og bentum á mikla slysahættu sem yrði þessu samfara, hér er vaxandi hestaumferð á sumrin auk þess að hér á svæðinu eru reknir tveir sumarreiðskólar og ljóst að aukin bílaumferð kæmi sér afar illa fyrir þeirra starfsemi. Að auki hefði þetta í för með sér átroðning á svæðinu sem það vart þolir, enda hefur viðhaldi gatna lítt verið sinnt og sumar í engu ástandi til að taka við bílaumferð. Sem betur fer hlutu ábendingar okkar góðan hljómgrunn skipulagnefndar Mosfellsbæjar og var fallið frá þessum hugmyndum. Þó er ljóst að við verðum að halda vöku okkar og fá að hafa hönd í bagga þegar frekari áætlanir verða gerðar varðandi Tungubakkana svo ekki komi til óþarfa árekstra milli hestaíþróttarinnar og fótboltans. Skipulag á Blikastaðanesi. Forsvarsmenn golfklúbbsins Kjalar höfðu samband við stjórn hestamannafélagsins og fóru þess á leit við okkur að við tækjum þátt í að móta tillögur að skipulagi Blikastaðaness og fyndum góða leið til þess að hagsmunum beggja íþróttanna yrði sem best borgið á svæðinu. Það er skemmst frá því að segja að samstarfið við golfklúbbinn gekk með afbrigðum vel. Einkar ánægjulegt var að finna í reynd að ef viljinn er fyrir hendi þá er lítið mál fyrir íþróttafélög að vinna saman að því markmiði að samnýta útivistar- og íþróttasvæði þar sem ein íþrótt útilokar ekki aðra. Við skipulag svæðisins var fyrst og fremst gegnið út frá öryggissjónarmiðum og þannig tókst að finna lausn sem er afar ásættanleg fyrir bæði félögin. Endanlegt skipulag svæðisins er vissulega í höndum skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, en okkur skilst að hún hafi ekki haft mikið út á tillögur félaganna að setja. Deiliskipulag félagssvæðis Harðar. Félagið fór á árinu fram á að félagsvæðið yrði deiliskipulagt og þar gert ráð fyrir auknum fjölda hesthúsa og einnig að gert yrði ráð fyrir reiðhöll á svæðinu. Afgreiðsla skipulagsnefndar Mosfellsbæjar var á þá leið að samþykkt var stækkun hverfisins samkvæmt aðalskipulagi en reiðhöll ekki samþykkt þar sem ekki væri gert ráð fyrir henni á aðalskipulagi. Niðurstaðan verður að teljast áfall fyrir framgang hestaíþróttarinnar í Mosfellsbæ enda inniaðstaða til æfinga og kennslu orðin krafa og nauðsyn í nútíma hestaíþróttum. Þess utan er mikill áhugi innan félagsins á frumkvöðlastarfi á sviði reiðþjálfunar fatlaðra sem ekki er mögulegt að hrinda í framkvæmd nema til komi góð inniaðstaða. Við höfum rætt þetta mál ítrekað við ráðamenn bæjarins og höfum fært fyrir því margvísleg rök að afar erfitt sé fyrir okkur að sætta okkur við þessa niðurstöðu og við getum ekki annað en vonað að sú röksemdafærsla fái einhvern hljómgrunn. Þátttaka á þingum og fundum. Ársþing UMSK. Aðildarfélög UMSK skiptast á að halda ársþingið og á árinu var komið að Herði að sjá um þingið. Við skoruðumst vissulega ekki undan því og þann 13. febrúar var þingið haldið hér í Harðarbóli en þess ber að geta að bæjarstjórn styrkti okkur þannig að þinghaldið yrði ekki fjárhagsbaggi á félaginu og er það vel. Á þinginu var nokkur umræðu um þá ábyrg sem forsvarsmenn félaga bera á rekstri félaga sinna og sú umræða er þörf en forsvarsmenn félaga neyðast til að vera í allskyns ábyrgðum, meðal annars fjárhagsábyrgðum sem gera það ennþá mikilvægara að vel sé staðið að rekstri félaganna. Nokkur umræða varð einnig um það hvort aðildarfélögin hefðu beina aðild