Harðarmenn á Norðurlandamóti í hestaíþróttum í Finnlandi

Í landsliði íslands fyrir norðurlandamótið í hestaíþróttum voru meðal annara valdir Harðarmennirnir Sigurður Sigurðarson, Guðmundur Einarsson og Kristján Magnússon. Að auki var liðstjórinn Harðarmaðurinn Eysteinn Leifsson. Kapparnir stóðu sig vel, Guðmundur Einarsson náði norðurlandameistaratitlum bæði í 250 m skeiði og 100 m fljúgandi skeiði. Sigurður Sigurðarson varð í fjórða sæti í slaktaumatölti, níunda sæti í fimmgangi og níunda sæti í gæðingaskeiði og Kristján Magnússon varð í fjórða sæti í gæðingaskeiði ungmenna og í fimmta sæti í fimmgangi ungmenna. Þess má geta að Sigurður og Kristján fengu keppnishross sín að láni erlendis. Að öðru leiti gekk íslenska liðinu vel, Eyjólfur Þorsteinsson varð þrefaldur norðurlandameistari, í gæðingaskeiði ungmenna, fimmgangi ungmenna og 100 m fljúgandi skeiði . Aðalsteinn Aðalsteinsson varð norðurlandameistari í samanlögðum stigum en hann var annar í fimmgangi og náði tímanum 22,25 sek í 250 m skeiði og þriðja sætið. Sonur hans Reynir Aðalsteinsson var annar í fljúgandi skeiði og annar í 250 m skeiði. Jóhann Skúlason var norðurlandameistari í tölti og fjórði í fjórgangi. Sigurður Óskarsson varð þriðji í gæðingaskeiði, átti fimmta besta tímann í 250 m skeiði og varð fjórði í stigakeppninni. Íslendingar voru því í fyrsta, öðru, þriðja og fimmta sæti í 250 m skeiði. Þórdís Erla Gunnarsdóttir varð í þriðja sæti í fjórgang ungmenna og fjórða sæti í tölti ungmenna. Bjarnleifur Smári Bjarnleifsson stóð sig frábærlega þegar hann reið sig úr B-úrslitum í tölti unglinga hampaði norðurlandameistaratitli eftir A-úrlitin. Það er því ekki hægt að segja annað en að liðstjórinn hafi staðið sig vel í valinu á knöpum og hestum því að alls lentu átta norðurlandameistaratitlar hjá íslendingum.