- Nánar
-
Skrifað þann Fimmtudagur, nóvember 15 2018 13:57
-
Skrifað af Sonja
Ársskýrsla Mótanefnd Harðar 2018
Meðlimir:
Ragnheiður Þorvaldsdóttir (formaður)
Thelma Rut Davíðsdóttir
Erla Dögg Birgisdóttir
Erna Jökulsdóttir
Kristinn Már Sveinsson
Melkorka Gunnarsdóttir
Sonja Noack (tengiliður félagsins)
Viðburðir og störf
Nokkrir viðburðir voru haldnir á vegum mótanefndar Harðar á keppnistímabilinu 2017-2018. Yfir allt tókust mótin mjög vel og voru vel sótt. Nýtt kerfi til að skrá inn einkunnir á mótum var tekið í notkun sem heitir Sportfengur. Nokkrir meðlimir nefndarinnar sátu námskeið til að læra á þetta nýja forrit sem kom að góðu gagni. Nefndin tók til starfa í janúar 2018. Allir meðlimir komu nýir inn í nefndina ýmist í fyrsta sinn eða eftir hlé. Haldnir voru fjórir formlegir fundir ásamt umræðum utan þeirra á samfélagsmiðlum. Fundirnir voru haldnir á eftirfarandi dagsetningum:
Vetrarmót Harðar
Haldin voru þrjú vetrarmót eins og hefð hefur verið fyrir. Samtals voru 151 skráning á öll vetrarmótin og virtist fólk vera almennt ánægt. Á öllum vetrarmótunum voru útdráttarverðlaun þar sem allir þátttakendur voru settir í pott og dregið var um veglega vinninga. Verðlaunapeningar voru veittir fyrir efstu sætin á hverju móti en eftir öll mótin fengu stigahæstu knaparnir í hverjum flokki bikara. Breytt var flokkaskiptingu mótanna frá síðustu árum en í stað þess að kynjaskipta eldri flokkunum var ákveðið að hafa einungis skipt eftir getu stigi/keppnisreynslu. Það voru því þrír eldri flokkar (21 og eldri): 1. Flokkur, 2. Flokkur og 3. Flokkur. Yngri flokkar héldust óbreyttir. Dagsetningar vetrarmótanna voru eftirfarandi:
- Vetrarmót I - 3. febrúar
- Vetrarmót II (árshátíðarmót) - 24. Febrúar
- Vetrarmót III - 17. mars
Reikningur vetrarmóta:
1. Vetrarmót Harðar (2klst)
|
Sjoppa/Skráning (Klink)
|
1.033
|
Sjoppa/Skráning (Seðlar)
|
30.000
|
Sjoppa/Skráning (Posi)
|
43.450
|
Dómari (Svafar Magnússon)
|
-15.000
|
Samtals
|
59.483
|
|
|
2. Vetrarmót Harðar (2,5klst)
|
Liður
|
Upphæð
|
Sjoppa/Skráning (Klink)
|
2.370
|
Sjoppa/Skráning (Seðlar)
|
28.500
|
Sjoppa/Skráning (Posi)
|
33.450
|
Fríða
|
-5.500
|
Matur/Nammi
|
-19.016
|
Dómari (Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir)
|
-15.000
|
Samtals
|
24.804
|
|
|
3. Vetrarmót Harðar (2klst)
|
Sjoppa/Skráning (Klink)
|
1.150
|
Sjoppa/Skráning (Seðlar)
|
22.000
|
Sjoppa/Skráning (Posi)
|
39.700
|
Kiddi (Skiptimynt)
|
-5.000
|
Dómari (Bjarni Sigurðsson)
|
-15.000
|
Samtals
|
42.850
|
|
|
Verðlaunagripir:
|
-92.000
|
Samtals frá öllum mótum:
|
35.137
|
Íþróttamót Harðar
05.05 Íþróttamót Harðar.
