Lokadagur Íslandsmóts
- Nánar
- Flokkur: Mótanefnd
- Skrifað þann Sunnudagur, júní 28 2009 19:22
- Skrifað af Super User
Þá er lokið Íslandsmóti barna, unglinga og ungmenna í hestaíþróttum árið 2009. Veðrið hélst að mestu gott en þó kom smá hitaskúr um miðjan daginn, sem er alls ólík þeirri íslensku rigningu með tilheyrandi roki sem við Íslendingar eigum að venjast. Úrslit í öllum greinum fóru fram í dag og óhætt er að segja að glæsileg tilþrif hafi sést í öllum flokkum.
Gústaf Ásgeir Hinriksson er Íslandsmeistari í fjórgangi barna á hinum flinka Knerri frá Syðra-Skörðugili. Þeir félagar átti glæsillega sýningu og fengu einkunnina 6,67. Enginn ógnaði sigri Rakelar Natalie Kristinsdóttur í unglingaflokki á stóðhestinum Vígari frá Skarði en þau hlutu hvorki meira né minna en 7,70 í einkunn. Í ungmennaflokki stóð Camilla Petra Sigurðardóttir sig frábærlega á Kalli frá Dalvík. Þau urðu Íslandsmeistarar eftir að hafa unnið sig upp úr B- úrslitum.
Í slaktaumatölti sigraði Agnes Hekla Árnadóttir á Öðlingi frá Langholti.
Róbert Bergmann er Íslandsmeistari í tölti barna á hinni hreyfingamiklu Brynju frá Bakkakoti. Töltsýning þeirra var glæsileg og einkunnin í samræmi við það, 7,22. Rakel Natalie lék sama leikinn og í fjórgangnum en þau Vígar sigruðu töltið af miklu öryggi með einkunnina 8, 06 sem var hæsta einkunn sem gefin var á mótinu. Valdimar Bergstað og hinn lipri Leiknir frá Vakursstöðum sigruðu líka örugglega í ungmennaflokki með einkunnina 7,94.
Fimmgangur unglinga var æsispennandi og munaði litlu á efstu knöpum. Jöfn í fyrsta til öðru sæti voru Oddur Ólafsson á Litfara frá Feti sem kom úr B- úrslitumog Ólöf Rún Guðmundsdóttir á glæsihryssunni Toppu frá Vatnsholti en þau hlutu bæð 6,55 í einkunn. Eftir sætaröðun dómara varð ljóst að Ólöf Rún er Íslandsmeistari í fimmgangi unglinga. Í ungmennaflokki var einnig mjótt á mununum og voru Valdimar Bergstað og Orion frá Lækjarbotnum og Teitur Árnason á Glað frá Brattholti í tveimur efstu sætunum. Þegar verið var að lesa upp úrslitin var ljóst að Valdimar var búinn að játa sig sigraðan. En þegar í ljós kom að hann var orðinn Íslandsmeistari í fimmgangi ungmenna gat hann illa leynt gleði sinni og tóku þeir Orion nokkur gleðihopp um völlinn. Sannarlega einlægur fögnuður hjá þessum mikla keppnismanni.
Mótsstjórn vill þakka keppendum fyrir drengilega keppni, dómurum fyrir fagmannlega dómgæslu og öðru starfsfólki fyrir vel unnin störf, ekki síst þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóginn.
Takk fyrir komuna í Mosfellsbæ.