að UMFÍ sem hefði í för með sér að UMSK yrði lagt niður og var ákveðið að það mál yrði skoðað í framhaldinu. Formannafundur LH. Þing Landsambandsins eru nú haldin á tveggja ára fresti og á milli þeirra eru haldnir formannafundir þar sem formenn félaganna koma saman og fara yfir stöðu mála er varða LH og aðildarfélögin. Nú hefur fyrsti fundurinn af þessu tagi verið haldinn og þótti takast með ágætum. Fram kom að fjárhagsstaða LH fer stöðugt batnandi og er ánægjulegt að sjá hversu hratt hefur tekist að færa þau mál í mun betra horf. Á fundinum var meðal annars kynnt nýtt tölvukerfi til notkunar á mótum en það mun verða tilbúið fyrir næsta keppnistímabil. Kerfið virðist vera einkar vel heppnað og mun auðvelda til muna skráningu og framkvæmd móta auk þess að með tilkomu þess mun verða til gagnabanki um gengi knapa og hesta á einum stað sem er til mikilla bóta. Nauðsynlegt er fyrir félögin að koma því vel til skila að félagaskrár þurfa að vera réttar og tilbúnar í byrjun árs og eins þurfa öll hross að vera grunnskráð til að hægt sé að skrá hross til keppni. Á fundinum var einnig kynnt kennsluefni til notkunar við reiðkennslu þar sem skilgreind eru ákveðin viðmið til að nota við hvert kennslustig. Kerfið kallast knapamerkjakerfi og mun án efa bæði auðvelda reiðkennslu og gera hana skilvirkari. Þarna hefur einnig opnast fyrir möguleikann til að innlima reiðkennslu inn í skólastarf grunnskóla og framhaldsskóla og er afar spennandi að sjá hvernig skólastjórnendur munu taka þessum möguleika. Afar margt fróðlegt og athyglisvert var rætt á þessum fundi sem ekki er hægt að rekja hér en áhugasamir geta kynnt sér nánar. Formannafundur félaganna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Formaður Fáks boðaði formenn til sín nú á haustdögum til að ræða ýmis mál sem varða félögin. Fram kom á fundinum vaxandi áhugi á sameiginlegu mótahaldi, en flestir voru sammála um að tímabært væri að brydda upp á nýjungum varðandi mótahald og leita leiða til að minnka kostnað við mótahald. Greinilegt er að mismunandi er milli félaga hvernig tekist hefur til við að láta mót standa undir sér og vegur þar þungt aðstæður félaganna, til dæmis hvort þau hafa tök á að hafa tekjur af veitingasölu og fleiru því tengdu. Einnig var mál manna að gaman væri að koma á meiri liðakeppni milli félaga en slíkt væri vel til fallið til að auka stemmningu og spennu í keppni. Mikil umræða varð um reiðvegamál og nauðsyn þess að félögin hefðu enn meira samstarf á því sviði enda reiðvegatengingar milli svæða mikið hagsmunamál allra. Fundarfólk var sammála um að nauðsynlegt væri að halda reglulega fundi sem þennan til að efla samstarf milli félaga og einnig til að skiptast á hugmyndum og var ákveðið að hafa framhald á þessu. Fundir með íþrótta- og tómstundanefnd og íþróttafulltrúa. Íþrótta- og tómstundanefnd ásamt íþróttafulltrúa boðaði forsvarmenn félagsins til fundar við sig þar sem okkur gafst tækifæri til að kynna starfsemi félagsins og einnig að koma á framfæri áríðandi málum. Nýttum við þetta tækifæri vel og áttum góðan fund með nefndinni. Einnig var félagið boðað á kynningarfund varðandi fyrirmyndarfélag ÍSÍ og kom fram að hvatning frá nefndinni til félaganna að fara sem fyrst í nauðsynlegan undirbúning til að gera félagið að fyrirmyndarfélagi. Fram kom að félagið hefur nú þegar farið í