- Nánar
-
Flokkur: Formaður
-
Skrifað þann Miðvikudagur, júní 04 2003 06:31
-
Skrifað af Formaður
Það hefur verið mikið að gerast hjá okkur í félaginu að undanförnu og sennilega hægt að segja að eitthvað hafi verið í boði fyrir alla. Mótahald hefur verið líflegt, ferðanefnd hefur staðið fyrir vinsælum ferðum og Fjölskyldudagur og Umhverfisdagur vel sóttar og skemmtilegar uppákomur. Opinn félagsfundur þann 8. maí var ekki eins vel lukkaður, fyrir utan þá sem voru á staðnum frá stjórn og nefndum til að kynna starfið voru aðeins tveir sem gátu með réttu talist vera gestir. Þeir sem mættu áttu þó gott spjall um félagið og það sem hefur verið að gerast og er í bígerð. Það var afskaplega miður að ekki mættu fleiri, sérstaklega þar sem kynnt voru ýmis mál sem hafa verið í umræðunni og heyrst hefur að nokkurs misskilnings gætti um. Ég vil hvetja fólk til að mæta á slíka fundi en þeir eru vissulega hugsaðir sem vettvangur fyrir félagsmenn til að heyra frá fyrstu hendi hvað stjórn og nefndir eru að sýsla og hver staða hinna ýmissu mála er sem verið er að vinna í. Jafnframt eru þeir vettvangur til að láta í sér heyra og hafa áhrif á starf félagsins.
Framundan hjá okkur er Íslandsmót yngri flokka og er það mjög við hæfi að við Harðarmenn tökum að okkur þetta mót nú í ár. Hér hefur í fjölda ára verið sérlega öflugt og markvisst æskulýðsstarf og nefndin sem nú starfar státar af sérlega starfsömu og metnaðarfullu fólki. Íslandsmótið er samstarfsverkefni mótanefndar og æskulýðsnefndar og eins og alltaf þá bráðvantar fólk til að leggja hönd á plóginn. Ég hvet alla sem tök hafa á að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og stuðla að því að hér verði haldið sem glæsilegast íslandsmót fyrir yngri flokkana.
Nú styttist í að gefin verði út Litla handbók hestamannsins en það er verkefni sem Konráð Adolphson í fjáröflunarnefnd hratt af stað og hefur stýrt af miklu öryggi. Handbókin er allsherjar upplýsingarit um hestmennsku þar sem tæpt er á öllum helstu þáttum sem þarft er að vita um þegar fólk byrjar í hestamennsku. Ekki er farið ítarlega í hvert atriði en leitast við svara helstu spurningum sem vakna þegar farið er af stað í íþróttinni. Ritstjóri og umsjónarmaður bókarinnar er Hulda Geirsdóttir en það var mikið gæfuspor og lukka að fá hana til verksins enda hefur hún þá þekkingu og reynslu sem verkefni af þessu tagi krefst. Ætlunin er að gefa handbókina út síðar í þessum mánuði og ég hvet félagsmenn til að fylgjast vel með því og tryggja sér eintak þegar þar að kemur.
Fjöldamargt annað er vissulega á döfinni hjá okkur en ekki er hægt að gera því skil í pistli sem þessum, ég hvet fólk til að fylgjast vel með heimasíðunni okkar This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og óska ykkur öllum gleðilegs sumars.
Kær kveðja, Þórhildur Þ.