Tryggingar

Þegar áföll eins og bruninn í sl. viku dynur yfir þá vekur það okkur til umhugsunar hvort hægt sé að tryggja sig betur. Harðarfélaginn Hákon, tók saman upplýsingar fyrir okkur hvað við þurfum að huga að við tryggingar hesthúsa og lausafjár. 

Brunatrygging húseigna
Brunatryggingin er lögboðin trygging húseigna sem bætir tjón vegna eldsvoða. Vátryggingafjárhæð miðast við brunabótamat sem Fasteignamat ríkisins ákveður. Matið getur verið gamalt og of lágt.  Í slíkum tilvikum er tvennt í stöðunni:  Að óska eftir endurmati eða kaupa Viðbótarbrunatryggingu.  Vátryggingafjárhæðin á að miðast við hvað kosti að endurbyggja húsið á sama stað, en á ekki að endurspegla markaðsverðmæti.  Brunatryggingin bætir húsið sjálft auk fastra innréttinga, eldavéla, snyrtinga, raf- skólp – og hitalagna auk kostnað vegna hreinsunar brunarústa og nýrra teikninga ef með þarf.

Lausafjártrygging

Alla lausamuni s.s. húsbúnað, reiðtygi og annan persónulegan búnað, þarf að tryggja sérstaklega. Lausafjártrygging bætir tjón af völdum bruna, vatns og innbrots.

Auk þessara trygginga er hægt að kaupa brunatryggingu fyrir hestana og Frjálsa ábyrgðartryggingu sem bætir hugsanlegar skaðabótakröfur vegna tjóns sem hesturinn veldur.

Flestar þessar tryggingar er tiltölulega ódýrar og ættu allir að kynna sér þær vel.