LAUSAGANGA HUNDA

Af gefnu tilefni viljum við koma því skýrt á framfæri að lausaganga hunda er bönnuð á Harðarsvæðinu og reiðgötum Mosfellsbæjar, eins og annars staðar í Mosfellsbæ. Lausir hundar geta verið hvimleiðir í íbúðarhverfum, en í hesthúsahverfum og á reiðgötum eru þeir beinlínis hættulegir, án þess þó að nokkuð sé að hundinum í sjálfu sér.  Það eitt að hann er laus og er á vitlausum stað á vitlausum tíma þannig að hestur fælist er hættulegt.  Það hafa því miður orðið mjög alvarleg slys hér á Harðarsvæðinu af völdum hunda sem fælt hafa hesta, þannig slasaðist kona í fyrra það alvarlega að hún getur ekki farið á hestbak í dag, nærri ári eftir slysið þegar laus hundur stökk skyndilega út á reiðveginn fyrir framan hana. Nú í ár er búið að tilkynna um nærri tug tilfella þar sem hestar hafa fælst vegna lausra hunda og ýmist orðið slys eða legið við slysi, og aðeins mánuður liðinn frá því að tekið var inn.

Reglan er einföld, hundar eru velkomnir á Harðarsvæðið eins og annarsstaðar í Mosfellsbæ, en í bandi !.  Lang flestir hundaeigendur virða þessa reglu, en því miður ekki allir.

Þessi tíðu slys sem orðið hafa af þessum völdum hafa leitt til þess að hundaeftirlit Mosfellsbæjar mun hafa vakandi auga á hverfinu á næstunni og fjarlægja alla lausa hunda sem sjást á svæðinu, hvort heldur er í hverfinu eða á reiðgötunum.

Reynum svo að sýna þessu skilning og berum virðingu fyrir lífi og limum samfélagsmanna okkar. Ég vil biðla til ykkar ágætu hundaeigendur, eða þá ykkar sem enn láta hundana ganga um lausa, að taka á þessu máli sjálf, svo við þurfum ekki að láta það spyrjast um okkur Harðarfélaga að það þurfi að koma til kasta yfirvalda að loka þessari slysagildru á Harðarsvæðinu.

Guðjón Magnússon formaður