Ársskýrsla fræðslunefndar 2025
- Nánar
- Skrifað þann Miðvikudagur, október 29 2025 19:47
- Skrifað af Sonja
Markmið fræðslunefndar að stuðla að fjölbreyttri fræðslu fyrir félagsmenn og þannig að efla hestamennskuna á faglegan hátt.
Fræðslunefnd var með öðrum hætti en undanfarin misseri þar sem ekki var starfandi eiginleg fræðslunefnd innan félagsins. Yfirreiðkennari Harðar tók að sér að halda utan um almenna fræðslu í samvinnu við Sonju Noack starfsmann félagsins.
Nýtt og spennandi starf fór af stað veturinn 2025 en þá tók hópur af fulltrúum fræðslunefnda hestamannafélagana á höfuðborgarsvæðinu (Hörður, Sprettur, Fákur og Sörli) sig saman og stofnaði sameiginlega fræðslunefnd fyrir þessi félög. Markmiðið var að sameina fræðsluviðburði, safna fleira fólki saman og efla samheldni og samstarf milli félaganna. Þetta samstarf mun halda áfram og markmiðið er að standa að ákveðnum fjölda viðburða á ári í sameiningu og halda áfram að stækka og efla þetta samstarf.
Viðburðir á vegum sameiginlegra fræðslunefnda á höfuðborgarsvæðinu:
21.nóvember 2024 Hvað ungur nemur gamall temur
Sýnikennsla með Sigvalda Lárusi Guðmundssyni
17.febrúar 2025 Knapaþjálfun
Fyrirlestur með Bergrúnu Ingólfsdóttur
Hefðbundin námskeið fóru af stað í janúar með einhverjum skemmtilegum nýjum viðbótum. Opnir æfingatímar voru haldnir fyrir öll vetrarmótin þar sem knöpum var frjálst að mæta innan ákveðinna tímamarka og fá aðstoð frá reiðkennara þeim að kostnaðarlausu. Þessa nýjung var vel tekið í og var vel nýtt meðal félagsmanna. Farið var af stað með keppnisnámskeið fyrir fullorðna sem var vel sótt og eins var boðið upp á sérstakt ásetunámskeið.
Námskeið á vegum Harðar veturinn 2025:
- Leiðtogafærni og samspil kennt af Ragnheiði Þorvaldsdóttur. Námskeiðið var upprunalega sex skipti en var svo framlengt um fjögur skipti að ósk nemenda. Kennsla hófst 28.janúar og var kennt í formi 45 mínútna hóptíma.
- Vinna í hendi námskeið var haldið í Blíðubakkahúsinu og var kennt aðra hverja viku. Kennari var Ingunn Birna Ingólfsdóttir en námskeiðið var sex skipti og hófst 16.janúar.
- Ásetunámskeið var haldið í fyrsta skipti í Blíðubakkahúsinu en það var sex skipti kennt aðra hvora viku. Kennari var Thelma Rut Davíðsdóttir og hófst námskeiðið 23.janúar.
- Kvennatölts hópur var á sínum stað kenndur af Ingunni Birnu Ingólfsdóttur. Námskeiðið var sex skipti og hófst 30. Janúar.
- Keppnisnámskeið fullorðinna hóf göngu sína en námskeiðið var átta skipti kennt vikulega í formi 30 mínútna einkatíma. Kennari var Ylfa Guðrún Svafarsdóttir en námskeiðið var svo framlengt um sex skipti að ósk nemenda.
- Knapamerkin voru svo á sínum stað en á þessu misseri var kennt verklegt knapamerki 1, 2, 3 og 4. Knapamerki 1 og 4 var kennt af Thelmu Rut Davíðsdóttur, Knapamerki 2 af Sonju Noack og Knapamerki 3 af Ragnheiði Þorvaldsdóttur.
- Einkatímapakkar voru í boði en þá geta nemendur keypt fimm einkatíma sem kenndir eru í Blíðubakkahúsinu með kennara að eigin vali. Þeir kennarar sem stóðu nemendum til boðanna voru Thelma Rut Davíðsdóttir, Ingunn Birna Ingólfsdóttir, Sonja Noack, Ragnheiður Þorvaldsdóttir og Fredrica Fagerlund.
- Einkatímapakkar með Antoni Páli Níelssyni voru í boði frá desember og reglulega fram í maí. Nemendur keypti þá tvo 45 mínútna einkatíma í hvert sinn og höfðu reiðkennarar félagsins forgang á þetta námskeið en lausir tímar fóru svo í opna sölu. Stefnt er á að breyta fyrirkomulagi skráningar á þetta námskeið á komandi tímabili í samráði við stjórn félagsins.
Helgarnámskeið á vegum félagsins veturinn 2025
- Endurmenntun reiðkennara með Mette Mannseth. Hestamannafélagið Hörður stóð fyrir endurmenntun reiðkennara 10.-12.janúar 2025 í samstarfi við Mette Mannseth. Námskeiðið fór eftir kröfum FEIF um endurmenntun reiðkennara en aðeins útskrifaðir reiðkennarar höfðu aðgang að þessu námskeiði. Við erum stolt að geta stutt við bak reiðkennara félagsins sem og reiðkennara almennt sem stuðlar að betri kennslu fyrir félagsmenn og kennslu almennt. Námskeiðið voru þrír dagar og byrjuðu á fyrirlestri á föstudagskvöldinu og verkleg kennsla fór fram í reiðhöll Harðar á laugardegi og sunnudegi.
- Undirbúningur fyrir Gæðingalist með Fredricu Fagerlund. Helgina 8.-9. Febrúar var haldið helgarnámskeið í gæðingalist í formi tveggja 45 mínútna einkatíma í reiðhöll Harðar.
- Knapaþjálfun með Bergrúnu Ingólfs. Stefnt var á að halda knapaþjálfunar námskeið með Bergrúnu 22.-23. Febrúar í kjölfar fyrirlesturs 17.febrúar en vegna dræmrar skráningar var það námskeið fellt niður.
Aðrir viðburðir á vegum fræðslunefndar
- Hvað eru dómarar að hugsa? Fyrirlestur var haldin þann 30.apríl með þeim Svafari Magnússyni og Halldóri Victorssyni dómurum til að gefa keppendum og áhugafólki um keppni betri innsýn inn í dómsstörf í íþróttakeppni. Fyrirlesturinn stóð í tvo klukkutíma og var ágætlega sóttur.
Fræðslunefnd þakkar félagsmönnum liðið tímabil og vinnur nú að fleiri skemmtilegum og fræðandi námskeiðum og fræðsluefni fyrir komandi tímabil.
Nefndin tekur fagnandi tillögum og/eða óskum félagsmanna um tiltekna fræðslu og á sama tíma bíður áhugasama félagsmenn velkomna í Fræðslunefnd!
Thelma Rut Davíðsdóttir
Yfirreiðkennari













