Frábær árangur á Landsmóti
- Nánar
- Flokkur: Stjórnin
- Skrifað þann Þriðjudagur, júlí 08 2008 16:19
- Skrifað af Super User
Nú er Landsmót að baki og getum við Harðarfélagar verið stolt af okkar fólki. Meira en helmingur hestanna okkar lentu í 30 manna úrslitum og nærri því allir voru ofan við meðallag hesta á mótinu. Við náðum vægast sagt frábærum árangri í yngri flokkunum en þar áttum við fyrsta sætið í bæði unglinga og ungmennaflokki. Arnar Logi Lúthersson og Frami frá Víðidalstungu II sigruðu í A-úrslitin í unglingaflokki með einkunnina 8,80. Grettir Jónasson á Gusti frá Lækjarbakka sigraði A-úrslitin í ungmennaflokki og var hann einnig með einkunnina 8,80. Halldór Guðjónsson varð í þriðja sæti í A úrslitum í tölti á Nátthrafni frá Dallandi með einkunnina 8,44 og Jóhann Þór Jóhannesson (Tóti í Dalsgarði) varð í þriðja sæti í 250 metra skeiði á tímanum 24,32. Reynir Örn Pálmason og Baldvin frá Stangárholti urðu í 10 sæti í B úrslitum í A flokki gæðinga með einkunnina 8,60 og Linda Rún Pétursdóttir á Stjarna frá Blönduósi varð í 14. sæti í B úrslitum í ungmennaflokki með 8,42. Katrín Sveinsdóttir varð svo í 14. sæti í barnaflokki á Gými frá Grund með einkunnina 8,0. Þrír knapar lentu í 31. sætinu, en menn höfðu á orði að það sæti væri orðið eins og 16. sætið okkar í Eurovision. Þetta er frábær árangur og algjör viðsnúningur frá frekar slökum landsmótsárangri árið 2006. Árangur sem verður okkur sem stjórnum félaginu hvatning til að styðja enn betur við bakið á úrvalsknöpunum okkar. Til hamingju allir knapar sem fóru á Landsmót og héldu vel á merkjum Harðar sem og allir Harðarfélagar.
Kveðja Guðjón Magnússon, formaður