gegnum ítarlega markmiðsetningu og SVÓT greiningu sem mun auðvelda félaginu að gerast fyrirmyndarfélag. Ljóst er að vaxandi krafa er um að félögin geri þetta og ættum við ekki að skorast undan því. Litla hestahandbókin og störf fjáröflunarnefndar. Í haust stóð félagið að útgáfu veglegrar bókar sem er fræðslurit fyrir hestamenn en bók af þessu tagi hefur ekki verið til fram að þessu þrátt fyrir mikla þörf á slíku efni. Veg og vanda að þessu framtaki á Konráð Adolphsson í fjáröflunarnefnd en hann hefur með ótrúlegum dugnaði sínum og krafti gert þessa bók að veruleika. Konráð fékk Huldu G. Geirsdóttur til að stýra verkinu og semja texta bókarinnar og var það einstaklega vel til fundið og bókin vitnar í alla staði um frábær vinnubrögð hennar og þekkingu á málefninu. Konráð lagði á það áherslu í upphafi að útgáfan yrði ekki fjárhagsbaggi á félaginu og honum tókst að það ætlunarverk sitt en bókin er alfarið kostuð með styrkjum og auglýsingum. Fyrir hönd félagsins óska ég Konráði til hamingju með þetta og þakka honum fyrir frábær og einstök störf. Ég vil einnig fá að minnast á Fjölskyldudag Harðar sem Konráð og fjáröflunarnefnd stóðu einnig fyrir. Þarna var um stórhuga nýbreytni að ræða í félagslífinu þar sem félagsmönnum og bæjarbúum öllum var boðið til veislu og margháttaðrar skemmtunar hér í Harðarbóli og var yfirskriftin sú að kynna hestamennsku í Mosfellsbæ sem holla og heilbrigða fjölskylduíþrótt. Dagurinn tókst með miklum ágætum og skemmtu gestir sér konunglega og ég efast ekki um að uppátækið hefur skilað sér í bættri ímynd hestamannafélagsins gagnvart þeim sem tóku þátt í deginum með okkur. Jólahlaðborð kvenna- og karlakvöld og aðrar skemmtanir. Þær raddir hafa ítrekað heyrst að lítið sé um að vera í skemmtanalífi félagsins. Vert er að ræða þetta stuttlega. Undanfarin ár hafa áður vinsæl skemmtikvöld eins og kvenna og karlakvöld og svokölluð bjórkvöld verið lítt sótt og reyndar í sumum tilfellum ekkert sótt. Þrátt fyrir þetta augljósa áhugaleysi félagsmanna á skemmtunum sem þessum hafa gagnrýnisraddir ekki hljóðnað. Í byrjun starfsársins var ákveðið að reyna að brydda upp á nýjung og bjóða upp á stórglæsilegt jólahlaðborð og fengnir til verksins meistarakokkar Humarhússins. Það er skemmst frá því að segja að á þennan viðburð tókst með harmkvælum að draga 35 manns. Af þessu öllu hefur stjórn dregið þann lærdóm að engin forsenda er fyrir kvöldum sem þessum, að minnsta kosti ekki í bili. Stjórn félagsins vísar hinsvegar á bug öllu tali um að dauft sé yfir félaginu og lítið að gerast. Barna og unglingastarf er öflugt sem aldrei fyrr, heilmikið fræðslustarf hefur verið í boði, ferðanefnd hefur staðið fyrir geysivinsælum styttri ferðum og mótanefnd hefur haldið hér vel heppnuð mót, meðal annars Íslandsmót yngri flokka. Hér er bara fátt eitt talið af því starfi sem er í gangi í félaginu og af þessu má sjá að síður en svo er dauft yfir félaginu. Staðreyndin er sú að langflestir félagsmanna stunda hestaíþróttina sem fjölskyldusport og hafa lítinn áhuga á að innvinkla næturlíf inní þá ástundun. Þetta er auðvitað fyllilega í takt við þá breyttu ímynd hestamennskunnar sem orðið hefur á undanförnum einum til tveimur áratugum og er það bara af hinu hinu góða. Það er þó ein rækileg undantekning á þessu og hún er frábær mæting ár eftir ár á glæsilega og skemmtilega