Reiðhöllin, staða mála
- Nánar
- Flokkur: Stjórnin
- Skrifað þann Mánudagur, júní 02 2008 10:47
- Skrifað af Super User
Við ákváðum að bjóða verkið út í heild á sínum tíma, þ.e. að reistu húsi fullfrágengnu að utan. Þar með var fullnaðarhönnun hússins innifalin í verkinu. Þetta var gert til að hafa verkið allt á einni hendi og útiloka þar með að verktakinn kenndi ófullnægjandi hönnun um tafir og aukaverk eins og oft vill verða. Venjulega gefst þessi aðferð mjög vel og minkar verulega líkurnar á aukaverkum með tilheyrandi aukakostnaði. Allt fór þetta vel af stað og aðalverktakinn réði til sín arkitekt og verkfræðing sem áttu að skila teikningum í águst 2007, en skila átti okkur reiðhöllinni 1.des.2007. Arkitektinn skilaði fljótt og vel, þannig að hægt var að grafa og gera burðarpúðann undir reiðhöllina, en verkfræðingurinn skilaði ekki teikningum þrátt fyrir að aðalverktakinn legði á hann verulega pressu.
Loks var teikningum skilað, en þær voru ófullnægjandi og sendar til baka. Svona gekk þetta fram að jólum en þá gafst aðalverktakinn upp og réði annan verkfræðing til starfans. Sá þurfti að byrja upp á nýtt og lofaði teikningum í lok febrúar, þær komu í lok mars og voru yfirfarnar af byggingaryfirvöldum. Það voru gerðar smávægilegar athugasemdir við teikningar og þær sendar aftur til verkfræðingsins og hann beðinn að ljúka þeim sem fyrst. Sá verkfræðingur lést af völdum veikinda í byrjun maí, áður en hann náði að ljúka teikningunum. Nú er verkið komið í hendurnar á verkfræðistofunni Verksmiðjan, verkfræðistofa sem lofar að ljúka verkinu og leggja það inn til byggingafulltrúa næstkomandi föstudag, 6.júní. Í framhaldi af því verður farið í að slá upp og steypa undirstöður, en smiðirnir sem eiga að fara í það eru tilbúnir um leið og leifi fæst. Þó tafirnar séu hvimleiðar og liggja þungt á okkur sem stöndum í þessu þá eru sem betur fer einnig ljósir punktar í málinu. Fyrst við fengum ekki höllina í vetur, þá skiptir litlu máli þó við fáum hana ekki fyrr en næsta vetur. Við eigum að sjá um að fjármagna höllina sjálf, en fáum fastar vísitölutryggðar greiðslur frá Mosfellsbæ á hverju ári til að greiða afborganir. Tafirnar hafa orðið til þess að við þurfum að taka mun minna lán en ella og til styttri tíma, en þar munar milljónatugum sem við þurfum þá ekki að greiða vexti af. Þetta kemur sér vel þar sem vextir hafa hækkað verulega frá árinu 2006 þegar áætlanirnar okkar voru gerðar. Við skiljum vel að þið, kæru félagsmenn, séuð orðnir langþreyttir á að fá ekki reiðhöllina, en það stafar af ástæðum sem hvorki við né aðalverktakinn ráðum við. Við vonum að nú séu erfiðleikar okkar að baki og ætlum okkur að skila reiðhöllinni til félagsins fyrir næsta vetur en allur undirbúningur æskulýðsnefndar og fræðslunefndar miðast við það. Við skulum heldur ekki gleyma því að aðalverktakinn gaf okkur verulegan afslátt af reiðhöllinni sem var reiknað sem eigið framlag félagsins til verksins, þetta var mikilvægt fyrir félagið þar sem við sem að þessu höfum staðið undanfarin ár leggjum á það ofur árherslu að skila reiðhöllinni skuldlausri til félagsins og hefur öll fjármögnun og aðferðafræði miðað að því. Verktakanum er greitt eftir framvindu, þannig að við greiðum aðeins fyrir það sem búið er að gera og komið er á staðinn. Sá háttur er hafður á varðandi sjálfa skemmuna að Glitnir veitir okkur ábyrgð sem tryggir framleiðandanum greiðslu þegar skemman er komin til landsins. Við vonum innilega að þriðji verkfræðingurinn ljúki verkinu á föstudaginn kemur og verkið sé þar með komið á beinu brautina. Með kveðju, stjórnin og bygginganefnd reiðhallar