30.05. Fyrri úrtaka fyrir Landsmót.
01.06 Gæðingamót Harðar.
Íþróttamótið okkar var vægast sagt eftirminnilegt. Þar spilaði stórt hlutverk vægast sagt ömurlegt veðurfar. Morgnarnir hófust á því að skófla snjó af keppnisvellinum og var tíðin svo slæm einn morguninn að barnaflokkurinn var fluttur inn í reiðhöll. Það gengu yfir haglél og hundslappadrífa svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir það var skráning framar vonum og tókst mótið einstaklega vel. Allir flokkar mótsins voru seldir styrktaraðilum. Þetta var jafnframt fyrsta mótið sem Sportfengur var keyrður svo það voru nokkrar hindranir á veginum. Skráningar voru samtals 191. Dómarar á Íþróttamóti Harðar 2018 voru:
- Ann-Lisette Winter
- Björgvin Ragnar Emilsson
- Jón Ó Guðmundsson
- Sigurður Helgi Ólafsson
- Svanhildur Hall
Fyrri úrtaka fyrir Landsmót
Árið 2018 var Landsmótsár eins og mörgum er kunnugt um og hélt mótanefnd tvær úrtökur eins og hefð hefur verið fyrir. Fyrri umferðin var haldin 30. maí og gekk það smurt fyrir sig. Í fyrri úrtökunni var einungis riðin forkeppni og fólk reyndi að ná einkunum inn á Landsmót fyrir hönd hestamannafélagsins Harðar. Skráningar voru samtals 56. Dómarar á fyrri úrtöku Harðar 2018 voru:
- Ólafur Árnason
- Sveinn Jónsson
- Valdimar Magnús Ólafsson
Gæðingamót Harðar og seinni úrtaka fyrir Landsmót
Gæðingamótið gekk eins og í sögu enda mótanefndin orðin þaul vön eftir fyrri mót. Gæðingamótið var eftir hefðbundnu sniði og styrkti fyrirtækið Hringdu mótið. Samtals voru 96 skráningar. Á þessu móti kom jafnframt í ljós hverjir færu fyrir hönd Hestamannafélagsins Harðar á Landsmót hestamanna 2018.
Punktamót Harðar
Vegna mikillar eftirspurnar héldum við eitt punktamót með litlum fyrirvara fyrir fólk sem vantaði einkunn inn á Íslandsmót. Mótið gekk eins og smurð vél og voru keppendur almennt ánægðir með mótið. Skráningar voru samtals 47.
Sérstakar þakkir
Mótanefnd vill þakka sérstaklega öllum þeim sjálfboðaliðum sem komu að mótunum. Án þeirra er ekki hægt að halda svona mörg og stór mót sem ganga jafn vel og mót líðandi tímabils hafa gengið.
Einnig viljum við þakka styrktaraðilum kærlega fyrir veittan stuðning.
- Nánar
-
Skrifað þann Fimmtudagur, nóvember 15 2018 13:53
-
Skrifað af Sonja
Starfsskýrsla Beitarnefndar 2018
Starfsemi Beitarnefndar var að stærstum hluta með hefðbundnum hætti á núlíðandi ári og
verið hefur undanfarin ár. Umsjón með útleigu beitarhólfa í landi Mosfellsbæjar
úttekt á hólfunum og umsjón með vöktum vegna lausagöngu hrossa innan bæjarmarka Mosfellsbæjar.
Beitarnefnd skipuðu á starfsárinu Valdimar Kristinsson formaður, Gígja
Magnúsdóttir gjaldkeri og umsjón með bókhaldi nefndarinnar, Gunnar Ingi Guðmundsson. Gunnar Örn Steingrímsson og Guðmundur Magnússon hættu í nefndinni síðla árs og er þeim hér með þakkað framlag þeirra til beitarmála. Þess má geta að Guðmundur hefur setið í nefndinni frá upphafi. Tveir nýjir nefndarmenn komu í stað þeirra félaga, þau Halldór Ásgeirsson betur þekktur sem Haddi kokkur og Björk Guðbjörnsdóttir.
