- Nánar
-
Skrifað þann Miðvikudagur, júní 25 2014 19:19
-
Skrifað af Jóna Dís Bragadóttir
Eins og flestir vita þá vantar okkur Harðarkeppnisjakka. Því miður tókst ekki að láta sauma jakka fyrir LM 2014, en þeir verða tilbúnir í haust á góðu verði. Við biðlum því til þeirra félaga okkar sem eiga jakka inni í skáp og eru ekki að nota þá að lána þá núna í eina viku. Fríða "okkar" Halldórs. ætlar að sjá um jakkamálin og endilega hafið samband við hana ef þið viljið lána jakka og eins ef ykkur vantar jakka til að keppa í. Síminn hjá Fríðu er: 6997230
Þeir sem keppa fyrir hönd Hestamannafélagsins Harðar á Landsmóti skulu keppa í félagsbúningi Hestamannafélagsins Harðar. Hann samanstendur af grænum jakka, hvítri skyrtu, rauðu bindi, hvítum buxum og svörtum stígvélum.
- Nánar
-
Skrifað þann Mánudagur, júní 23 2014 10:35
-
Skrifað af Jóna Dís Bragadóttir
Kristján Þorgeirsson „póstur“ var einn af stofnendum Hestamannafélagsins Harðar og heiðursfélagi þess. Raunar er það svo að Kristján var upphafsmaður þess að farið var að ræða myndun hestamannafélagsins. Hann ræddi þetta við félaga sína í upphafi árs árið 1950 og félagið var stofnað skömmu síðar. Áhugi Kristjáns á hestum var alla tíð einlægur og virtist honum í blóð borinn. Hann sagði einhvern tíma að snemma hefði honum orðið það ljóst að hann gæti aldrei hestlaus verið. Kristján var alla tíð virkur í félagsstarfi Harðar og var formaður félagsins á upphafsárum þess eða frá 1955-1961. Hann átti sæti í stjórn Harðar sem meðstjórnandi og var lengi meðstjórnandi og varaformaður félagsins. Þá starfaði hann í fjölda nefnda á vegum félagsins og sótti fjölmörg landsþing.
Þátttaka Kristjáns í kappreiðum og hestamannamótum fyrir Hörð var alltaf mikil. Þannig tók hann þátt í öllum kappreiðum félagsins frá upphafi og síðar í hinum ýmsu keppnum. Oft fór hann með sigur af hólmi og sigraði oft í skeiðgreinum, orðinn háaldraður. Síðastliðið vor tók hann þátt í sýningu í Reiðhöllinni í Víðidal þar sem hann reið með félaga sínum, Ingimar Sveinssyni, annar á tíræðisaldri og hinn á níræðisaldri. Þá lagði Kristján á það áherslu að mæta alltaf á árshátíðir félagsins sem hann og gerði og var á þeim öllum nema einni er hann var erlendis, nú síðast í febrúar sl.
Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með Kristjáni ríða út hin síðari ár og varla hefur liðið sá dagur sem hann hefur ekki farið á bak. Ég hef verið svo heppin að vera nágranni hans í hesthúsahverfinu og fengið að fylgjast með þessum mikla snillingi og sanna hestamanni. Hestamannafélagið Hörður þakkar Kristjáni fyrir hans störf fyrir félagið frá upphafi og minnist hans með virðingu. Sannur hestamaður er farinn.
Jóna Dís Bragadóttir, formaður Hestamannafélagsins Harðar,
Mosfellsbæ.