VÍS og Landbúnaðarháskóli Íslands efna til öryggisnámskeiðs í hestamennsku:
- Nánar
- Flokkur: Fréttir
- Skrifað þann Miðvikudagur, febrúar 27 2008 11:48
- Skrifað af Super User
Annars vegar verður bókleg fræðsla um öryggismál í Ásgarði á Hvanneyri og hins vegar sýnikennsla í reiðhöllinni að Mið-Fossum. Ýmiss konar búnaður
tengdur öryggismálum í hestamennsku verður sýndur og allir þátttakendur á námskeiðinu fá afhentan nýútkominn bækling VÍS og Landssambands hestamannafélaga um öryggismál í hestamennsku. Farið verður yfir helstu atriði sem snerta samskipti manns og hests og knapar þurfa að hafa í huga til að lágmarka slysahættu. Fjallað verður einnig um eðli hestsins og atferli, fóðrun og almennt hestahald. Þá verður farið yfir þau atriði sem knapinn þarf að huga að, áður en farið er á bak, s.s. stillingu reiðtygja og mat á ástandi hestsins. Kynning fer jafnframt fram á öryggisbúnaði og sýnt verður hvernig rétt áseta, stjórnun og jafnvægi knapans geta komið í veg fyrir að slys hendi. Vanir knapar, jafnt sem óvanir, detta af baki og til að draga úr slysahættu getur verið betra að láta sig detta og velja sér jafnvel lendingarstað. Á námskeiðinu verður sýnt hvernig á að „detta af baki“ með lágmarks afleiðingum og sér hópur undir stjórn Bjarna Friðrikssonar júdókennara um þann þátt sýnikennslunnar. Jafnframt verður kennt hvað hægt er að gera á slysstað til að hlúa að slösuðum einstaklingi þar til hjálp berst. Auk Bjarna og félaga taka fjölmargir aðrir leiðbeinendur þátt í fræðslunni, s.s. Reynir Aðalsteinsson tamningameistari, Elsa Albertsdóttir, fulltrúi í öryggisnefnd Landssambands hestamannafélaga, Rúnar Þór Guðbrandsson, umdæmisstjóri hjá VÍS og hestamaður, og björgunarsveitarmennirnir Berglind Ósk Óðinsdóttir og Sigtryggur Veigar Herbertsson. Námskeiðið hefst kl. 9:45 laugardaginn 8. mars í Ásgarði á Hvanneyri með bóklegri fræðslu sem stendur til kl. 13:00. Sýnikennslan fer fram í hestamiðstöð Landbúnaðarháskólans að Mið-Fossum í Borgarfirði frá kl 13:30 til 16:00. Hádegisverður er innifalinn í námskeiðinu. Hægt er að skrá þátttöku á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., eða í síma 433 5033 / 843 5302. Greiða skal þátttökugjaldið, 2.500- krónur, við skráningu á reikninginn 1103-26-4237, kt. 411204-3590 og nafn viðkomandi þátttakanda í skýringar og senda greiðslukvittun á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Nánari upplýsingar veita:Elsa Albertsdóttir, fulltrúi í öryggisnefnd LH og doktorsnemi við LbhÍ, í síma 433 5022 eða 433 5000.Þorvaldur Kristjánsson, Landbúnaðarháskóla Íslands, í síma 433 5000 eða 8662199.Ragnheiður Davíðsdóttir, forvarnafulltrúi VÍS, í síma 560 5222.