Fréttir af framkvæmdum.
- Nánar
- Skrifað þann Laugardagur, október 19 2019 14:54
- Skrifað af Sonja
Harðarból:
Ný lýsing var sett í eldri hluta hússins. Gamli þakhlutinn var málaður og búið er að mála allan salinn og gluggana í eldri hlutanum. Einnig var anddyrið og salernin máluð. Steypt var stétt við húsið austanvert og byggð skjólgirðing fyrir ruslatunnur og grillið.
Reiðhöllin:
Reiðhöllin var háþrýstiþrifin í sumar og nýtt hitakerfi sett undir áhorfendabekkina. Verið er að byggja yfir sjoppuna og hún gerð vatns- og músaheld. Búið er að fá tilboð í vökvakerfi og verður það sett upp á næstu vikum. Í framhaldinu verða settir speglar á battana, svo að knapar geti séð sjálfa sig og ganglag hestsins.
Reiðleiðir:
Blikastaðaneshringurinn var lagfærður, sem og Tungubakkahringurinn. Leiðin frá brúnni að Fitjum að Varmadalsbrúnni var lagfærður og nýr vegur gerður í brekkuna fyrir ofan Varmadalsbrúna að Ístaki. Stærsta framkvæmdin var lagfæring undir brúna við Köldukvísl. Árfarvegurinn dýpkaður og lagfærðir árbakkarnir, ræsið stækkað og lagfært. Er það von okkar að með þessu verði komið í veg fyrir skemmdir eða amk að skemmdir verði í lágmarki þegar árin ryður sig næsta vor. Einnig var reiðleiðin á vesturbakka árinnar að vaðinu, lagfærð. Reiðleiðin undir Varmárbrúna var einnig lagfærð, árbakkar byggðir upp og reiðleiðin frá Varmárbrúnni að vaðinu við Köldukvísl var lagfærð, sem og vaðið við trébrúna yfir Köldukvísl.
Skeiðvöllurinn:
10 cm lag af vikri var keyrt í völlinn og grófjafnaður. Á næstunni verður völlurinn heflaður og saltborinn, en með því á að binda efnið betur. Okkur var ráðlagt að gera þetta að hausti og leyfa yfirborðinu að setjast vel yfir veturinn.
Að þessu sinni var framkvæmdum stjórnað af hestamannafélaginu og greitt af úthlutuðu reiðvegafé frá Mosfellsbæ og er það mat stjórnar að framkvæmdin hafi verið til mikilla bóta og á Rúnar framkvæmdastjóri félagsins miklar þakkir skildar, en hann hefur stjórnað framkvæmdum félagsins af mikilli útsjónarsemi og röggsemi.
Mosfellsbær lagði fræs frá enda reiðhallarinnar við Harðarból og að gámnum og eins var lagt fræs á veginn milli efra og neðra hverfisins.
Nýtt deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt á fundi skiplagsnefndar Mosfellsbæjar, en skipulagið hafði verið kynnt á félagsfundi Harðar í byrjun október.
Í 1. áfanga, verður úthlutað lóðum undir 3 hesthúsalengjur austast í hverfinu, nýtt svæði undir rúllubagga og Trek braut þar sem rúllubaggastæðið er núna.
Stjórnin