Annar dagur á Íslandsmóti
- Nánar
- Flokkur: Fréttir
- Skrifað þann Föstudagur, júní 26 2009 22:49
- Skrifað af Super User
Dagskrá Íslandsmótsins hófst í morgun með keppni í fimi í blíðskaparveðri. Nokkrir höfðu á orði að nú mætti alveg auka vegsemd fimikeppninnar og jafnvel þyngja æfingarnar í ljósi þess að flestir yngri knapar hafa stundað knapamerkjanám og hafa því vald á mun flóknari æfingum en keppnin býður upp á í dag. Íslandsmeistari í barnaflokki varð Birna Ósk Ólafsdóttir á Vísi frá Efri-Hömrum, í unglingaflokki stóð Arna Ýr Guðnadóttir efst á Þrótti frá Fróni efst en Guðlaug Jóna Matthíasdóttir sigraði ungmennaflokkinn á hestinum Zorro frá Álfhólum.
Um hádegisbil braust sólin fram úr skýjunumog þá hófst keppni í tölti unglinga. Rakel Nathalie Kristinsdóttir átti aðra stórkostlega sýningu á Vígari frá Skarði og leiðir töltkeppnina með einkunnina 7,57. Í barnaflokki stendur Gústaf Ásgeir Hinriksson efstur á Knörr frá Knörr frá Syðra-Skörðugili og Valdimar Bergstað er efstur í ungmennaflokki á Leikni frá Vakursstöðum.
Í slaktaumatölti áttu Agnes Hekla Árnadóttir og Öðlingur frá Langholti frábæra sýningu og verma fyrsta sætið verðskuldað eftir forkeppni. Agnes Hekla gerði sér lítið fyrir skömmu síðar og varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði í unglingaflokki. Valdimar Bergstað fylgdi einnig eftir góðum árangri í töltinu og varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði ungmenna á Orion frá Lækjarbotnum.
Heilt á litið hefur mótið gengið mjög vel fyrir sig, tímasetningar hafa staðist með ágætum og margar glæsilegar sýningar hafa glatt augu áhorfenda sem voru vel vakandi í brekkunni í sólinni í dag og klöppuðu óspart eða þeyttu bílflautur þegar við átti.
Á morgun laugardag, hefst keppni í fimmgangi ungmenna klukkan 10 og síðdegis byrja svo fyrstu B-úrslitin.