árshátíð Harðar og ég held ég tali fyrir munn allra þegar ég segi að ég vona að áhugaleysið muni aldrei ná yfir hana. Top - Reiter Íslandsmót yngri flokka á Varmárbökkum. Félagið tók að sér að halda íslandsmót yngri flokka í sumar og komu að því verki æskulýðsnefnd, mótanefnd, stjórn og fjöldamargir aðilar í félaginu aðrir. Mótið heppnaðist með eindæmum vel, skipulag allt til fyrirmyndar og mótið í heild sinni félaginu til sóma. Aðstandendum mótsins er hér með þakkað fyrir frábær störf og óskað til hamingju með framkvæmdina. Nýjir lóðaleigusamningar Hesthúseigendadeildin hefur unnið ötullega að því að tryggja félaginu nýja lóðaleigusamninga og eru þeir nú í höfn. Nýjir samningar stórbæta stöðu hesthúseigenda á svæðinu og er sérlega ánægjulegt að þetta mikla hagsmunamál sé loksins komið í gott horf. Stjórnin vill fyrir hönd félagsins þakka hesthúseigendadeildinni kærlega fyrir. Opnir félagsfundir. Þann 8. maí var haldinn opinn félagsfundur í Harðarbóli þar sem farið var yfir stöðu helstu mála varðandi félagið og þau rædd. Hugmyndin var sú að gefa félagsmönnum færi á að heyra frá fyrstu hendi hvað væri að gerast í félagsmálunum og veita fólki tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. Á fundinn mættu einungis um 10 manns og var það miður. Dagskrá Harðar Á árinu var bryddað upp á þeirri nýbreytni að gefa dagskrá félagsins út á veggspjaldi sem síðan var borið í hús. Framtakið mæltist vel fyrir þó nokkuð bæri á óánægju með óhjákvæmilegar breytingar sem urðu á einstökum dagskrárliðum. Sennilega er illmögulegt að koma að öllu leiti í veg fyrir að dagskráráætlun sem þessi taki einhverjum breytingum frá því hún er samin og þar til kemur að framkvæmd einstakra liða. Þetta ætti þó að vera til þæginda fyrir félagsmenn og jafnframt nokkurt aðhald fyrir nefndir til að standast áætlanir. Endurnýjun í félaginu Svo virðist sem nokkur endurnýjun sé að verða á félagssvæðinu og mikið er um nýtt fólk sem stundar hestamennsku hér í bænum. Við viljum hvetja alla til að bjóða nýtt fólk velkomið,benda því á að skrá sig í félagið og taka þátt í gróskumiklu starfi okkar. Mikilvægt er að þeir sem stunda hér hestamennsku styðji við starf félagsins með því að vera meðlimir og taki þannig þátt í að tryggja hagsmuni okkar hér í bænum. Fylgiskjal 2 Reikningar 2002 – væntanlegt síðar Fylgiskjal 3 Milliuppgjör – væntanlegt síðar Fylgiskjal 4 LH þing – tillaga stjórnar Aðalmenn: Eysteinn Leifsson, Halldór Guðjónsson, Guðni Indriðason, Þröstur Karlsson, Marteinn Magnússon og Rafn Jónsson Varamenn: Kolbrún Haraldsdóttir, Jóhann Þór Jóhannsson og Guðjón Magnússon Fylgiskjal 5 Skýrsla hesthúseigendadeildar Harðar fyrir árið 2003 Stjórnina skipuðu : Gígja Magnúsdóttir, Marteinn Hjaltested, Birgir Hólm, Sölvi Sigurðarson og Rúnar Sigurpálsson. Varamenn: Herdís Hjaltadóttir og Hinrik Gylfason. Þrír formlegir fundir hafa verið haldnir á árinu 2003 og nokkuð margir óformlegir. Gígja tók að sér að halda utan um peningamálinn áfram. Lítils háttar vanskil eru á félagsgjöldum 4 aðilar eru í skuld fyrir árið 2002 en fyrri árgjöld eru öll greidd. Framkvæmdir á árinu: Áskorun aðalfundar um kaup á hringgerði, svokölluðu Fiffagerði lá fyrir í upphafi árs og ráðist var í kaupin í sumar. Jarðvegsskipt var í báðum hringgerðunum, borið ofan í kerru stæði og lagað planið við ánna. Einnig