- Nánar
-
Flokkur: Annað
-
Skrifað þann Mánudagur, janúar 27 2003 12:00
-
Skrifað af Vefstjóri
Íþróttamaður Mosfellsbæjar var kjörinn Sigurður Sigurðsson knapi en árangur hans á síðasta ári var glæsilegur, enda hefur hann hefur verið í fremstu röð knapa hér á landi síðustu ár.
Hér er að finna afrekalista hans og ummæli sem um hann voru höfð.
Aðrir sem fengu viðurkenningu við þetta tilefni eru eftirtaldir:
Íslandsmeistarar á árinu:
Kristján Magnússon
Landliðsfólk:
Sigurður Sigurðarson
Guðmundur Einarsson
Kristján Magnússon
Efnilegustu einstaklingar 16 ára og yngri:
Linda Rún Pétursdóttir
Hreiðar Hauksson
Íþróttamaður Harðar árið 2002 er Sigurður Sigurðarson. Sigurður er fæddur 1969 og er því á þrítugasta og fjórða aldursári. Hann er búsettur að Þjóðólfshaga í Rangárvallasýslu. Sigurður hefur verið félagi í hestamannafélaginu Herði frá því hann var 15 ára gamall og er því rótgróinn félagsmaður.
Sigurður æfir afar ötullega, hann æfir alla daga vikunnar, nánast árið um kring. Hann æfir frá 2 og allt upp í 10 stundir á dag, en hann er víðfrægur meðal hestamanna fyrir eldlega ástundun og áhuga á íþróttinni. Hann þjálfar ótrúlegan fjölda hrossa á ári hverju og er afar eftirsóttur sem knapi.
Árið 2002 var einstaklega árangursríkt hjá Sigurði og reyndar náði hann á þessu ári einum besta árangri frá upphafi síns ferils í hestamennskunni. Á Landsmóti hestamanna 2002 varð hann í öðru sæti í B-flokki gæðinga með hestinn Bruna frá Hafsteinsstöðum og þriðji í tölti með hryssuna Fífu frá Brún, en á Landsmót komast aðeins úrvalshross sem hafa farið í gegnum forkeppni hjá sínu félagi. Hann vann til tveggja Íslandsmeistaratitla á árinu, þar á meðal vann hann gæðingaskeiðið á Fölva frá Hafsteinsstöðum og varð hann stigahæsti knapi Íslandsmótsins í meistaraflokki, en sá titill er einn stærsti titill Íslandsmótsins. Reyndar vann hann allt gæðingaskeið í meistaraflokki á árinu á opnum mótum á vegum Landsambands hestamanna. Hann var valinn til að keppa fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í Finnlandi og komst þar í úrslit í þremur greinum. Sigurður varð annar í stigakeppni Meistaradeildar hesta 847 en í þá keppni komast aðeins bestu knapar landsins sem hafa á valdi sínu allar keppnisgreinar hestaíþrótta. Sigurður náði frábærum árangri á Suðurlandsmótinu og var þar í efstu sætum í nánast öllum greinum og sigraði þrjár greinar. Á Íslandsbankamótinu á Akranesi vann hann til fyrstu verðlauna í gæðingaskeiði og tölti og var í efstu sætum í fimmgangi, fjórgangi, slaktaumatölti og 250 metra skeiði. Hann var jafnframt stigahæsti knapi mótsins. Hann vann til verðlauna á fjöldamörgum félagsmótum og hjá sínu eigin félagi vann hann B flokk gæðinga, tölt meistara og 250 metra skeið á Gæðingamóti félagsins. Á íþróttamóti Harðar vann hann fimmgang í 1. flokki, tölt í meistaraflokki, slaktaumatölt í meistaraflokki, gæðingaskeið og var stigahæsti knapi í 1. flokki. Að auki var hann í úrslitum í öllum greinum sem hann keppti í á þessum stærstu mótum Harðar. Sigurður er einnig atkvæðamikill í sýningum kynbótahrossa og hefur sýnt 22 hross á árinu en 14 þeirra fengu 1. verðlaun og meðaleinkunn hrossanna var 7,98 en hestur þarf einkunina 8,0 til að fá 1. verðlaun í kynbótadómi. Sigurður er í 2 sæti á heimslistanum (world ranking) yfir knapa í gæðingaskeiði og hann er einnig ofarlega í fleiri greinum á þessum lista.
Ofangreindur listi er langt því frá tæmandi en á árinu vann hann samtals til 31 gullverðlauna í íþróttagrein sinni ásamt öðrum verðlaunum. Sigurður vann einnig það afrek að vera með hæstu einkunn í gæðingakeppni á árinu, en hann náði einkuninni 9,29 sem er með hæstu einkunum sem gefnar hafa verið í B flokki gæðinga. Árangur hans getur því ekki skoðast öðruvísi en framúrskarandi og fáir ef nokkrir knapar á landinu geta státað af öðrum eins árangri á árinu. Þar skiptir mestu að Sigurður er jafnvígur í öllum greinum hestaíþróttarinnar en fáir knapar hafa það á valdi sínu.
Á síðasta ári sá Sigurður um þjálfun unglinga í Herði og sá meðal annars um að undirbúa unglingana fyrir keppni á Landsmóti. Hann skipulagði þjálfunarbúðir fyrir þau og fylgdi þeim eftir fram að Landsmóti en taka má fram að unglingarnir náðu frábærum árangri undir hans stjórn. Hann er góð fyrirmynd ungra knapa í félaginu og með starfi sínu sem unglingaþjálfari tendraði hann mikinn áhuga margra ungu knapanna í félaginu með eldmóði sínum og brennandi áhuga og hvatningu.
