Kveðja frá Önnu Björk formannsfrú

Sælar allar Formannsfrúarreiðkonur,  mikið var dagurinn frábær, er enn að fara yfir hann í huganum.  Allt sem við upplifðum saman í ólýsanlegu veðri í frábærum hóp undir óskeikulli fararstjórn Lillu.  Hugsið ykkur allt sem hefði getað gerst, en gerðist ekki af því að hópurinn var einhuga um að láta allt ganga upp, viðvaranir við pyttum, drullu, halla eða annarri torfæru  kallaðar aftur íhópinn og látið ganga, (stökkbreyttist stundum í eitthvað annað ;-O eftir því sem það ferðaðist  aftur í hópinn).  Hjálpin sem  við fengum á leiðinni frá eiginmönnum og öðrum aðdáendum var

ómetanleg.  Rosalega fegnar að þurfa ekki að nýta okkur  sérfæði þjónustu okkar ágæta Ingvars læknis sem kom þó til að tékka á sinni, eða Helga dýra, sem átti þó fleiri í hópnum.  Óvæntar uppákomur eins og að Helgi Björnsson aðal  söngvari hestamanna skyldi fara uppá bílpall á Skeggjastöðum  og taka lagið fyrir okkur.  Stórbrotið  landslagið,  náttúrufegurði á leiðinni, kyrrðin og yndisleg sól.  Allar kappklæddar tilbúnar í allt nema það sem kom, hahaha, skrældum af okkur lögin eins og við værum laukar, peysur fuku, vettlingar og  göllum pakkað saman og hefðum gefið mikið fyrir að stinga hausnum undir kalda bunu af vatni.  Persónuleg markmið sett og kláruð með glans.  Þreyttar en í sæluvímu komum við í hús.  Harðarból  hafði  orðið fyrir sprota álfdrottningarinnar Gunnu í Dalsgarði,  óþekkjanlegt,  í nýja glæsilega búningnum sem hún færði hann í.  Maturinn frábær,  Makkerinn og  Ragga sáu um að enginn var þyrstur eða þurfandi fyrir neitt.  Gítarspilið hjá Guðjóni  formanni  og Hákoni setti svo lokapunktinn á hátíðina. 

Takk allir fyrir að láta þessa litlu hugmynd sem ég fékk í vetur  verða að þessum yndislega  veruleika, sem ég ætla að ylja mér á í huganun lengi,

TAKK FYRIR MIG,  Anna Björk