- Nánar
-
Skrifað þann Fimmtudagur, febrúar 02 2012 10:50
-
Skrifað af Super User
Lög Félag hesthúseigenda á Varmárbökkum í Mosfellsbæ
1. gr.
Félagið heitir "Félag hesthúseigenda á Varmárbakka í Mosfellsbæ" og skal staðurinn heita "Hesthúsahverfið á Varmábakka". Heimili félagsins og varnarþing er í Mosfellsbæ í Kjósarsýslu.
Félagið er deild í Hestamannafélaginu Herði.
2. gr.
Félagsmenn skulu allir þeir vera sem þar eiga hesthús.
3. gr.
Tilgangur félagsins er í fyrsta lagi sá, að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna, hvað snertir hesthús, sem byggð hafa verið og kunna að verða byggð á svæðinu. Í öðru lagi vilja félagsmenn eiga gott samstarf við bæjarstjórnina í sambandi við byggingarskilmála, skipulag og umgengni á svæðinu, þannig að snyrtimennska og menningarbragur ráði þar ríkjum á öllum sviðum. Í þriðja lagi vilja félagsmenn (með samstarfi) stuðla að ýmsum félagslegum umbótum á svæðinu, t.d. byggingu bað- og sjúkraaðstöðu fyrir hross félagsmanna, lýsingu svæðisins, lagfæringu á bíl- og reiðvegum, og annað það sem félagsmenn telja nauðsynlegt í sambandi við uppbyggingu svæðisins.
4. gr.
Stjórn félagsins er skipuð fimm félagsmönnum og þar af einum tilnefndum af Hestamannafélaginu Herði. Stjórn félagsins er kosin á aðalfundi til tveggja ára þannig að tveir gangi úr stjórn ár hvert. Þeir sem ganga úr stjórn með þessum hætti geta verið endurkjörnir.
5. gr.
Endurskoðandi skal kjörinn á aðalfundi til 2ja ára í senn.
6. gr
Formaður skal ár hvert gera skýrslu um starfsemi félagsins og lesa hana á aðalfundi.
7. gr.
Gjaldkeri skal annast sjóði félagsins, færa reikninga og annast allar fjárreiður þess. Endurskoðaðir reikningar skulu liggja frammi á aðalfundi. Þá skal ritari færa fundargerðir í fundargerðarbók og skulu þær samþykktar með áritun stjórnarmanna.
8. gr
Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en 1. maí ár hvert. Aðalfund skal boða með fundarboði á heimasíðu Harðar með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef til hans er löglega boðað.
9. gr.
Almennir fundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir og alltaf ef tíu eða fleiri félagsmenn krefjast þess.
10. gr.
Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi ár hvert og greiðist það fyrirfram fyrir hvert ár og er gjalddagi þess 1. apríl árlega. Fjárhagsár félagsins miðast við almanaksárið.
11. gr.
Stjórn félagsins ber eftir fremsta megni að sjá um að félagsmenn fari að settum umgengnis- og viðhaldsreglum í byggingarskilmálum bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Ef félagsmenn hundsa ábendingar félagsstjórnar hvað þetta varðar, þá skal hún beita sér fyrir því að úr verði bætt, allt á kostnað viðkomandi húseigenda.
12. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þurfa 2/3 (tveir/þriðju) fundarmanna að greiða breytingunni atkvæði. Í öðrum málum skal meirihlutaafl ráða úrslitum.
Þeir einir hafa kjörgengi og atkvæðisrétt sem ekki eru í vanskilum við félagið.
13. gr.
Hesthúsaeigendum ber að tilkynna eigendaskipti á hesthúsum til félagsins.
14. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á aðalfundi félagsins í Mosfellsbæ 9. maí 2019.