Útleiga beitarhólfa
Útleiga beitarhólfa var með svipuðu móti og verið hefur.
Aðeins bættist í safn beitarhólfa og nú annað árið í röð tókst að anna eftirspurn. Þess er þó að geta að nokkrir umsækjendur sem ekki höfðu áður hlotið hólf drógu umsóknir sínar til baka.
Mikilvægt er að nefndarmenn og
félagsmenn líti almennt vel í kringum sig í því augnamiði að sjá góðar
“matarholur” og góða staði sem hugsanlega mætti nýta til beitar í landi
Mosfellsbæjar og jafnvel víðar. Það hefur nokkrum sinnum gerst að félagsmenn
hafi komið með ábendingar sem hafa leitt til þess að ný hólf voru tekin í gagnið.
Úttekt beitarhólfa
Þann 19. september sl. voru beitahólfin tekin út og var nú eins og undanfarin ár
fenginn til verksins Garðar Þorfinnsson frá Landgræðslu ríkisins. Með honum
við úttektina var auk undirritaðs Haukur Níelsson dýragæslumaður
Mosfellsbæjar. Útkoman úr úttektinni var góð og að líkindum ein sú besta frá upphafi. Í aðeins tveimur tilvikum sást einkunn 4 en á að vera 3. Í öllum þessum tilvikum var þetta aðeins hluti af umræddum hólfum og því spurning um betri beitarstjórnun en ekki það að hólfin hafi verið ofbeitt í heild sinni.
Voru úttektarmenn sammála um að lokinni yfirferð að útkoman hafi verið með besta móti. Vekur það athygli því bæði var tíðarfarið ekki alveg upp á það besta hvað hitastig og úrkomu varðar. Voru menn nokkuð uggandi fyrirfram en sá ótti reyndist ástæðulaus með tveimur undantekningum. Eru þetta klárlega meðmæli með þeim sem stjórna beitinni í hólfunum þ.e. beitarleigjendum og greinileg merki þess að þeir hafa góða stjórn á beitinni og sannarlega ríkjandi beitarmenning innan félagsins.
Mjög mikilvægt er að beitarstjórnendur hugi að tímasetningum og veðurfari þ.e. hvort ríki þurrviðri eða langvarandi vætutíð. Sér í lagi þarf að skapa betri skilning fyrir því í hvaða ástandi þarf að skila hólfunum að lokinni beit og hvernig beri að ná því markmiði. Ánægjulegt er þó hversu margir eru farnir að tileinka sér rand-og/eða hólfabeit sem eykur mjög afköst og nýtingu á einstökum hólfum án þess að ganga þurfi of langt í nýtingu og hægt að tryggja góðan viðskilnað á tilsettum tíma. Aukinheldur sem slíkar aðferðir tempra mjög óæskilega holdsöfnun reiðhrossa yfir há sumarið.Tekið skal fram að það mun almennt viðhorf þeirra sem að málum koma að tekist hafi að skapa góða beitarmenningu innan Harðar og mun betri umgengni samfara góðri nýtingu þótt vissulega megi lengi gera betur í þeim efnum.
Tíðarfar var frekar óhagstætt í vor sem gerði það að verkum að frestað var sleppingu hrossa í sum hólfanna. Grasspretta var svona all þokkaleg í sumar en svolítið breytileg milli hólfa.
Að venju var auka úttekt gerð seinni part ágústmánaðar og fengu nokkrir beitarþegar leiðbeiningar í samræmi við niðurstöður og má ætla að slíkt geti komið í veg fyrir „slys“ í lok beitartímans sem leiðir til lakari útkomu við úttekt.
Enn og aftur var áburður keyptur í stórum sekkjum (600 kg.) og má segja að það hafi komið vel út fjárhagslega nú sem fyrr. Með slíkum innkaupum næst all nokkur hagræðing á margan hátt.
