Nokkur atriði varðandi reiðhöllina.
- Nánar
- Skrifað þann Föstudagur, febrúar 11 2022 13:26
- Skrifað af Sonja
Ekki er ætlast til að fólk hengi af sér föt eða geymi annan búnað á böttunum í kringum reiðvöllinn (við stúkuna til dæmis), það eru snagar í anddyrinu undir slíkt. Svo minnum enn og aftur á góð samskipti, hringteymingar eru almennt ekki leyfðar í reiðhöllinni og hreint ekki æskilegt að vera með ótamin tryppi til dæmis í slíku þegar aðrir eru að nota höllina. Þetta eru þau atriði sem helst er kvartað undan og við hljótum að geta sameinast um að gera betur.
Árétting varðandi umferðarreglur:
Allir sem nota reiðhöllina okkar til þjálfunar geti væntanlega verið sammála um að þar verði að gilda skýrar umferðarreglur líkt og er í allri umferð í samfélaginu.
Við innganginn að reiðvelli hallarinnar eru tvö stór skilti þar sem getur að líta gildandi umferðarreglur í reiðhöllinni, ásamt umgengnisreglum. Þrátt fyrir það virðist nokkur misskilningur vera meðal margra félagsmanna um það hvernig skuli ríða á reiðvellinum. Það er bagalegt ef fólk les ekki þessar reglur, en þær eru einnig aðgengilegar á heimasíðu félagsins undir flipanum „reiðhöll“ efst á síðunni. Reglurnar eru settar svo umferð gangi sem best á milli allra sem nýta höllina
Grunn tónn reglnanna er sá að ytri sporaslóð (reiðleiðin næst veggnum, u.þ.b. 1,5 m. breið) sé alltaf ætluð þeim sem hraðar fara. Með öðrum orðum að þeir sem ríða hraðar t.d. á tölti og brokki hafi forgang að ytri sporaslóð fram yfir þá sem ríða á feti eða fara hægar. Gildir þar einu hvort knapar ríða upp á sömu hönd eða sitt hvora hendi. Skal þá sá sem hægar fer víkja inn á sporaslóð tvö (innri sporaslóð) og hleypa þeim er hraðar fer fram úr sér eða framhjá sér. Sama gildir ef einn ríður á hægu tölti eða brokki skal sá sem ríður hraðar á sömu gangtegund eða öðrum gangi hafa forgang að ytri sporaslóð. Þetta gildir þegar knapar ríða upp á sömu hönd og sá er hraðar ríður kemur aftan að þeim er hægar ríður. Sá sem hægar ríður færir sig þá á innri sporaslóð.
Algengur misskilningur er semsagt sá að hægri umferð sé algild í reiðhöllinni eins og í umferðinni. Þannig er það ekki s.b.r. önnur og fjórða grein:
2. grein Fetgangur skal riðinn á innri sporaslóð þegar aðrir knapar ríða á hraðari gangtegund á ytri sporslóð. Þeir sem ríða hægari gangtegund skulu ávallt víkja fyrir þeim er hraðar fara.
4. grein Hægri umferð gildir þegar knapar mætast úr gagnstæðri átt ef riðinn er sami hraði. Undantekning frá því er ef annar knapi ríður hraðar skal honum eftirlátin ytri sporaslóð.
Þarna er þessi grunntónn reglnanna undirstrikaður með mjög afgerandi hætti og ætti ekki að misskiljast.
Annað sem undirstrikar forgangsrétt ytri sporslóðar enn frekar er sjötta grein reglnanna en þar segir:
6. grein Ekki má stöðva hestinn á ystu sporaslóð. Ef stöðva þarf er best að gera slíkt inni á miðjum velli nema um annað sé samkomulag þeirra í milli er stunda æfingar á vellinum hverju sinni.
Þegar knapi kemur með hest inn á reiðvöll hallarinnar er gott að hafa í huga „að vera ekki að flækjast fyrir öðrum sem þar ríða“. Því er gott að byrja á feti á innri sporslóð eða inni á miðjum velli. Er þá gott að hita upp á feti með því að ríða bauga, hringi, slöngulínur og svo beinar línur á innri sporaslóð og færa sig svo yfir á þá ytri með auknum hraða.
Að endingu má svo nefna fyrstu grein þar sem segir að fara skuli á bak og af baki inn á miðjum velli en ekki á reiðleiðum í útjaðri vallar, með öðrum orðum ekki á ytri sporaslóð.
Þessar umferðarreglur í reiðhöllinni komu á sínum tíma frá Háskólanum á Hólum og byggja á umferðarreglum sem gilda í reiðhöllum víða um heim. Þeim ber að fylgja við æfingar og þjálfun í reiðhöll Harðar.