- Nánar
-
Skrifað þann Fimmtudagur, nóvember 14 2019 23:04
-
Skrifað af Sonja
Ársskýrsla Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum í Mosfellsbæ 2018
Í stjórn Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum 2018 sátu:
Júlíus Ármann formaður
Þóra A. Sigmundsdóttir gjaldkeri
Björk Magnúsdóttir ritari
Herdís Hjaltadóttir meðstjórnandi
Ragnheiður Traustadóttir tilnefnd af stjórn Harðar
Kjörinn endurskoðandi: Erna Arnardóttir
Tilgangur félagsins er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna hvað varðar hesthús á svæðinu og stuðla að ýmsum félagslegum umbótum. Í samningi Mosfellsbæjar og Félags hesthúsaeigenda á Varmárbökkum frá 5. nóvember 2001 kemur fram að félagið hafi áfram til ársins 2023 réttindi sem lóðarhafi að sameiginlegu svæði hesthúsaeigenda á Varmárbökkum til sameiginlegra þarfa þeirra. Forsenda fyrir úthlutun svæðisins til félagsins er að félagið standi opið öllum hesthúsaeigendum á svæðinu og þeir geti nýtt alla aðstöðu á svæðinu eins og um sameign þeirra sé að ræða á grundvelli hliðstæðra reglna og kveðið er á um í lögum um fjöleignarhús, enda skulu þeir vera félagar í Félagi hesthúsaeigenda. Félagið skuldbindur sig til þess að hafa eftirlit með því að hesthúseigendur fullnægi skilmálum um umgengni og þrifnað í hesthúsahverfinu. Enn fremur að ef félagsmenn verði ekki við tilmælum félagsins um umgengni, skuli félagið leita til bæjarins, sem þá skal beita tiltækum úrræðum til bóta. Gegn þessum skilmálum greiðir félagið ekki lóðarleigu til Mosfellsbæjar. Í lögum félagsins segir að tilgangur þess sé að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna hvað varðar hesthúsin, skipulag og umgengni, þannig að snyrtimennska og menningarbragur ráði þar ríkjum á öllum sviðum. Enn fremur að stuðla að ýmsum félagslegum umbótum, s.s. bað- og sjúkraaðstöðu fyrir hross félagsmanna, lýsingu svæðisins, lagfæringar á bíl- og reiðvegum og annað sem félagsmenn telja nauðsynlegt til uppbyggingar svæðisins.
Haldnir voru þrír stjórnarfundir á starfsárinu og voru störf stjórnar með hefðbundnu sniði. Stjórnin fór í vettvangsferð um hesthúsahverfið og unnið var að viðhaldi á hringgerðum og snyrtingu á trjágróðri á svæðinu. Þá sátu stjórnarmenn stefnumótafund sem Hestamannafélagið hélt í apríl þar sem fjallað var um skipulags- og umhverfismál og innra starf félagsins. Farið var yfir hesthúseigendaskrá vegna innheimtu félagsgjalda fyrir árið 2019 í samræmi við þá ákvörðun að innheimta aðeins eitt gjald fyrir hvert hesthús. Fengin var uppfærð eignaskrá hjá Þjóðskrá Íslands sem innheimtulisti var unnin eftir.
Júlíus Ármann formaður
- Nánar
-
Skrifað þann Fimmtudagur, nóvember 14 2019 23:01
-
Skrifað af Sonja
Starfsemi Fræðslunefndar fatlaðra 2018-2019.
Reiðskólinn fór af stað á haustönn með10 vikna námskeiðum en eftir áramót voru námskeiðunum skipt upp í 2 x 8 vikna námskeið. Í hverri viku voru haldin fimm námskeið og er hámarksfjöldi þátttakenda fimm á hverju námskeiði.
Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel í og eru þó nokkuð margir sem sækja námskeiðin allan veturinn.
Þrátt fyrir umfram eftirspurn í gegnum tíðina, þá hefur ekki verið fullbókað á öll reiðnámskeiðin, svo var einnig nú. Ástæðuna má rekja annars vegar til þess að sumir dagar eru vinsælli en aðrir og því þurftu nokkrir frá að hverfa. Hins vegar kom upp atvik þar sem tveir nemendur þurftu að hætta á miðju námskeiði vegna veikinda. Nýtingin var hins vegar mjög góð þar sem við fækkuðum námskeiðsdögum um einn og lækkuðum þar með rekstrarkostnað á móti.
Þegar líða fór á vorið bættist við stutt 4ja vikna námskeið fyrir unga nemendur í grunnskóla.