gert við timburverk og hlið í hringgerðum og smíða nýtt hlið í sjúkragerði. Auglýsingatöflur endurreistar og bættar. Hitaveitumálið: Marteinn, Hinrik og Sölvi hafa séð um framkvæmd mála. Í upphafi árs var öllum eigendum sent bréf, þar sem vitað var að 60 % eigenda þyrftu að skuldbinda sig til að taka inn hitaveitu til að ráðist yrði í framkvæmdir. Eigendur voru hvattir til að svara hvort heldur væri já eða nei en sökum þess hve litlar undirtektir þeir fengu er enn ekki komin niðurstaða. Fundað var með bæjarstjóra og byggingarfulltrúa um stöðu mála í hverfinu og lóðaleigu samninga. Skemmst er frá því að segja að það fram kom hjá bæjarstjóra að engar fjárveitingar yrðu til gatnagerðar, lýsingar og fleira á yfirstandandi fjárhagsári til hesthúsahverfisins. Kvaðst hún ætla að taka þessi málefni til athugunar við gerð næstu fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar. Bíðum við nú spennt og lifum í voninni um að það verði jafn skörunglega á málum tekið og sjá má á samningu vegna stækkunar golfvallarins. Ekki væri úr vegi að koma endurnýjun gatna inn i samninginn við Verktakann og komast þannig hjá því að aðrir skattgreiðendur átti sig á kostnaðinum. Til hamingju golfarar. Rétt er að hafa það til athugunar að hesthúseigendur hafa bæði greitt full lóðagjöld þegar þeir fengu úthlutað var gjaldskráin þá miðuð við rúmmetragjald á iðnaðarhúsnæði í Reykjavík þar sem lóð fylgir malbikuð gata, lýsing og fleira. Af húseigninni eru síðan greidd fasteignagjöld til bæjarins. Álagninginn samsvarar álagningu íbúðarhúsnæðis. Bæjarstjóri var spurður hver væru álögð gjöld og í hvað þau færu. Hún hefur ekki svarað enn hver álögð gjöld væru en sagði að skatttekjur færu í sameiginlegan sjóð. Lóðarleigusamningarnir sem velflestir voru útrunnir og löngu tímabært var að endurnýja, sem höfðu árum saman þvælst á borðum embættismanna bæjarins og fyrrverandi meirihluti hafði lofað hér á stórum fundi að kippa í liðinn eru nú loksins í höfn, þökk sé núverandi bæjarstjóra. Af lóðamálum og fyrirhugaðri stækkun hverfisins er það að segja að þau mál hafa ekki farið í þá skipulagsvinnu sem til þarf og má segja að staðan sé sú að þetta hafi bara verið hugmyndir og því hvergi til stafkrókur um það hjá bæjarfélaginu. Rétt er að taka það fram að þegar hesthúseigendur hafa endurnýjað lóðaleigusamning sinn við bæjarfélagið ber þeim ekki lengur skilda til að vera aðilar að hesthúseigandafélaginu eða réttara sagt ekki skyldugir til að greiða félagsgjaldið og þá reynir á samstöðu okkar og samheldni. Það verður að koma í ljós hvort einhverjir skorast undan því að greiða því að víst er að við verðum að afla fjár til viðhalds eignum þeim sem við nú eigum hér sameiginlega í hverfinu. Takist það ekki verða þær fljótlega ónothæfar og til mikillar óprýði. Einnig er rétt að benda á það að í nýjum leigusamningi kemur fram ótvíræður réttur til bót ef húsin þurfa að víkja og því mikilvægt að hverfið í heild sinni haldi verðgildi sínu. Innistæða á 100292 kr. 397.342.- Innistæða á 2919 kr. 94.168.- 491.510.- Útgjöld á árinu 2003 Hringgerði kr. 355.261.- Viðgerð á tamningagerðum, jarðvinnsla og efni kr. 440.000.- Viðgerð á tamingagerði, vinna og efni og hlið á Sjúkragerði kr. 19.600.- 25. 465.- Auglýsingarskilti, efni og vinna kr. 16.205.- Þrír í skuld með félagsgjöld Útgjöld samtals kr. 856.531.-