Ljóst er að aðgangur að því beitilandi sem félagið hefur er geysilega mikilvægt fyrir ástundun hestamennsku á félagssvæðinu í Mosfellsbæ yfir sumartímann. Tekist hefur að skapa góða kunnáttu í nýtingu beitarhólfa og því með réttu hægt að segja að innan félagsins ríki góð beitarmenning þar sem skynsamleg nýting þeirra skika sem í boði eru er hornsteinninn að samstarfinu við Mosfellsbæ. Bæjaryfirvöld telja hag að því að umrædd hólf séu nýtt til beitar. Í sumum tilvika sparast sláttur, dregur úr hættu á sinueldum nærri byggðinni t.d. út frá flugeldum. Þá séu hóflega beittir skikar frekar til fegrunar en hitt.
Að þessu sinni var fjöldi hrossa í beit á vegum Harðar vel á þriðja hundraðið en að venju var mikil ásókn í beit hjá félaginu. Að þessu sinn tókst að verða við öllum beiðnum um beitrhólf og er það vissulega ánægjulegt þegar þannig tekst til. Algengt hefur verið að menn þurfi að bíða eitt til tvö ár til að hljóta beit.
Handsömun hrossa alfarið í höndum Harðar
Nú annað árið í röð er ánægjulegt að geta þess að umtalsvert minna hefur verið um lausagöngu hrossa í umdæmi Mosfellsbæjar þetta árið en verið hefur undangengin ár. Má þar eflaust þakka stöðugt batnandi ástandi girðinga auk þess sem hesteigendur gera sér betur grein fyrir mikilvægi þess að hrossum sé haldið tryggileg innan girðinga. Þá hefur eflaust haft einhver áhrif hátt í 100% hækkun fyrir ári síðan á handsömunargjöldum og geymslugjaldi óskilahrossa. Eins og að framan getur hefur félagið nú yfirtekið handsömun hrossa á ársgrundvelli af Mosfellsbæ. Til stóð að koma á einhverju vinnufyrirkomulagi á þeirri starfsemi í fastar skorður en ákveðið var að láta síðasta ár líða og spila þetta af fingrum fram áður. Raunin hefur verið sú að formaður nefndarinnar hefur að lang mestu leiti séð um þessar vaktir þótt vissulega hafi nokkrir félagsmenn komið að málum á ögurstundu. Öryggisfyrirtækið Securitas tekur við tilkynningum um laus hross og hringir í okkur hjá félaginu. Engar vaktir voru skipulagðar í fyrsta skipti og þurftu beitarþegar því ekki að sinna formlegum vöktum þetta árið. Hinsvegar hafa nokkrir bóngóðir félagsmenn brugðist fljótt og vel við þegar á hefur þurft að halda með einni undantekningu þó. Almennt má segja að nánast allir félagsmenn séu tilbúnir að bregðast við þegar til þeirra er leitað eigi þeir þess kost.
Þá má segja að samfélagsmiðlarnir (facebook) gegni mikilvægu hlutverki í að leysa úr málum þegar laus hross sjást á svæðinu.
f.h. Beitarnefndar með þökk fyrir samstarfið á núlíðandi ári
Valdimar
- Nánar
-
Skrifað þann Miðvikudagur, nóvember 14 2018 12:59
-
Skrifað af Sonja
Fundargerð aðalfundar
Haldinn í Harðarbóli 24.10.2018 kl. 20.00
Fundarstjóri: Ólafur Haraldsson
Fundarritari: Erna Arnardóttir
Mættir á fundinn: 51 félagsmenn
Dagskrá skv. aðalfundarboði og lögum félagsins.
- Fundur settur og skipaður fundarstjóri og ritari.
Hákon Hákonarson formaður setti fundinn og tilnefndi Ólaf Haraldsson fundarstjóra.
Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins og lýsti fundinn löglega boðaðan aðalfund. Fimmtíu og einn félagsmaður mætti á fundinn, auk þess sem aðalfundarboðið var gert með lögmætum fyrirvara. Fundarstjóri stingur upp a Ernu Arnardóttur sem fundarritara. Dagskrá fundarins er skv. 5 grein laga félagsins.
