Hóstinn

Hér er grein um "hóstann" af vef Matvælastofnunar

Smitandi hósti í hrossum dregur dilk á eftir sér

Tekið af vef Matvælastofnunar, www.mast.is
 
Smitandi hósti breiðist áfram út meðal hrossa sem haldin eru á húsi víða um land. Enn hefur ekki fundist hvað veldur en allt bendir til að um veirusýkingu sé að ræða sem magnast upp í þétt skipuðum hesthúsum. Í kuldatíð undanfarinna vikna hefur reynst erfitt að halda góðu lofti í húsunum án þess að slái að hrossum sem gengin eru úr hárum og má reikna með að það hafi haft sitt að segja. Búið er að útiloka allar alvarlegustu veirusýkingarnar sem þekktar eru og leggjast á öndunarfæri hrossa s.s. hestainflúensu, smitandi háls og lungnakvef/ fósturlát (herpes týpa 1) og Rhino-kvef. Unnið er áfram að greiningu bæði á Tilraunastöðinni á Keldum og á Dýralækningastofnun Svíþjóðar.
Bakteríusýkingar virðast í mörgum tilfellum fylgja í kjölfarið og geta hrossin þá fengið hita og graftarkenndan hor í nös. Bakteríuræktun hefur leitt í ljós að oft er um að ræða streptókaokka sem nú er verið að greina nánar. Slíkar sýkingar er í mörgum tilfellum hægt að meðhöndla. Því miður er að koma í ljós að mörg hross eru lengi með þetta kvef, allt upp í 4 vikur og enn sér ekki fyrir endann á því hversu lengi þau verða að jafna sig að fullu.
Áfram er ráðlagt að hvíla öll hross með einkenni og verja þau fyrir kulda og trekki. Samtímis þarf að tryggja þeim gott loft og með hlýnandi veðri ættu hrossin að geta verið meira úti. Hvíldin er mikilvægust í byrjunarfasa sjúkdómsins og hestamenn eru hvattir til að vera vel á verði fyrir fyrstu einkennum sýkingarinnar sem eru þurr hósti, glært nefrennsli og slappleiki sem þó verður aðeins vart í reið. Það er ítrekað að ekki á að koma með veika hesta í hús þar sem veikin er ekki fyrir né breiða sýkinguna út með öðrum hætti. Alls ekki má nota veika hesta til sýningar eða keppni.

Væntingar eru um að smitálagið minnki með vorinu og hestahaldið falli þá í eðlilegan farveg.