Og enn meira um hóstann

Smitandi hósti í hrossum – stöðumat 4. maí

Sigríður Björnsdóttir dýralæknir smitsjúkdóma birti stöðumat á heimasíðu Landsambandsins í dag. Mjög þarfur og góður pistill (vinsamlega lesið til enda).

Nú eru 4 vikur liðnar frá því tilkynning barst um smitandi hósta í hrossum, nokkuð samtímis í Skagafirði og á Suðurlandi. Þá þegar var ljóst að veikin hafði búið um sig um nokkra hríð, 3-4 vikur hið minnsta og kannski miklu lengur.Þó ekki sé búið að greina orsökina hefur nokkur reynsla safnast um gang veikinnar og myndin skýrist dag frá degi.

Einkenni:

Greinilegasta einkennið er þurr hósti sem menn verða oft fyrst varir við í reið. Samtímis eða nokkru fyrr má í sumum tilfellum greina slappleika og nefrennsli, í einstaka tilfellum mæði. Þegar frá líður fá mörg hrossanna mikinn, graftarkenndan hor og hósta þá gjarnan mikið og frísa. Þau sem fara verst út úr sýkingunni fá hita. Einkennin vara í 2 – 4 vikur og lengur í einhverjum tilfellum.


Faraldsfræði:
Misjafnt er hversu langan tíma tekur frá því smit berst í hesthús þar til hestarnir fara að hósta eða 1 – 3 vikur. Sjúkdómsferillinn virðist býsna líkur milli hesthúsa og er einkennandi að aðeins fáir hestar veikjast í byrjun og yfirleitt vægilega. Þá er eins og smitið magnist upp og einni til tveimur vikum síðar eru allir hestarnir í húsinu farnir að hósta og jafnvel komnir með graftarkennt nefrennsli. Það má ganga að því vísu að allir hestar sem á annað borð eru í smituðu umhverfi veikist. Bendir það til þess að allur hrossastofninn sé næmur fyrir sýkingunni og því er líklega um nýtt smitefni að ræða hér á landi. Ekki liggur fyrir hversu lengi hross smita út frá sér eða hversu langur tími líður frá því veikin gengur yfir í hesthúsi þar til það verður smitfrítt.
Algengasta og greinilegasta smitleiðin er með smituðum eða veikum hrossum sem flutt eru milli húsa. Einnig berst hún með reiðverum og líklega geta menn borið hana á milli hesta ef ekki er gætt nægilegs hreinlætis. Veikin hefur nú borist í útigangshross en alla jafna sýna þau aðeins væg sjúkdómseinkenni.
Ekki eru fyrirliggjandi tæmandi upplýsingar um útbreiðslu sjúkdómsins þegar þetta er skrifað en vitað með vissu að hann er í: Skagafirði, Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Borgarfirði, Reykjavík og á Reykjanesi. Einhver dæmi eru um veik hross í Eyjafirði og í Húnavatnssýslum.


Meðferð veikra hrossa:
Algjör hvíld er lykilatriði allt frá því fyrst verður vart við einkenni sjúkdómsins. Búa verður hrossunum......

.eins loftgott umhverfi og frekast er unnt án þess þó að það slái að þeim eða þeim verði kalt. Gott er að nota ábreiður á hross sem að mestu eru gengin úr vetrarhárum. Með hlýnandi veðri er æskilegt að hafa hrossin mikið úti við. Lyfjameðhöndlun kemur til greina hjá þeim hrossum sem harðast verða úti, einkum þeim sem fá hita og/eða mikinn hor.
Varast ber að byrja brúkun fyrr en hrossin eru örugglega hætt að hósta og helst ætti ekki að byrja að nota þau fyrr en nokkrum dögum eftir að öll einkenni eru gengin yfir. Að öðrum kosti er hætt við að veikin taki sig upp aftur og hrossin verði lengur að komast í nothæft form.  Búast má við að glannaleg meðferð auki líkurnar á asma og öðrum eftirköstum. Byrja skal þjálfun á ný afar rólega m.a. til að tryggja að hrossið sé örugglega hætt að hósta en einnig verður að gera ráð fyrir takmörkuðu þreki og þoli fyrst eftir að bata er náð.

Greiningar:
Veirurannsóknir hafa hingað til ekki skilað árangri. Búið er að útiloka þekktar öndunarfærasýkingar s.s. hestainflúensu, smitandi háls og lungnakvef/fósturlát (herpes týpa 1) og Rhino-kvef. Þó enn sé unnið að greiningu sjúkdómsins er möguleiki á því að orsökin finnist ekki ef um óþekkta veiru í hrossum að ræða og þar af leiðandi engin þekkt próf fyrir hendi. Út frá faraldsfræðinni og klínískum einkennum sem að framan eru rakin má þó telja næsta víst að veirusýking sé frumorsökin og að hún veiki slímhúðina og opni fyrir öðrum sýkingum. 

Bakteríuræktun hefur leitt í ljós að mikið er um sýkingar með Streptococcus zooepidemicus sem reyndar er algeng baktería í nefholi hesta. Svo virðist sem hún nái sér verulega á strik í kjölfar veirusýkingarinnar og valdi bæði alvarlegri hósta og hinum mikla gratarkennda hor.

Hvað er framundan:

Tekið skal fram að ekki er víst að öll kurl séu komin til grafar hvað varðar orsakir og/eða eftirköst sjúkdómsins og því erfitt að spá fyrir um hvað verður. Vonir eru bundnar við að verulega dragi úr smitinu með vorinu og að sjúkdómurinn valdi því ekki röskunum á sjálfu LM 2010.
Hestaeigendur eru hvattir til að fylgja þeim leiðbeinandi reglum sem gefnar hafa verið út og flytja ekki milli húsa eða staða veika eða smitaða hesta. Alls ekki má mæta með slíka hesta á mót eða sýningar af nokkru tagi og halda skal keppnis- og sýningahaldi í lágmarki.


Sigríður Björnsdóttir
Dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun