Fyrri dagur á gæðingamóti Harðar
- Nánar
- Flokkur: Fréttir
- Skrifað þann Laugardagur, júní 06 2009 22:51
- Skrifað af Super User
Gæðingamót Harðar hófst í morgun í blíðskaparveðri með forkeppni í B- flokki. Grettir Jónasson átti stórgóða sýningu á Gusti frá Lækjarbakka í flokki atvinnumanna og hlaut í einkunn 8,67. Í flokki áhugamanna stendur efstur Hallgrímur Óskarsson á Dróma frá Reykjakoti.
Í A- flokki gæðinga, atvinnumannaflokki, átti Súsanna Ólafsdóttir frábærar sýningar á stóðhestunum sínum. Óttar frá Hvítárholti sem hingað til hefur verið þekktari fyrir að gera það gott í B-flokki er lang efstur eftir forkeppni með einkunnina 8,77. Hyllir frá Hvítárholti er svo í öðru sæti með 8, 50. Í flokki áhugamanna stendur Leó Hauksson efstur á Þrumugný frá Hestasýn.
Í barnaflokki er Páll Jökull Þorsteinsson efstur á Hrók frá Enni og þeir félagar unnu einnig það afrek að ná öðru sætinu í úrslitum í tölti, 2. flokki og skaut Páll þar mun eldri og reyndari reiðmönnum ref fyrir rass. Í unglingaflokki er Jóhanna Margrét Snorradóttir efst á Djásn frá Hlemmiskeiði og Sigurgeir Jóhannsson á Glæsi frá Feti í ungmennaflokki.
Forkeppni og úrslit í tölti fóru fram í dag og sigraði Sævar Haraldsson á Stíg frá Halldórsstöðum opna flokkinn en Sigurður Ólafsson á Jesper frá Leirulæk 2. flokk.
Þá var keppt í 150 metra skeiði og sigraði Alexander Hrafnkelsson á Hug frá Grenstanga en hann lá sprettinn á 15,74 sek.
Eins og áður sagði lék veður mjög við keppendur og mótsgesti í dag og margar glæsilegar sýningar glöddu augað. Keppni verður haldið áfram á morgun klukkan 12 en þá hefst dagskráin með keppni í pollaflokki og unghrossum í tamningu. Eftir það verða síðan úrslit í öðrum flokkum. Við bjóðum hestaunnendur velkomna í Mosfellsbæinn til að fylgjast með glæsilegum hrossum í fallegu umhverfi.