Samþykkt var dagskrárbreyting þess efnis að hefja fundinn á móttöku viðurkenningar frá stjórn ÍSÍ um að Hestamannafélagið Hörður fái endurvottun sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Þráinn Hafsteinsson stjórnarmaður í framkvæmdastjórn ÍSÍ afhenti formanni viðurkenningarskjal og fána og bar félaginu kveðjur forseta ÍSÍ og óskaði félaginu heilla.
Skýrsla formanns auk skýrslu nefnda félagsins verður aðgengileg á vef félagsins frá og með 27. október 2018. Handbók Hestamannafélagsins Harðar sem fyrirmyndarfélags ÍSÍ verður einnig birt á heimasíðu félagsins.
- Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins.
Ragnhildur Traustadóttir fór yfir ársreikning félagsins fyrir árið 2017 og rekstraráætlun fyrstu 9 mánuði ársins 2018. Hagnaður af rekstri Harðar 2017 var 5.076.368 krónur. Reikningurinn sýnir einnig fram á að farið hefur fram fullnaðar skuldaskil vegna reiðhallarinnar. Með eftirgjöf Íslandsbanka á skuld félagsins við bankann upp á 10.500.885 krónur, með styrk frá Mosfellsbæ upp á 7.000.000 krónur og 1.000.000 króna framlagi Harðar, er reiðhöllin nú að fullu skuldlaus eign félagsins.
- Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
Engar umræður né fyrirspurnir komu fram um skýrslu stjórnar né reikninga félagsins. Reikningarnir voru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.
- Ákvörðun árgjalds fyrir 2019.
Stjórn lagði til að árgjald verði það sama og var árið 2018, 12.000 krónur fyrir fullorðna félagsmenn, minna fyrir unglinga. Börn og eldri borgarar greiði ekki félagsgjald.
Fram kom fyrirspurn um fjölskylduafslátt. Gjaldkeri svaraði fyrirspurn á þá leið að hætt hafi verið við slíkt fyrirkomulag þar sem utanumhald um það sé tímafrekt og erfitt.
Fundurinn samþykkti tillögu stjórnar um óbreytt árgjald.
Engar tillögur um lagabreytingar lágu fyrir fundinum.
- Kosningar skv. 6 grein laga um stjórnarkjör
- Fyrst var gengið til kosninga um formann. Hákon Hákonarson var einn í kjöri og því sjálfkjörinn formaður með lófaklappi.
- Fjórir stjórnarmenn gengu úr stjórn skv. lögum félagsins, en þrír þeirra gáfu kost á stjórnarsetu áfram til tveggja ára. Þau eru Gígja Magnúsdóttir, Rúnar Þór Guðbrandsson og Ragnhildur Traustadóttir. Kosið var um einn stjórnarmann og einungis einn var í framboði, Ólafur Haraldsson sem var kosinn í stjórn með lófaklappi.
Fundarstjóri opnaði mælendaskrá;
- Formaður þakkaði traustið og lýsti ánægju með kjör stjórnarmanna.
- Formaður upplýsti að Telma Davíðsdóttir hafi setið stjórnarfundi 2018 sem áheyrnarfulltrúi, skv. skilyrðum sem ÍSÍ gerir til fyrirmyndarfélaga um þátttöku ungmenna í félagsstarfinu. Telma hefur málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðarétt í stjórn félagsins. Hún hefur gefið kost á sér áfram sem áheyrnarfulltrúi í stjórn.
- Hólmfríður Halldórsdóttir brýndi stjórnarmenn og fundarmenn að gefa kost á sér í árshátíðarnefnd félagsins, þar sem árshátíð nálgast óðfluga. Hólmfríður upplýsti að bókanir í Harðarból séu farnar að berast fram til ársins 2022.
