Rafmagnslaus rafgirðing -gagnslítil girðing

Á það skal minnt að samkvæmt reglugerð frá ráðuneyti stjórnaráðsins er notkun gaddavírs í og við þéttbýli bönnuð. Rafgirðingar eru því kosturinn sem hestamenn nýta sér í auknum mæli.

Samkvæmt tilmælum frá bæjaryfirvöldum skal nota rafstöðvar við allar rafgirðingar í löndum Mosfellsbæjar sem Hestamannafélagið Hörður leigir félagsmönnum sínum. Rafgirðing án rafmagns getur fljótlega orðið haldlítil ef ekkrt er rafmagnið. Viljum við því minna alla þá sem eru með slíkar girðingar að rafvæða hið snarasta hafi það ekki verið gert nú þegar. Dýragæslumaður Mosfellsbæjar mun á næstu dögum mæla girðingarnar og verða gerðar athugasemdir við þá sem ekki eru með hlutina í lagi.

Þá er mælst til þess að girðingar með rafmagni séu merktar með tryggilegum hætti. Hægt er að fá sérstök spjöld til að hengja á girðingarnar eða festa á staura í verslunum m.a. hjá Brimco hér í Mosfellsbænum svo ekki þarf að fara um langan veg til að kippa því í liðinn.

Ennfremur skal á það minnt að leigjendur beitarhólfa ber skylda til að kaupa ábyrgðartryggingu á hross sem eru í landi Mosfellsbæjar. Ábyrgðartryggingar eru ekki dýrar tryggingar en geta hinsvegar komið sér vel ef hestar til dæmis hlaupa fyrir bíl þar sem skaðabótakröfur geta hlaupið á tugmilljónum ef illa fer. Má því segja að hesteigendur ættu almennt séð að vera með ábyrgðartryggingu á öllum sínum hrossum.

Að síðustu skal beitarleigjendum bent á að kynna sér vel þær reglur sem gilda um beit hjá Herði í löndum Mosfellsbæjar.

Beitarnefnd