Töluvert var af nýjum nemendum sérstaklega á aldrinum 8 – 14 ára, einnig bættust við í hópinn tveir eldri nemendur sem glíma við fötlun í kjölfar sjúkdóma eða áfalla á lífsleiðinni.
Nú í haust munum við í fyrsta skipti hafa tækifæri til að raða nemendum niður eftir aldri og getu, það verður spennandi að sjá árangurinn af því.
Á vorönn var lögð áhersla á að veita reiðkennslu eftir þörfum hvers og eins og reyna að auka markvisst við hreyfigetu og sjálfsöryggi á baki og fengu sumir t.d. að prófa hringteymingar og ásetuæfingar á baug. Einnig var notast við brokkspírur og hefðbundinn tól og tæki til að auka við hreyfigetu á baki og stjórn á hesti. Það var ánægjulegt að sjá árangur af starfinu eftir veturinn hjá sumum einstaklingum.
Sjálfboðaliðastarfið:
Við erum í góðu samstarfi við grunnskólana í Mosfellsbæ, sem hafa auglýst sjálfboðaliðstarfið með okkur og boðið nemendum sínum að fá sjálfboðaliðastarfið metið sem valgrein. Þátttaka ungra sjálfboðaliða er því afar góð. Hins vegar vildi svo óheppilega til að stundaskrá nemenda í FMOS rakst saman við reiðnámskeið fatlaðra og því misstum við nokkra sjálfboðaliða eftir áramót, en það stendur nú til bóta. Hins vegar fjölgaði í hópi fullorðna sjálfboðaliða og styrktist því hópurinn.
Við leggjum áherslu á að á hverju námskeiði séu að lágmarki 3 fullorðnir ásamt yngri sjálfboðaliðum. Á hverju námskeiði þarf um og yfir 8 manns og því eru sjálfboðaliðar okkur afar mikilvægir til þess að halda úti starfinu.
Á starfsárinu vorum við með fjögur sjálfboðaliðakvöld. Við lögðum áherslu á að nýta þessi kvöld til þess að þétta hópinn. Haldin voru Pizzakvöld, pylsupartí og kaffi, þar sem farið var í skemmtilega leiki en um leið var farið yfir hið mikilvæga hlutverk sjálfboðaliða á námskeiðunum. Svo virtist sem allir höfðu gagn og gaman af.
Við þökkuðum sjálfboðaliðunum einnig fyrir þeirra frábæra starf með því að leysa þá út með gjöfum. Sjálfboðaliðar haustannar voru leystir út með jólagjöfum og veitti Rúmfatalagerinn okkur um 50% afslátt af sængurverum. Sjálfboðaliðar á vorönn fengu m.a. mjög skemmtilega hálsklúta/buff og Zealskin fingravettlinga, en það var veiðivöruverslunin; Flugubúllan í Kópavogi sem veitti okkur 40% afslátt af þeim vörum.
Kostnaður vegna sjálfboðaliðastarfsins, þ.e. veitingar, kostnaður við leiki og gjafir var greiddur með peningum sem fengust fyrir dósir og flöskur sem Hestamannafélagið hefur gefið Fræðslunefndinni sem styrk á hverju ári.
Gulli í Blíðubakka styrkti starfsemina með því að gefa hey, Byko styrkti einnig starfið með því að gefa spónaballa. Einnig styrkti Helgi í Blíðubakkahúsinu starfið með því að veita okkur skjól í reiðskemmunni í Blíðubakkahúsinu þegar að reiðhöll Harðar var fullbókuð.
Rekstur:
Á árinu fækkuðum við námskeiðsdögum um einn og fjölguðum nemendum í hvern tíma, þannig náðist rekstrarhagræði og námskeiðin urðu einnig líflegri og þjappaði sjálfboðaliðunum meira saman. Söfnun styrkja gekk vel. Auk ofangreindra styrkja, þá sótti Fræðslunefnd um styrk til Öryrkjabandalags Íslands og fékk 600 þúsund króna styrk frá ÖBÍ, auk þess fengum við 100 þúsund króna styrk frá LH. (Landssambandi Hestamanna)
Kostnaður við undirburð var meiri en áætlað var og óvæntur kostnaður varð af viðgerð á lyftu. Styrkirnir komu sér því afar vel þetta árið.
Þökkum við öllum sem hafa lagt málefninu lið kærlega fyrir og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.
f.h. Fræðslunefndar fatlaðra.
Agla Elísabet Hendriksdóttir
formaður.