- Nánar
-
Flokkur: Hallgerður Langbrók
-
Skrifað þann Föstudagur, maí 21 2004 12:00
-
Skrifað af Hallgerður Langbrók
Lokaða WR (wild ranking) Langbrókarmótið .
Laugardaginn 15. maí sl. var haldið WR (wild ranking) mót á Tungubökkum í Mosfellsbæ. Mótið var vel sótt og alls voru uþb. 50 skráningar. Mótið þótti takast með eindæmum vel, góð stemming var hjá knöpum og höfðu þeir dregið upp úr pússi sínu sína allra bestu gæðinga. Nokkrir knapar skáru sig úr hvað varðar stíl og má þar nefna Súsönnu Ólafsdóttur sem mætti í skærgulum pollabuxum sem brettust upp á hné og Andreu Guðmundsdóttur sem mætti á ójárnuðum hesti. Andrea reið berbakt og notaði baggabönd sem beislisbúnað.
Byrjað var á lulli á hringvelli og í þeim flokki var dæmt fyrir fegurð í reið. Sérstök aukastig voru gefin fyrir víxl og þótti það hestum og knöpum til framdráttar ef hestur víxlaði oft og einnig ef hann gat sýnt lull á fethraða. Á eftir lullinu færðu keppendur sig á beinu brautina og keppt var í brokki. Keppendur fengu tvö rennsli á brokki, fram og til baka á brautinni, og einungis þrír keppendur sýndu hreint brokk alla leið. Þeir fengu allir verðlaun. Eftir keppni í brokki fóru leikar að æsast og keppt var í stökki. Þar sýndu knapar mikil tilþrif og ekki er hægt að segja annað en að bjart sé framundan hjá Harðarkonum í þessari keppnisgrein. Næsta keppnisgrein var boðreið og þar urðu keppendur að ríða brautina á enda, fara af baki, hlaupa í kringum hestinn og á bak honum hinumegin. Ekki er hægt að segja að öllum keppendum hafi farist það vel úr hendi en ljóst er að einhverjir munu nýta tímann vel og fínpússa stílinn fyrir næsta Langbrókarmót. Nokkuð frjálslega var farið með keppnisreglur og ákváðu keppendur í bjórtölti á síðustu mínútu að færa sig inn á hringvöllinn. Dómarar svöruðu fyrir sig með því að breyta dómsreglum og segja ekki frá því fyrir hvað væri dæmt fyrr en keppendur höfðu lokið keppni. Ragnheiður Þorvaldsdóttir og Ása Magnúsdóttir komu langfyrstar í mark en þeim var ekki raðað í sæti þar sem þær þóttu hafa sullað óþarflega mikið. Í lokin voru hestar kældir niður með því að sýna yfirferðarfet á hringvellinum en þar var, eins og nafnið gefur til kynna, dæmt fyrir hraða á feti.
Heyrst hefur að nokkrar konur hafi þegar hafið leit að alvöru lullurum sem geta víxlað hreint og hafi þegar ráðið sér þjálfara fyrir næsta Langbrókarmót. Nokkurrar óánægju hefur gætt meðal kvenna í öðrum félögum með það að mótið hafi verið lokað og hefur mótanefndin tekið það til alvarlegrar skoðunar að hafa mótið opið að ári.
Langbrók ársins var kjörin Þórhildur Þórhallsdóttir en hún var formaður félagsins árin 2002 og 2003. Þórhildur stýrði félaginu af miklum styrk vann mikið og óeigingjarnt starf. Þórhildur mun bera Langbrókartitilinn í eitt ár en þá verður Langbók ársins kosin á ný.
Um kvöldið var haldið kvennakvöld í Harðarbóli og skemmtu konur sér fram á rauða nótt.
Hér fylgja úrslit Langbrókarmótsins. Dómarar voru Guðný Ívarsdóttir, Svanborg Magnúsdóttir og Oddrún Ýr Sigurðardóttir, allar alþjóða wild ranking dómarar.
Lull
Ragnheiður Þorvaldsdóttir
Andrea Guðmundsdóttir
Rut Guðjónsdóttir
Brokk
Rut Guðjónsdóttir
Aðalheiður Guðjónsdóttir
Súsanna Ólafsdóttir
Stökk
Ragnheiður Þorvaldsdóttir
Guðrún Hreiðarsdóttir
Úrsúla
Boðreið
Sigurvegarar urðu sveit
Ragnheiðar Þorvaldsdóttur og Guðrúnar Hreiðarsdóttur
Bjórtölt
Guðrún Hreiðarsdóttir
Súsanna Ólafsdóttir
Margrét Kjartansdóttir
Fet
Súsanna Ólafsdóttir
Ragnheiður Þorvaldsdóttir
Margrét Dögg Halldórsdóttir