Skyldulesning

Kæru Harðarfélagar og aðrir hestamenn sem halda hesta og ríða út á félagssvæði Harðar- vinsamlegast lesið eftirfarandi! Þar sem mikið af félagsgjöldum er ennþá útistandandi og einnig eru margir á svæðinu sem ekki eru félagar þá vill stjórn hestamannafélagsins vekja athygli á eftirfarandi staðreyndum: Án öflugs félags væri erfitt að stunda hestaíþróttina hér í Mosfellsbæ og klárlega væru aðstæður til hestaíþrótta mun verri hér ef ekki hefði notið við félagsstarfs Harðar í rúm 50 ár. Hestamannafélagið Hörður er hagsmunagæsluaðili hestamanna í Mosfellsbæ og hefur það hlutverk að sjá til þess að hér sé gott og öflugt hestaíþróttastarf og þá bæði sem keppnis- og almenningsíþrótt. Þetta er oft mikið starf og það er ekkert leyndarmál að það kostar peninga að halda úti félaginu og því er haldið á floti með félagsgjöldum okkar félagsmanna. Um leið og við viljum þakka kærlega okkar dyggu félagsmönnum sem ávallt borga félagsgjaldið sitt þá viljum við biðja þá sem ekki sjá ástæðu til að greiða gjöldin, þrátt fyrir að vera skráðir félagar og einnig þá sem ríða hér út, en sjá ekki ástæðu til að vera félagar, að íhuga þessar staðreyndir: Landsamband hestamanna eru hagsmunasamtök hestamanna og þau eru rekin að miklu leiti af hestamannafélögum landsins. Þannig er greitt gjald til LH fyrir hvern sem er í félaginu, um 1300 krónur á fullorðinn einstakling. Þetta gjald fer ekki eins og margir halda einungis í þágu keppnismanna, heldur er þetta notað í reiðvegagerð og fleiri mál sem lúta að heildarhagsmunum hestamanna. Þetta gjald þurfum við að borga, einnig fyrir þá sem eru skráðir félagar en borga ekki félagsgjöldin, þetta fólk kostar því félagið beinharða peninga. U.þ.b 30 milljónir hafa á síðustu árum komið í reiðvegagerð á félagssvæði Harðar og tengileiðir til og frá okkur frá Landsambandi hestamanna og bæjarfélaginu. Félagið sér um að sækja og semja um þessar greiðslur en án félagsmanna fengjum við ekkert af þessu. Hugsið ykkur hvernig reiðvegirnir okkar væru án þessara 30 milljóna sem eytt hefur verið í þá. Miklir hagsmunir eru því í húfi fyrir okkur öll. Með sem mestum fjölda félagsmanna aukum við ennþá á þjónustu við hestamenn og erum mun öflugri og meira sannfærandi þrýstihópur. Það er mun auðveldara að semja um viðhald og nýlagningu reiðvega ef við getum sýnt fram á þann fjölda sem komi til með að nýta sér þá. Þetta gildir ekki bara í sambandi við reiðvegi, heldur einnig hvað varðar reiðhöll og alla aðra aðstöðu. Síðast en ekki síst þurfum við að sýna fram á fjölda hestamanna í Mosfellsbæ til að tryggja okkur áfram það rými sem við þurfum til að stunda íþróttina okkar. Kæru hestamenn í Mosfellsbæ – tökum nú höndum saman og sjáum til þess að hér sé rekið öflugt félag svo hér megi hestamennskan blómstra og dafna. Hvetjið endilega alla sem ekki eru félagar til að skrá sig og gleymið ekki að borga gjaldið – miklir hagsmunir eru í húfi fyrir okkur öll! Áfram Hörður og hestamennska í Mosfellsbæ!