Sigurður kemur ávallt vel fram í keppni og sýnir drengskap og kurteisi í allri framgöngu við mótherja sína.
Sigurður þykir hafa einstakt næmi á hesta og ólíka hæfileika þeirra. Hestar eru lifandi verur og til að laða fram bestu kosti hests og fá hann til að sýna þá í nokkurra mínútna keppni þarf gífurlega þjálfun og mikinn undirbúning þar sem lokatakmarkið er að hestur og maður vinna saman sem einn. Þessu hefur Sigurður náð frábærlega á vald sitt og nær nánast undantekningalaust að sýna hross með þeim hætti að hæfileikar þeirra njóta sín til fulls. Þetta hefur skilað Sigurði í það að geta með réttu talist einn af bestu knöpum landsins.
Keppnisárangur Sigurðar Sigurðarsonar árið 2002:
Mót í hestamannafélaginu Herði:
Árshátíðarmót Harðar
Hylling frá Kimbastöðum 1. sæti.
Vetrarmót Harðar
Smiður frá Miðsitju 2. sæti.
Íþróttamót Harðar
Tölt meistara Hylling 1. sæti.
Gæðingaskeið meistara Fölvi 1. sæti.
Stigahæsti knapi meistara 1. sæti.
Tölt T2 meistara Úlfur 1. sæti.
250 m skeið Fölvi 1. sæti.
Fimmgangur opinn flokkur Blakkur 1. sæti.
Ísl. tvíkeppni 1. sæti.
Tölt opinn flokkur 2. sæti.
Fjórgangur opinn flokkur 3. sæti.
Gæðingamót Harðar
B flokkur Fífa frá Brún 1. sæti.
Tölt Númi frá Miðsitju 1. sæti.
250 m skeið Fölvi 1. sæti.
Unghross í tamningu 2. sæti.
Gæðingakeppni Mána
B flokkur Bruni frá Hafsteinsstöðum 1. sæti.
- Númi frá Miðsitju 2. sæti.
A flokkur Skafl frá Norðurhvammi 2. sæti.
Opin mót:
Meistaradeild
Tölt Fífa frá Brún 1. sæti.
Fjórgangur Oliver frá Austurkoti 4. sæti.
Fimmgangur Stjarni frá Búlandi 5. sæti.
Hraðafimi- Númi frá Miðsitju 1. sæti.
Hraðaskeið- Fölvi frá Hafsteinsstöðum 1.sæti.
Gæðingafimi- Fróði frá Miðsitju 2. sæti.
Skeið Fölvi frá Hafsteinsstöðum 3. sæti.
150 m skeið Fölvi frá Hafsteinsstöðum 2. sæti.
Ístölt Fífa frá Brún 2. sæti.
Íslandsmót í Víðidal 2002
Stigahæsti knapi Íslandsmóts í meistarafl, sem er einn stærsti titill Íslandsm.
Gæðingaskeið Fölvi frá Hafsteinsstöðum 1. sæti.
Tölt Fífa frá Brún 3. sæti.
Stigahæstur í meistaraflokk 1. sæti.
Landsmót
B flokkur Bruni frá Hafsteinsstöðum 2. sæti.
Tölt Fífa frá Brún 3. sæti.
Fljúgandi skeið Fölvi frá Hafsteinsstöðum 3. sæti.
5 v stóðhestar 4. sæti.
Hæsta einkunn í B flokk inn á Landsmót.
Hæsta 5v stóðhest inn á Landsmót.
Íslandsbankamót Akranesi
Tölt meistara Hylling 1. sæti.
Gæðingaskeið meistara Fölvi 1. sæti.
Fimmgangur Gyllir Keflavík 3. sæti.
Fjórgangur Hylling 3. sæti.
Stigahæstur meistara 1. sæti.
Suðurlandsmót
Tölt meistara- Hylling 1. sæti.
Gæðingaskeið meistara Fölvi 1. sæti.
Fimmgangur meistara Gyllir 3. sæti.
250 m skeið Fölvi 1. sæti.
Tölt opinn flokkur Hákon 2. sæti.
Opið íþróttamót Geysis
Tölt meistara Hylling 1. sæti.
Ísl. tvíkeppni 1. sæti.
Fjórgangur meistara Hylling 2. sæti.
Fimmgangur meistara 2. sæti.
Gæðingaskeið meistara 1. sæti.
Stigahæsti knapi 1. sæti.
Andvaramót stærsta opna gæðingakeppni sumarsins fyrir utan Landsmót.
B flokkur Fífa 1. sæti.
A flokkur Skafl 1. sæti.
Tölt meistara 1. sæti.
Tölt opinn flokkur eftir forkeppni 1. sæti
250 m skeið Fölvi 3. sæti.
Kynbótasýning á Hellu 5v hestar 1. sæti.
Sýnd 22 kynbótahross á árinu, þar af 14 í 1. verðlaun og meðaleinkunn af öllum hrossunum 7,98.
Hæsta einkunn í gæðingakeppni á árinu yfir landið: 9,29.
Sigur í gæðingaskeiði meistara á öllum opnum mótum á árinu.
Sigur í 7 opnum töltmótum af 10 á árinu á 3 hrossum.
Nr. 2 á World Ranking List í gæðingaskeiði