- Fundarstjóri bar fram tillögu um skoðunarmenn reikninga félagsins, Þröst Karlsson og Sveinfríði Ólafsdóttir. Fundurinn samþykkti það.
- Formaður upplýsti að Rúnar Sigurpálsson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins í hlutastarfi og hafi þegar tekið til starfa. Félagið væntir mikils af starfi hans. Örn Ingólfsson lætur af störfum fyrir félagið 31. otóber nk og er honum þökkuð unnin áralöng störf fyrir félagið.
- Formaður benti fundinum á að velvilji Mosfellsbæjar gagnvart félaginu og styrkveitingar frá bæjum væru forsenda framkvæmda á vegum félagsins.
- Formaður ræddi framkvæmdir á vegum félagsins og upplýsti fundinn um að eftir að tókst að semja um skuldaskil reiðhallar, hafi framkvæmdir farið af stað aftur. Meðal annars hafi verið farið í að setja upp nýja loftræstingu og hitakerfi í reiðhöll, steypa nýja stétt í kringum Harðarból, útbúa framtíðar kerrustæði ofl.
- Á framkvæmdaáætlun 2018 til 2019 eru eftirtalin verkefni:
- Lagfæring á flugvallarhring/Tungubakkahring
- Lagfæring á leku þaki reiðhallar
- Koma upp lýsingu í kringum reiðhöll
- Setja upp snjógildrur og þakrennur á reiðhallarþak
- Lagfæra ryðskemmdir í burðarvirki reiðhallar, sem stafar af skorti á loftræstingu og meintum hönnunargalla á samskeytum stálgrindar og sökkuls
- Fullnaðarfrágangur á kerrustæðum
- Klára að steypa stétt í kringum Harðarból
- Setja upp lýsingu í eldri sal Harðarbóls
- Setja upp stóra sjónvarpsskjái í báðum endum Harðarbóls
- Jarðvegsskipti í hvíta gerðinu
- Formaður færði Öglu Kristjánsdóttur formanni fræðslunefndar fatlaðra styrk sem er hagnaður af árlegri formannsfrúarreið.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 22.00
- Nánar
-
Skrifað þann Miðvikudagur, nóvember 14 2018 08:15
-
Skrifað af Sonja
Matvælastofnun vekur athygli á að opnað hefur verið fyrir skráningu haustskýrslna í Bústofni (www.bustofn.is). Í samræmi við reglur (lög um búfjárhald nr. 38/2013) skulu umráðamenn búfjár skila inn haustskýrslu fyrir 20. nóvember um búfjáreign, fóður og landstærðir.
Undanfarin ár hefur vantað upp á að umráðamenn hrossa hafi skilað haustskýrslu lögum samkvæmt. Til að auðvelda umráðamönnum hrossa að ganga frá haustskýrslu hefur Matvælastofnun ráðist í umtalsverðar umbætur á skráningarferlinu þar sem umráðamenn hrossa sem aðeins telja fram hross á haustskýrslu geta nú skilað haustskýrslu í heimarétt WorldFengs.
Þeir umráðamenn sem einnig telja annað búfé fram á haustskýrslu þurfa nú að sækja upplýsingar um hrossin sín úr WorldFeng þegar skýrsla er skráð í Bústofn. Upplýsingar um staðsetningu og umráðamann hrossa þurfa því að vera réttar í WorldFeng.
Allir félagar í hestamannafélögum Landssambands hestamannafélaga og félögum Félags hrossabænda um allt land eiga að hafa frían aðgang að WorldFeng. Þeir sem hafa ekki þann aðgang geta hins vegar skráð sig inn í WorldFeng með sérstökum hjarðbókaraðgangi, nánari upplýsingar um aðgang veitir tölvudeild Bændasamtaka Íslands. (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.)
Að auki stendur til boða þjónusta Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins fyrir þá sem ekki geta skilað sjálfir.
Nánari upplýsingar veitir Matvælastofnun (dýraeftirlitsmenn og Búnaðarstofa).